Akureyringar eru ekki par sáttir við skrif Aðalheiðar Ámundadóttur, blaðamanns Fréttablaðsins, um sig í blaðinu í gær. Í dálknum Frá degi til dags, sem finna má á leiðarasíðu blaðsins, var skotið á bæinn og bæjarbúa:
„Þótt Akureyri sé ef til vill enn þá höfuðstaður Norðurlands virðist hún vera að staðna bæði í vexti og þroska og er að hrökkva niður í fimmta sæti yfir fjölmennustu þéttbýlisstaði landsins. Reykjanesbær virðist hafa meira aðdráttarafl með verksmiðjurnar sínar en Akureyri sem þó hefur fallegt umhverfi, góða þjónustu, háskóla og hreppafluttar ríkisstofnanir,“ sagði Aðalheiður.
Beindi hún svo spjótum sínum að bæjarbúum, en það hefur lengi loðað við Akureyri að aðkomumenn eigi erfitt uppdráttar: „Þeir aðlagist ekki samfélaginu, kynnist ekki heimamönnum og fyrirtæki þeirra fari lóðbeint á hausinn gerist þeir svo bíræfnir að ætla sér að eiga viðskipti við heimamenn.“ Kannski sé þetta mýta en það kalli á naflaskoðun Akureyringa því meira en bærinn fellur niður listann yfir fólksfjölda.
Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, vekur athygli á þessu á Facebook og spyr: „Er hugsanlegt að það votti fyrir fordómum og hroka í þessum skrifum?“
Ljóst er að skrif Aðalheiðar fóru illa ofan í marga Akureyringa. Til að mynda segir Rögnvaldur Már Helgason, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Norðurlands og fyrrverandi fréttamaður: „Aðallega hljómar þetta svolítið biturt.“ Þórgný Dýrfjörð, framkvæmdastjóra Akureyrarstofu, fannst þetta mjög fyndið: „Hahaha… þetta er rosalegt.“ Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, stjórnandi Circle Air og fyrrverandi framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, segir: „Þetta er nú fyrst og fremst heimóttarlega skrifað í gegnum rörið… Það vottar ekki fyrir yfirsýn eða þekkingu a.m.k.“
Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, segir þetta „óttalega ódýra sleggjudóma“: „Hins vegar er það alrangt að Akureyri hafi hætt að stækka – hún hefur verið í ótrúlega stöðugum vexti í rúmlega hundrað ár. „Aðkomufólk“ þ.e.a.s. fólk fætt annars staðar er u.þ.b. 40% íbúafjöldans, þannig að eitthvað gengur brösuglega að hrekja það í burtu.“
Aðalheiður svarar honum og segir það takast ef menn leggi sig fram. Þóroddur svaraði henni með línuriti yfir þróun mannfjölda frá 1880 til 2018:
Bergþór Pálsson, söngvari og fagurkeri, blandaði sér svo inn í umræðurnar og sagði: „Vingjarnlegheit og fagmennska í þjónustu er einstök á Akureyri, hvort sem er á hjólbarðaverkstæði eða fatabúð. Það þýðir að það er rótgróin siðmenning hjá fólki sem býr þar. Annað sem segir mikið um íbúana, er að þetta er eini staðurinn á landinu þar sem stoppað er fyrir gangandi fólki á gangbraut.“ Vandinn sé sá að það er erfitt að keppa við höfuðborgarsvæðið um fjölbreytni í afþreyingu og atvinnumöguleikum: „Reykjanesbær hefur ekkert betra að bjóða en Akureyri, hann stækkar bara af því að húsnæði er ódýrara en í Reykjavík, en samt auðvelt að skreppa til að nýta sér fjölbreytnina.“
Þessu er Aðalheiður sammála: „Góð þjónusta, fallegt umhverfi og allt til alls. En engu að síður tala mjög margir um hið lokaða samfélag sem erfitt er fyrir aðflutta að aðlagast og Akureyri er alveg sérstaklega þekkt fyrir þetta.“ Hún sjálf bjó á Akureyri í 10 ár, var meðal annars oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi í kosningunum 2013, hún segir að þrátt fyrir að hafa búið þar í áratug sé eini vinurinn sem hún hafi eignast verið Húsvíkingur: „Ég ætla ekki að halda því fram að ég hafi sjálf lagt mig alla fram, en ég held þetta sé ekki alveg úr lausu lofti gripið samt. Það eru bara of margir á þessari skoðun og segja þetta löst á annars frábærum og fallegum bæ.“