Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) úthlutaði 19 styrkjum úr Menningar- og viðurkenningasjóði félagsins í árslok, alls 15 milljónum. Um var að ræða seinni úthlutun ársins, en í maí 2018 var rúmlega 19 milljónum úthlutað úr sjóðnum, segir í frétt á Austurfrétt.
Veittir eru styrkir í nokkrum flokkum og eru flokkarnir menning, menntun og íþróttir fyrirferðarmiklir. Hæstu styrkina á þessu ári hlutu eftirtaldir: Endurbygging gamla Lúðvíkshússins 10 milljónir, Eistnaflug rokkhátíð 6 milljónir, Neistaflug fjölskylduhátíð 3,5 milljónir, Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað 3,7 milljónir til tækjakaupa og íbúar í þjónustuíbúðum fatlaðra fengu 1 milljón til bílakaupa.
Samvinnufélag útgerðarmanna á eignarhlut í Síldarvinnslunni hf. og nýtir stóran hluta af árlegum arði af þeirri eign til að styrkja samfélagsverkefni í heimabyggð. Auk áðurnefndra styrkja setti SÚN um 20 milljónir í önnur samfélagsmál og til íþróttafélaga og nema styrkir ársins því alls um 44 milljónum.
„Segja má að ég sé í mjög þakklátu starfi”
Guðmundur R. Gíslason er framkvæmdastjóri SÚN. „Ég tel að það skipti samfélagið í Neskaupstað miklu máli að Samvinnufélagið hafi þessa stefnu að úthluta svo háum upphæðum á hverju ári. Í rauninni koma styrkirnir sér í mörgum tilfellum vel fyrir Austurland allt, þegar þeir renna til stofnana eins og sjúkrahússins, flugvallarins og sambærilegra verkefna.
Við finnum fyrir mjög mikilli jákvæðni og segja má að ég sé í mjög þakklátu starfi, en það eru stórar úthlutanir tvisvar á ári og fjölmargar þess utan. Við finnum fyrir miklu þakklæti frá þeim sem hljóta styrki og samfélagsins alls.“