Hljómsveitin DIMMA spilaði á aðfangadag á Litla Hrauni ásamt Bubba Morthens, en þar hefur Bubbi spilað í 30 ár. Í byrjun janúar tók Egill Örn Rafnsson svo við trommukjuðunum úr hendi Birgis Jónssonar.
Í dag fóru DIMMU drengir í heimsókn í fangelsið á Hólmsheiði þar sem Páll Winkel fangelsismálastjóra tók á móti þeim og tók við góðri gjöf frá DIMMU.
„Eftir að við spiluðum á Hrauninu á aðfangadag komu fangar til mín og voru að spyrja í hvaða búðum væri hægt að kaupa plöturnar okkar,“ segir Silli Geirdal, bassaleikari DIMMU í samtali við DV. „Þá datt mér í hug að gefa öllum fimm bókasöfnum og stúdíóinu á Sogni allar Dimmuplöturnar, Jak plötuna og að auki plöturnar sem við gerðum með Bubba.“
„Það er alveg gaman að taka á móti embættismönnum í vinnunni en það var óneitanlega skemmtileg tilbreyting að kynna þessum herramönnum Hólmsheiði. Takk fyrir komuna,“ segir Páll.