fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Malín Brand: Alin upp í Vottum Jehóva – Lögð í einelti alla barnæskuna

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 5. janúar 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Malín Brand er 37 ára og hefur þrátt fyrir ungan aldur upplifað meira á ævinni en margur annar. Hún var alin upp við stranga trú Votta Jehóva og þekkti ekki jól, afmæli eða annað slíkt í æsku og á unglingsárum og giftist ung manni sömu trúar. Í dag er hún nýlega trúlofuð ástinni í lífi sínu og komin í draumastörfin með kærleika og endurvinnslu að vopni.
Í viðtali við blaðamann DV ræðir Malín uppeldið og trúna, atvikið sem umturnaði lífi hennar, bíladelluna, Parkinson-sjúkdóminn, sem hún greindist með í fyrra og ástríðuna fyrir nýjum verkefnum og áskorunum.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Malín er alin upp í vottatrú, en móðir hennar, sem fædd var árið 1947, tók trúna árið 1971. „Það vissi enginn af hverju hún gerði þetta, hún hafði sem dæmi búið í Mið-Austurlöndum. Síðan kynntist hún pabba. Hann var aldrei í vottunum, var bara hlutlaus í þessu. Þau gerðu samkomulag, mamma fékk að ala okkur upp með þessu trúardóti og pabbi var alltaf í vinnunni og í flugbjörgunarsveitinni.“

Vottar halda ekki upp á afmæli eða jól með tilheyrandi hátíðlegheitum og veisluhöldum: mat, skrauti, pökkum og svo framvegis. Hvernig var að alast upp sem vottur  Jehóva?

„Ég átti enga vini í skóla, mér var strítt og ég var lögð í einelti, gróft einelti, alla skólagönguna,“ segir Malín. „Ég talaði aldrei um vottana að fyrra bragði, en ef ég var spurð þá sagði ég ekki ósatt. Sumir héldu einfaldlega að ég væri að fíflast.“

Vottarnir flúðu oft um jólin í sumarbústaði og segir Malín hennar fjölskyldu hafa gert það: „Eitthvert vottaþorp í Ölfusborgum í Hveragerði, fyndið.

Ég hef talað um það áður, að það að alast upp í vottunum sé trúarofbeldi. Maður er svo áberandi í að skera sig út úr hópnum. Þessar aðstæður kalla bara á að börnum sé strítt. Ég var oft með hnút í maganum við að fara í skólann, hann var eitthvað ægilegt í mínum augum.“

Malín segir umburðarlyndi orðið meira í dag í fjölmenningarsamfélagi og þrátt fyrir erfiða æsku segist hún engu vilja breyta úr uppeldinu. „Ég er hér út af þeirri krókaleið sem ég hef farið. Eftir sem áður finnst mér dapurlegt að hugsa til þeirra barna sem eru út undan, sem fá ekki jóla- og afmælisgjafir, ekki páskaegg, þau mega ekki mæta í afmæli til annarra barna, það er bannað. Svo sitja þau í tónmennt og mega ekki syngja með jólalögunum. Þegar ég var í kristinfræði, þá var ég tekin út úr þeim.“

Eftir grunnskólann fór Malín í Menntaskólann í Reykjavík og segir menntaskólaárin hafa verið góð og enginn leiðinlegur við hana þar. En hún skar sig þó enn úr fjöldanum. „Ég var gift kona, ég gifti mig þegar ég var 18 ára, manni sem var líka vottur,“ segir Malín. „Samnemendum mínum fannst skrítið þegar ég sagðist þurfa að fara heim að elda fyrir fjölskylduna.“

Úr MR hélt Malín síðan í Háskóla Íslands, þar sem hún lærði mannfræði og málvísindi. Þar lærði hún meðal annars gagnrýna hugsun og á sama tíma losaði hún sig undan hlekkjum vottanna og hjónabandsins. „Við skildum á sama tímabili. Það var auðvitað illa séð að ég væri að mennta mig. Ég sá að ég gat ekki gert sjálfri mér þetta lengur,“ segir Malín, sem var í Vottum Jehóva þar til hún var 23 ára.

Í kjölfarið skráði hún sig í Ásatrúarfélagið. „Þetta var pínu yfirlýsing hjá mér, svona ég ræð mér sjálf og ég má skipta um skoðun. Mér finnst heiðin arfleifð okkar mjög merkileg og Ásatrúarfélagið er mjög flott félag. Ég er ekki rosa virk, en ég fylgist samt með,“ segir Malín.

„Ég er ekki trúuð, ég segi stundum að ég sé guðleysingi, en ekki trúleysingi, fólk heldur oft að það sé eitt og hið sama. Það er svo margt ótrúlegt búið að gerast að ég get ekki neitað því að það fyllir mig auðmýkt. Eins og allt þetta stórkostlega fólk sem ég hef kynnst, til dæmis í gegnum ABC. Ég get ekki neitað því að hugsa að það sé til eitthvað æðra og það væri hrokafullt af mér að halda því fram að svo sé ekki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár