fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Íslenskt hamfarapopp

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 30. september 2018 21:00

Hamfarapopp. Einlægt en naívt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hamfarapopp er hugtak sem hefur náð að festa rætur í tónlistargeiranum. Er það nefnt eftir plötu Gunnars Jökuls Hákonarsonar frá árinu 1995 og var tónlistargagnrýnandinn Arnar Eggert Thoroddsen fyrstur til að nota það. Bjánapopp hefur einnig verið notað yfir tónlistina en hana flytja nær undantekningarlaust einyrkjar og yfirleitt eru plöturnar gefnar út á þeirra eigin vegum. Margir hlægja að slíkri tónlist jafn vel þótt hún sé unnin af mikilli einlægni og að baki liggja oft harmsögur tónlistarmannanna sjálfra. DV tók saman helstu íslensku hamfarapopparana og ræddi við Dr. Gunna um þennan sérstaka geira.

Listinn hér er langt því frá tæmandi enda margir íslenskir tónlistarmenn sem hafa annaðhvort dansað á línunni eða spilað ómengað hamfarapopp. Meðal þeirra eru Geirmundur Valtýsson, Hallbjörn Hjartarson, Anna Vilhjálms, Hemmi Gunn og Johnny King.

Dr. Gunni.
Ein besta plata Íslands flokkast sem hamfarapopp.

Beint frá hjartanu

Gunnar Lárus Hjálmarsson, hinn eini og sanni Dr. Gunni, er mikill áhugamaður um hamfarapopp. Hefur hann starfað með nokkrum hamfarapoppurum, þar á meðal Insol og Leoncie.

Hver er skilgreiningin á hamfarapoppi?

„Það er ekki til nein ein skilgreining að ég held. Þetta er popptónlist sem er utan við meginstrauma, þykir alls ekki hipp og kúl, heldur er oft gerð af vanefnum og jafnvel vanhæfni, en er þó alltaf laus við kaldhæðni, og kemur beint frá hjartanu.“

Af hverju hefur þú áhuga á því?

„Ætli það sé ekki aðallega tilgerðarleysið sem höfðar til mín, og svo er þetta oft bara góð tónlist.“

Finnst þér þetta góð tónlist?

„Margt af því, já.“

Hver er uppáhaldshamfarapopparinn þinn?

„Ég segi Jóhann R. Kristjánsson. Hann gerði frábæra plötu árið 1984, Er eitthvað að? og fékk hraksmánarlegar viðtökur. Mér finnst þetta hins vegar ein besta plata Íslandssögunnar!“

Er rangt að hlægja að hamfarapoppi ef harmsaga liggur að baki?

„Ætli það fari ekki eftir því hvort hláturinn sé kvikindislegur eða góðlátlegur.“

 

 

Gunnar Jökull
Konungur hamfarapoppsins átti erfitt líf.

Gunnar Jökull Hákonarson

Oft nefndur frumkvöðull hamfarapoppsins, enda gaf hann út plötuna sem stefnan er nefnd eftir, Hamfarir frá árinu 1995. Á plötunni voru lög eins og Kaffið mitt, Bíllinn minn, Hundurinn minn og Ég elska á annan veg. Um er að ræða skelfilegt skemmtarapopp með ýmsum kjánalegum hljóðum, svo sem hundagelti. Söngurinn virðist einnig sunginn í miklu ójafnvægi og stundum æsingi. Heyrist það til dæmis vel í laginu Bíllinn minn.

Gunnar var áður merkur tónlistarmaður, trymbill sem spilaði með sumum vinsælustu hljómsveitum landsins, Flowers og Trúbrot. Minnstu munaði að hann „meikaði“ það erlendis með hljómsveit sem nefndist Syn sem þróaðist út í stórsveitina Yes.

Hamfarir var samin eftir að Gunnar veiktist alvarlega af geðsjúkdómi og lést hann nokkrum árum eftir að platan kom út. Jón Gnarr flokkaði Gunnar sem bjánapoppara á sínum tíma og lenti í stuttri ritdeilu við Egil Helgason sem kom Gunnari til varnar.

 

Guðný María
Nýstirni í hamfarapoppi.

Guðný María Arnþórsdóttir

Guðný er nýjasta stjarnan í geiranum en hún vakti mikla athygli um páskana fyrir lag sitt, Okkar okkar páska. Fyllti hún þannig inn í tómarúm páskalaga en á þá hátíð hallar verulega í tónlist gagnvart jólum.

Síðan þá hefur hún dælt út lögum og er gjarnan fengin á samkomur til þess að syngja. Má nefna lög á borð við HM lagið Lang bestasta liðið mitt, Sumarhiti og Nú fer ég í helgarfrí.

Guðný, sem hefur meðal annars starfað sem dagforeldri, segist hafa orðið fyrir einelti og hæðni eftir að lögin hennar urðu vinsæl. Í viðtali við DV sagði hún að lögin og myndböndin virtust ögra ímynd fólks, sérstaklega eldri kvenna. Þess vegna fengi hún leiðinlegar athugasemdir á netinu.

 

Insol
Stórpólitískur þjóðlagasöngvari.

Insol

Tónlistarmaðurinn Ingólfur Sigurðsson, sem gengur undir listamannsnafninu Insol, gaf út sín fyrstu lög árið 1998. Síðan hefur komið út fjöldi platna í þjóðlagastíl frá honum.

Stærsti smellur Insol er lagið Hvenær mun hér á Íslandi rísa stjörnusambandsstöð og leyna áhrif þjóðlagasöngvara á borð við Bob Dylan sér ekki. Insol leikur á gítar, munnhörpu og hljómborð í lögum sínum auk þess að syngja.

Bankahrunið árið 2008 var Insol mjög hugleikið og gaf hann þá út lög á borð við Bankafylleríið er búið og Borgaðu fyrir burgeisana.

Árið 2009 kom út safnplatan Hátindar með öllum bestu lögum Insol fram að því. Dr. Gunni sá um að velja lögin á plötuna.

 

Gissur Björn.
Söngurinn var nánast óskiljanlegur.

Gissur Björn Eiríksson

Árið 2001 vakti reykvískur verkamaður athygli þegar hann gaf út plötuna The Beginning. Lögin voru sungin á ensku og platan innihélt meðal annars lögin The 3 Days of Jesus Christ and People, The Working People of Karl Marx 1819 og Learning and Living.

Undirspilið var hefðbundið skemmtarapopp en það var undarlegur söngurinn og samhengislausir textar sem vöktu athygli.

Mörgum fannst þetta bráðfyndið en Gissur var haldinn alvarlegum geðsjúkdómi. Hann lést aðeins 51 árs gamall árið 2008.

 

Leoncie
Liggur ekki á skoðunum sínum.

Leoncie

Vart þarf að kynna Leoncie, sem stundum er kölluð Indverska prinsessan eða Ískryddið, fyrir lesendum. Hún hefur skemmt Íslendingum, bæði með tónlistarflutningi og nektardansi, síðan árið 1982 þegar hún flutti hingað frá Danmörku. Upprunalega er Leoncie frá borginni Goa á vesturströnd Indlands.

Leoncie hefur verið tíður gestur á síðum dagblaða síðustu áratugi og þekkt fyrir beittar skoðanir. Hún hefur ítrekað kvartað undan kynþáttahatri og öfund margra vegna einstakra hæfileika hennar.

Lagasafn Leoncie er nú orðið gríðarlega stórt. Hún syngur yfir skemmtarapopp og hefur gefið út fjölda athyglisverðra myndbanda við lögin. Meðal vinsælustu laga hennar má nefna Come on Viktor, Engan þríkant hér og Ást á pöbbnum. Leoncie hefur nokkrum sinnum tekið þátt í undankeppni Eurovision en ekki hlotið brautargengi.

 

Gylfi Ægisson. Sennilega vinsælasti hamfarapoppari landsins.

Gylfi Ægisson

Sjóarinn siglfirski, Gylfi Ægisson, hefur lengi dansað á línu hamfarapopps en sum lög hans hafa náð miklum vinsældum. Ungur fór hann að fikta við hljóðfæri og spilaði með hljómsveitum. Hann vakti athygli þegar hljómsveit Ingimars Eydal flutti fyrsta útgefna lagið hans, Í sól og sumaryl, árið 1972. Þremur árum síðar gaf hann út sína fyrstu sólóplötu.

Gylfi hefur sungið mikið um sjómennsku og sagt örlagasögur af fræknum köppum. Lög eins og Minning um mann og Stolt siglir fleyið mitt nutu mikilla vinsælda á sínum tíma. Sólóplöturnar skipta tugum og auk þess hefur hann unnið með öðrum tónlistarmönnum.

Lög Gylfa eru mörg hver spiluð á skemmtara og í næfum stíl. Má því segja að Gylfi sé hamfarapopparinn sem „meikaði það.“ Í frægum pistli sem Jón Gnarr skrifaði í Fréttablaðið segir hann: „Þegar Gylfi Ægisson spilar Heimsumból á Casio-skemmtara fyllist heimilið af hátíðarbrag.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“