Skýjaborg er danssýning fyrir yngstu börnin þar sem litir, form, ljós og tónlist tala til barnanna. Verkið fjallar um tvær verur, Sunnu og Storm, sem vakna furðulostnar upp á dularfullum stað. Þar eru sífelld veðrabrigði og verurnar verða því stöðugt að takast á við nýjar aðstæður. Sýningin tekur tæpan hálftíma en í lok hennar er börnunum boðið að koma á sviðið til að leika sér, hitta verurnar og skoða leikmyndina.
Skýjaborg er fyrsta íslenska danssýningin sem er sérstaklega ætluð yngstu áhorfendunum. Hún var frumsýnd í Kúlunni, barnasviði Þjóðleikhússins í mars 2012. Skýjaborg var tilnefnd til þriggja Grímuverðlauna auk þess að hljóta Menningarverðlaun DV í flokki danslistar.
Skýjaborg verður sýnd sunnudaginn 30. september kl. 15, 7. október kl. 15 og 21. október kl. 15.
Danshöfundar: Tinna Grétarsdóttir í samstarfi við hópinn
Tónlist: Sólrún Sumarliðadóttir
Leikmynd og búningar: Guðný Hrund Sigurðardóttir og Tessa Sillars Powell
Flytjendur: Inga Maren Rúnarsdóttir og Snædís Lilja Ingadóttir
Framleitt af: Bíbí og Blaka