fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

Menningarverðlaun DV 2017: Tilnefningar í bókmenntum

Fókus
Föstudaginn 28. september 2018 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Menningarverðlaun DV fyrir árið 2017 verða afhent við hátíðlega athöfn föstudaginn 5. október klukkan 16:30 í nýjum og glæsilegum höfuðstöðvum DV að Suðurlandsbraut 14. Í ár verða veitt verðlaun í sjö flokkum; kvikmyndum, leiklist, tónlist, myndlist, bókmenntum, fræðum og stafrænni miðlun auk þess sem veitt eru sérstök heiðursverðlaun.

Þá verða lesendaverðlaun dv.is veitt en þar munu lesendur dv.is fá tækifæri til þess að kjósa það verk, listamann eða höfund sem þeim líst best á. Þriðjudaginn 2. október hefst netkosning á dv.is sem stendur til miðnættis 4. október. Sú tilnefning sem hlýtur flest atkvæði í netkosningunni hreppir lesendaverðlaun dv.is.

Hér má sjá tilnefningarnar og skipan dómnefndar í flokki bókmennta. Á næstu dögum verða birt á vef dv.is tilnefningar í öllum þeim flokkum sem veitt verða verðlaun fyrir.

Elín, ýmislegt – Kristín Eiríksdóttir (JPV)

Persónurnar í skáldsögunni Elín, ýmislegt má strax þekkja af handbragði höfundarins, Kristínar Eiríksdóttur, en stíleinkenni hennar skína í gegn í þessu knappa en margþætta verki. Persónurnar eru áhugaverðar og dáleiðandi, og þá sérstaklega aðalsöguhetja bókarinnar, Elín sjálf. Áferð textans er lokkandi, fínlega grótesk eða gróteskt fínleg og smám saman kemur i ljós að við sjáum ekki allan sannleikann og margt fleira liggur að baki. Elín, ýmislegt sver sig inn í höfundarverk Kristínar og lifir í huga manns löngu eftir að lestri lýkur.

Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur

 

Handbók um minni og gleymsku – Ragnar Helgi Ólafsson (Bjartur)   

Smásögur Ragnars Helga Ólafssonar í Handbók um minni og gleymsku, eru bæði grípandi og vel skrifaðar. Sögurnar kallast á með óljósum hætti, næstum eins og í draumi, þar sem hversdagsleikinn fléttast saman við hið yfirnáttúrulega og fáránlega. Minningar og draumveruleiki eru endurtekið stef í gegnum bókina og höfundur veltir fyrir sér hvernig tíminn líður og hefur áhrif á fortíðina. Lesandinn veltir fyrir sér hvað er satt og hverju er logið – og hvort það skipti í raun einhverju máli.

 

Ragnar Helgi Ólafsson

Kóngulær í sýningargluggum – Kristín Ómarsdóttir (JPV)

Ljóðabók Kristínar Ómarsdóttur, Kóngulær í sýningargluggum, er litskrúðugur vefur mynda sem vekur upp öll skynfæri lesandans með ágengum hætti. Í ljóðunum birtist hið hversdagslega í bland við hið óhugnanlega, enda er litadýrðin ekki alltaf björt og á köflum afar skuggaleg. Ljóðbrotin í bókinni læðast aftan að okkur við lesturinn eða hrúgast yfir okkur í einni flækju og skáldið skapar þannig andrúmsloft óvissunnar, þar sem allt getur gerst, hvenær sem er og í hvaða mynd sem er.

Kristín Ómarsdóttir

 

Millilending – Jónas Reynir Gunnarsson (Partus)

Jónas Reynir Gunnarsson stimplaði sig inn með stæl 2017. Fyrir utan Leiðarvísi um þorp og verðlaunaljóðabókina Stór olíuskip, kom út frumraun Jónasar Reynis í skáldsagnagerð. Millilending er verulega vel gerð, byggð og stíluð. Fyndin og nöturleg næturlífslýsing úr Reykjavík samtímans en þó einkum næm og sannfærandi uppteikning á aðalpersónu með allt á leiðinni niður um sig. Sendiferð Maríu til Íslands áður en hún flytur til pabba síns eftir skipbrot í Brighton getur aldrei farið vel en Jónas heldur áhuga lesandans á lofti með skörpu innsæi, væntumþykju og húmor.

 

Jónas Reynir Gunnarsson

Óratorrek: ljóð um samfélagsleg málefni – Eiríkur Örn Norðdahl  (Mál og menning)

Óratorrek: ljóð um samfélagsleg málefni, er óþægilega skemmtileg og skemmtilega óþægileg bók sem sækir innihald sitt í þann flaum skoðana og viðbragða við nútímanum sem við syndum og hrærum öll í. Eiríkur Örn Norðdahl vinnur á spennandi hátt með persónulega leið til að binda mál sitt. Endurtekningar, viðsnúningar, tilbrigði og viðlög halda textunum saman, lauslega þó og textinn vinnur vel það verkefni ljóðsins að koma hreyfingu á huga lesandans og fá honum verkefni til úrlausnar.

Óratorrek
Eiríkur Örn Norðdahl

Í dómnefndinni voru: Þorgeir Tryggvason, Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Guðrún Baldvinsdóttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bogi kaupir á Brúnastöðum

Bogi kaupir á Brúnastöðum