Bleika slaufan 2018 verður afhjúpuð við athöfn í Kringlunni í dag kl 17. Á sama tíma opnar glæsileg ljósmyndasýning Bleiku slaufunnar sem stendur út októbermánuð.
Leynd hvílir yfir útliti Bleiku slaufunnar þar til átakið hefst og frumsýning Bleiku slaufunnar er ávallt gleðileg stund.
Bleika slaufan í ár er hönnuð af Páli Sveinssyni, gullsmíðameistara hjá Jóni og Óskari. Hún táknar umhyggjuna og tárin sem geta fylgt því þegar einhver greinist með krabbamein. Páll vann samkeppni Krabbameinsfélags Íslands og Félags íslenskra gullsmiða sem fram fór í sjöunda sinn í upphafi ársins.
Ljósmyndasýningin sem stendur út októbermánuð er sett upp á fjórum stöðum á landinu: í Kringlunni í Reykjavík, á Glerártorgi á Akureyri, í Krónunni á Selfossi og í Ráðhúsi Reykjanesbæjar.
Allt söfnunarfé Bleiku slaufunnar 2018 rennur til starfsemi Krabbameinsfélagsins, með sérstakri áherslu á krabbamein hjá konum og hvatningu til þátttöku í skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum.