Þetta er hluti af stærri umfjöllun í DV sem kom út í dag, föstudaginn 28. september.
Vart þarf að kynna Leoncie, sem stundum er kölluð Indverska prinsessan eða Ískryddið, fyrir lesendum. Hún hefur skemmt Íslendingum, bæði með tónlistarflutningi og nektardansi, síðan árið 1982 þegar hún flutti hingað frá Danmörku. Upprunalega er Leoncie frá borginni Goa á vesturströnd Indlands.
Leoncie hefur verið tíður gestur á síðum dagblaða síðustu áratugi og þekkt fyrir beittar skoðanir. Hún hefur ítrekað kvartað undan kynþáttahatri og öfund margra vegna einstakra hæfileika hennar.
Lagasafn Leoncie er nú orðið gríðarlega stórt. Hún syngur yfir skemmtarapopp og hefur gefið út fjölda athyglisverðra myndbanda við lögin. Meðal vinsælustu laga hennar má nefna Come on Viktor, Engan þríkant hér og Ást á pöbbnum. Leoncie hefur nokkrum sinnum tekið þátt í undankeppni Eurovision en ekki hlotið brautargengi.