Það er ávallt gleðistund þegar Bleika slaufan er afhjúpuð, en þangað til hvílir leynd yfir hönnun hennar.
Næstkomandi föstudag kl. 17 verður Bleika slaufan 2018 afhjúpuð í Kringlunni í Reykjavík, en þá opnar Krabbameinsfélagið einnig glæsilega ljósmyndasýningu.
Forsala Bleiku slaufunnar er hafin í vefverslun Krabbameinsfélagsins, en verð hennar er 2.500 kr.
Leynd hvílir yfir Bleiku slaufunni þar til hún er afhjúpuð í upphafi átaksins ár hvert. Hönnuður hennar í ár er Páll Sveinsson, gullsmíðameistari hjá Jóni og Óskari, en hann sigraði í samkeppni Krabbameinsfélagsins og Félags íslenskra gullsmiða um hönnun Bleiku slaufunnar 2018. Bleika slaufan 2018 táknar umhyggjuna og tárin sem geta fylgt því þegar einhver greinist með krabbamein.
Krabbameinsfélagið býður landsmönnum öllum á ljósmyndasýningu sem sýnd verður samtímis á fjórum stöðum á landinu. Sýningin BLEIK byggir á persónulegum sögum tólf kvenna sem hafa greinst með brjósta- eða leghálskrabbamein. Ásta Kristjánsdóttir, ljósmyndari, Sigríður Sólan, blaðamaður, Sóley Ástudóttir, förðunarfræðingur og Anna Clausen, stílisti, eiga veg og vanda að sýningunni sem stendur út októbermánuð í Kringlunni í Reykjavík, á Glerártorgi á Akureyri, í Krónunni á Selfossi og í Ráðhúsi Reykjanesbæjar.