fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

„Við höfum ekki ennþá náð að verða neitt sérstaklega leiðir á hvor öðrum“

Guðni Einarsson
Sunnudaginn 23. september 2018 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hljómsveitin GusGus er á meðal bestu og farsælustu hljómsveita landsins. Hún hefur verið starfrækt í yfir tvo áratugi og aflað sér gríðarlegra vinsælda bæði hér heima og erlendis. Hljómsveitin á að baki hvorki meira né minna en 10 hljóðversplötur, 25 smáskífur og fjölda endurhljóðblandana.

Guðni Einars settist niður með þeim Daníel Ágúst og Bigga Veiru og spurði þá út í tónlistina, tónleikaferðalögin, innblásturinn og fleira.

Nú hefur hljómsveitin verið starfrækt í yfir tvo áratugi. Segið okkur aðeins frá sögu hljómsveitarinnar og hvernig hún hefur þróast. Hafa einhver tímabil verið betri/verri en önnur? 

„Hljómsveitin var formlega stofnuð í upphafi 1996 þegar níu manns skrifuðu undir útgáfusaming við hljómplötufyrirtækið 4AD. Árið á undan hafði þetta fólk ásamt fleirum framleitt stuttmynd og hljómplötu sem 4AD hafði mikinn áhuga á. Að vísu þurfti að endurvinna plötuna að hluta sökum höfundarréttarvandamála en síðan kom hún út undir heitinu Polydistortion 1997. Sami hópur gaf einnig út plötuna This is Normal 1999, en samstarfið molnaði í sundur fljótlega í kjölfarið. Þetta var frekar sundurlaus hópur í tónlistarsmekk, þannig að það hafði nú legið í loftinu að eitthvað mundi kvarnast úr, en þegar Daníel Ágúst ákvað að hætta varð ástandið frekar alvarlegt. Við vorum þá þrír eftir,“ segir Biddi, „ég, Stebbi og Maggi Legó, en söngvaralausir. Ástæðan fyrir því að við hættum ekki alveg var sú að árið 2000 gaf hljómsveitin út plötuna Gusgus vs Tworld sem var instrumental plata með tónlist sem ég og Maggi höfðum gert á árunum 1993 til 1995. Platan fékk glimrandi dóma og túruðum við Stebbi nokkur instrumental gigg og skemmtum okkur það vel að við ákváðum að halda nafninu og finna nýjan söngvara. Urður gekk til liðs við hljómsveitina 2001 og þetta fjóreyki gaf út plöturnar Attention (2002) og Forever (2007). Maggi og Urður hættu 2007 en var þá gripið til þess ráðs að athuga hvort Daníel Ágúst væri til í að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið árið 2000 og varð það úr. Nýr útgáfusamningur var gerður við hið djúpfræga útgáfufyrirtæki Kompakt í Þýskalandi og 24/7 kom síðan út 2009, Arabian Horse 2011, Mexico 2014 og nú síðast Lies are more flexible 2018.

Það má því segja að líftíma hljómsveitarinnar megi skipta upp í þrjú tímabil: Næntísið sem einkenndist af breakbeat og triphopkenndu tilraunapoppi. Urðartíminn sem einkenndist af hressilegu stelpulegu trommuheilapartíi og síðan Kompakt-tíminn sem einkenndist af dekkri technopop rannsóknum. Með Lies are more flexible má þó segja að nýr tími sé að hefjast þar sem GusGus er núna klassískt eitís style syntadúett með okkur Daníel innanborðs og stefnir tónlistin frá þýskættuðum áhrifum inn í frekar óræðar tímalausar minningar.“

Þið eigið aðdáendur úti um allan trissur. Hvar teljið þið að ykkar mest „hardcore“ aðdáendur séu? 

„Hljómsveitin á mjög dygga aðdáendur víðs vegar um heiminn en flestir þeirra eru í Póllandi, Mexíkó, Þýskalandi og Rússlandi,“ segir Daníel.

Þið hafið verið að túra mikið undanfarin ár úti um allan heim. Hvernig náið þið að takast á við álagið sem fylgir túrunum og halda geðheilsu? Fái þið aldrei leiða á hver öðrum?

„Það er staðreynd að tónleikaferðirnar geta oft verið strembnar og taka vissulega sinn toll, bæði andlega og líkamlega, en inni á milli fáum við nægan tíma til að jarðtengjast heima við og sinna fjölskyldum og vinum og nýrri tónlistarsköpun. Við höfum ekki ennþá náð að verða neitt sérstaklega leiðir á hver öðrum en stundum þegar maður er búinn að vera á ferðalagi í margar vikur langar mann að hitta annað fólk og skella sér í sundlaugina og synda ferðarykið af sér,“ segir Daníel.

Margir aðdáendur ykkar halda mikið upp á lagið Moss af plötunni Forever. Um hvað fjallar lagið?

„Það fjallar um ýmislegt, en aðallega er það um ástina og hve djúpt er hægt að sökkva sér í augu ástarinnar þar sem grágrænn augnliturinn minnir á glóandi mosann sem leiðir mann inn í víðáttur og töfraheim hálendisins,“ segir Daníel.

Þið gáfuð út Mexico (2014) og Arabian Horse (2011). Hver var pælingin á bak við titlana?

„Báðir þessir titlar eru frekar ólíklegir til að enda sem nöfn á raftónlistarplötum GusGus, það var kannski þess vegna sem við völdum þá. Þegar við vorum að vinna í plötunni í sumarbústaðnum var nístingskuldi úti og snjór yfir öllu. Ég lokaði augunum og hugurinn hringsnerist og reikaði á eins framandi og fjarlægar slóðir og hann komst og vísifingurinn lenti á Mexíkó. Titillinn skírskotar sem sagt til þess að við lifum og vinnum í svo kaldranalegu umhverfi og flýjum oft til annarra staða af öndverðum meiði til að jafnvægisstilla tilveruna,“ segir Daníel.

„Arabíski hesturinn er ein tignarlegasta skepna jarðarinnar. Það hvílir einhver dulúð yfir þessu dýri og það ríkir líka virðing fyrir fegurð þess og limaburði. Textinn myndgerir ástina og yfirfærir hana á hestinn sem erfitt er að temja og manneskjan týnir sér oft í eyðimörk tilfinninganna í leit að uppsprettulind ástarinnar. Arabian Horse varð að fararskjóta hljómsveitarinnar á einni vinsælustu plötu okkar til þessa.“

Þið hljótið að lenda í ýmsu þegar þið eruð á tónleikaferðalögum. Getið þið deilt með okkur einhverju súru?

„Við lendum aldrei í neinu súru. Þetta er allt búið að vera með sykri og rjóma,“ segir Daníel.

Það hlýtur að vera mikið um partí í kringum tónleikaferðalögin, eða hvað?

„Við gerum stundum vel við okkur í mat og drykk og brestum kannski í dans ef aðstæður leyfa en mestur tíminn utan sviðsins fer í að hvílast og hlaða batteríin fyrir næstu tónleika,“ segir Daníel.

Hver er þín skoðun á góðum texta, hvað þarf hann að innihalda? Eru einhverjar sérstakar aðstæður sem þú vilt vera í þegar þú semur textana þína? Hvað er það sem veitir þér innblástur?

„Góður texti teymir mann inn í einhverjar aðstæður sem maður tengir við. Hann verður að innihalda skemmtileg orð og frasa og myndlíkingar. Það er hægt að semja hvar og hvenær sem er jafnvel um borð í flugvélum eða í rútunni. Innblásturinn er sjaldnast á vísum stað. Hvaða aðstæður sem er geta gefið manni hugmynd að texta,“ segir Daníel.

Þú ert líka í hljómsveitinni Nýdönsk. Hefur einhvern tímann texti eða laglína sem var hugsuð fyrir Nýdönsk lent í GusGus-lagi eða öfugt?

„Það hefur bara aldrei komið fyrir svo ég muni, en það gæti hugsanlega gerst,“ segir Daníel.

Þann 17. nóvember næstkomandi verði þið með stórtónleika í Eldborgarsal Hörpu. Segið okkur aðeins frá því og hverju tónleikagestir eiga von á?

„Við munum aðalega rifja upp efni af Arabian Horse- og Forever-tímabilinu í bland við annað eldra og nýrra efni.“

Hafið þið aldrei fengið leiða eða er þetta alltaf jafn skemmtilegt? Hvað er það sem tekur mest á og hvað er það sem veitir ykkur mesta ánægju? 

„Þetta starf er í raun tvíþætt fyrir utan samskipta- og email-stúss en það er framleiðsla á tónlist annars vegar og flutningur á tónlist hins vegar. Þessir tveir kimar starfsins eru mjög ólíkir í eðli sínu. Framleiðslan er fólgin í því að marinerast saman, afskiptalausir í einhverjum tæknimyrkviðum fullum af rými fyrir nýjar hugmyndir. Þar gerast góðir hlutir hægt en örugglega,“ segir Biggi.  „Flutningurinn er í raun þveröfug upplifun. Mestur tíminn þar fer í að þvælast um flugvelli og hótel í aðgerðarleysi umkringdur stressi og óþægindum. En síðan smellir maður sér í geggjað stuð klukkutíma fyrir gigg og þá eru hlutirnir gerðir hratt og örugglega. Það er alltaf hrikalega gaman og mikið kikk að halda tónleika en ferðalögin eru hrikalega leiðinleg. Mest næs er þó að gera nýja músík. Það er alltaf svo geggjað að kokka upp eitthvað nýtt, það lætur hrikta í taugakerfinu.“

Þið hafið gefið út 10 hljóðversplötur. Þegar þið horfið um öxl, hvaða plata stendur upp úr hjá ykkur og hvers vegna? Var einhver plata lengur í fæðingu en önnur?

„Allar plöturnar hafa sinn sjarma og sitt karma. En persónulega finnst mér alltaf mjög vænt um Forever, það var eitthvert attitude og heimsendakæruleysi á henni sem ég er mjög hrifinn af. Grúvin eru líka mörg skrýtin og skakklöppuð en ávallt sexí. Það fíla ég.  Stemningin sem myndaðist þar hefur að hluta til haldið sér í bakgrunninum og kom örlítið meira upp á yfirborðið á síðustu plötu en þessum þremur þar á undan,“ segir Biggi.

Þið gáfuð út plötuna Lies are more flexible fyrr á þessu ári. Hvernig hafa viðtökurnar verið?

„Frekar góðar myndi ég segja. Aðdáendurnir eru hæstánægðir og sumir á því að þetta sé besta platan hingað til. Lögin hafa verið að gera sig vel í lifandi flutningi þar sem við höfum farið þetta árið. Plötudómar hafa verið mismunandi hjá skríbentum eins og alltaf. Sumir hrikalega ánægðir og aðrir minna. Skemmtilegt finnst mér hversu vel hefur verið tekið í að hafa plötuna í styttri kantinum. Lies are more flexible er í lengdina svipaðri þeim sem voru gefnar út þegar ég var að byrja að kaupa plötur 1982, um 45 mínútur. Ég held að þetta styttra format vinni á núna á tímum styttra athyglisspans,“ segir Biggi.

Margir hafa velt fyrir sér plötuumslaginu á Lies are more flexible. Getið þið sagt okkur pælinguna á bak við plötuumslagið?

„Það rímar við titilinn sem sérstök tilvistarleg vangavelta. Við leituðum leiða til að hafa mynd án viðfangs. Þá þarf sá sem rýnir í hana sjálfur að finna viðfangsefnið líkt og í lífinu sjálfu. Annaðhvort ertu mataður sjálfur sem hugsunarlaust hópdýr fram að gröfinni eða þú rekur niður hælana og áttar þig á að tilvistin er þín sjálfs og einstök, þannig að þú sjálfur þarft að taka af skarið. Og hvar er betra að byrja nýtt ferðalag en einmitt á bensínstöðinni með nýfylltan tank,“ segir Biggi.

Nú eruð þið aðeins tveir í hljómsveitinni. Hvernig æxlaðist það? Eruð þið að hugsa um að bæta við ykkur meðlim?

„Fólk hefur helst úr lestinni í bókstaflegri merkingu frá Arabian Horse. En þetta er fullkomið eins og er. Margar af mínum uppáhaldshljómsveitum eru einmitt syntadúettar líkt og við núna.  Þar má nefna bönd eins og Soft Cell, Yazoo, OMD og Tears for Fears. Minna um málamiðlanir, minna mas og meira stuð,“ segir Biggi.

Hvernig er samstarfið ykkar á milli, hvernig er verkaskiptingin og vinnuferlið? 

„Ég hangi oft einn með syntahaugnum í stúdíóinu leitandi með sándum og hrynjanda að einhverju sem kitlar. Þetta eru yfirleitt mjög einfaldar hugmyndir og meira stemning frekar en lög. Ef Daníel fílar eitthvað af þessu þá höldum við áfram með það í sameiningu.  Finnum fleiri kafla, melódíur og texta. Þetta getur tekið stuttan eða langan tíma en yfirleitt eru þessar hugmyndir lengi að gerjast fram að þeim tíma sem lokasmiðshöggið er slegið,“ segir Biggi.

Biggi, nú hefur þú talað opinskátt um að þú sért klæðskiptingur. Hefur þú orðið fyrir einhverjum fordómum innan tónlistarsenunnar vegna þess?

„Nei, ekki get ég sagt það. Það hefur nú fylgt listamönnum lengi að vera eitthvað skrítnir eða furðulegir og þykir jafnvel kostur, sérstaklega til að kalla á umræðu og eftirtekt. Útgangurinn á mér passar ágætlega við þá ímynd.“

Það hafa fá íslensk bönd náð jafn langt og þið og þá sérstaklega í raftónlistarsenunni. Er einhver uppskrift? Eitthvað sem þið mælið með að fólk geri eða geri ekki?

„Tja ég veit ekki. Maður álpast inn í þetta og ílengist fyrst og fremst vegna taumlausrar ástríðu á tónlist. Hana er ekki hægt að drafta upp í Excel-skjali. Það er þó alltaf mjög mikilvægt að finna sér nýja og spennandi aðkomu með árunum. Sérstaklega er þetta mikilvægt finnst mér í elektrónískri tónlist þar sem hún er fyrir mér að miklu leyti rannsókn í afkimum tækninnar og nýjum leiðum til að gera sánd, grúv og bakháraris,“ segir Biggi.

Finnst ykkur vanta fleiri konur í raftónlistarsenuna?

„Það eru margar góðar nú þegar, eins og Kelly Lee Owens, ANNA og Nina Kraviz. Sophie er þarna líka en kannski á grensunni. En það má alltaf bæta við í senuna.  Allavega vantar mig alltaf eitthvað nýtt elektrónískt kikk og sökum aldurs þurfa skammtarnir að vera í sterkari kantinum,“ segir Biggi.

Hafdís Huld var eitt sinn meðlimur hljómsveitarinnar. Hún talaði opinskátt um á dögunum að hún hafi upplifað einelti á sínum tíma í hljómsveitinni. Hver er ykkar skoðun á því?

„Þetta var nú frekar ómeðvitað strákager eins og þau gerast á þessum tíma. Hópurinn var líka samtíningur af fólki sem þekktist ekki fyrir þannig að engin tilfinningaleg forsaga var til staðar og innileiki því. Við vorum bara að gera okkar tónlist og þar voru ákveðnir einstaklingar leiðandi frá upphafi, með sterkar skoðanir og lítil þolinmæði fyrir öðru. Ég held að það að kalla þetta einelti sé kannski ekki rétta orðið frekar má segja að hún hafi verið afskipt og með grunnt tengslanet innan hljómsveitarinnar. Þar af leiðandi skil ég vel að henni hafi ekki liði vel í þessu samstarfi,“ segir Biggi.

Útgáfu- og dreifingarmál hafa verið mikið á milli tannana á fólki. Hver er ykkar skoðun á því hvernig dreifingu á tónlist er háttað í dag? Finnst ykkur að tónlistarmenn eigi að fá meira fyrir sinn snúð? Er eitthvað að ykkar mati sem mætti breyta til þess að gera kerfið betra?

„Hlutirnir eru ennþá það mikið í mótun að erfitt er að átta sig á hvernig þetta lendir í friði. Mér finnst vont að missa útgáfufyrirtækin úr kerfinu. Þau eru nauðsynleg til að búa til og styðja nýja artista. Það er glatað ef einn af eiginleikum tónlistarmanna þurfi líka að vera að vera góður sölumaður,“ segir Biggi.

Það eru örugglega margir GusGus-aðdáendur sem velta fyrir sér hvort ný GusGus-plata sé væntanleg. Er eitthvað sem þið getið gefið upp um það?

 „Við erum með slatta af stöffi sem við vorum að vinna fyrir síðustu plötu sem við kláruðum ekki.  Tvö af þeim lögum vorum við til dæmis að spila á tónleikum fyrir tveimur árum. Þarna á milli voru hugmyndir sem voru sterkastar af þeim sem sköpuðu áruna í kringum þetta tímabil, sem er eitt af því sem einkennir tónlistina á Lies are more flexible. Við finnum okkur knúna til að klára þessar pælingar og koma út sem fyrst. Við náum því þó ekki fyrr en á næsta ári. Í síðasta lagi næsta haust,“ segir Biggi.

Fram undan hjá GusGus?

„Fram undan hjá hljómsveitinni eru tónleikar í Evrópu núna í haust og síðan tvennir tónleikar í Eldborgarsal Hörpu þar sem aðdáendur geta átt von á þverskurði frá bandinu eins og það hefur þróast frá og með plötunni Attention. Af því tilefni munu Urður Hákonardóttir og Högni Egilsson vera á meðal þeirra sem stíga á svið með sveitinni. Við náum síðan að vinna í næstu plötu í upphafi árs en síðan er meira tónleikastand frá og með mars.“

Við gefum 3 eintök af plötunni Lies Are More Flexible, taka þarf þátt með því að skilja eftir athugasemd undir greininni hér.

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“