Hverfisbúðin Hverafold 1-3 í Grafarvogi leitar nú að Lottóvinningshafa sem skildi vinningsmiða þar eftir síðastliðinn föstudag.
Vinningshafinn er kona og er hún á upptökum verslunarinnar, en því miður þekkja eigendur og starfsfólk ekki konuna og auglýsa því eftir henni á Facebook-síðu sinni.
Miðann, sem síðan kom í ljós að er vinningur á, skildi hún eftir í fáti vegna eldsvoða sem varð í nærliggjandi húsi um það leyti sem hún keypti miðann.
„Það kom hér inn dama á föstudaginn var og keypti sér Lottómiða – um það leyti er kviknaði í nærliggjandi húsi hér í Grafarvoginum. Uppi varð fótur og fit sökum eldsvoðans og fór það því þannig að hún gleymdi Lottómiðanum sínum á búðarborðinu er hún hafði nýverið fest kaup á hjá okkur.
Þar sem hún hefur ekki komið og vitjað miðans þá auglýsum við eftir henni hér á Facebook (enda ervinningur á miðanum) og vonumst til að hún komi og vitji vinningsins.
Þökk sé myndavélakerfinu okkar þá vitum við hvernig hún lítur út en kunnum ekki frekari deili á henni svo öll aðstoð við deilingu væri vel þegin.
Eigið annars frábæran dag“