Friðrik Ómar Hjörleifsson söngvari auglýsir nú jólatónleika sína, sem meðal annars verða í Hofi Akureyri 14. desember.
Tónleikarnir eru að sjálfsögðu auglýstir á samnefndri Facebooksíðu hans. Hins vegar eru greinilega ekki allir á eitt sáttir og sjá sig tilneydda til að skilja eftir athugasemdir, svona í anda jólanna eða hvað?
Jón Þórhallsson skrifar „Ég styrki ekki samkynhneigt fólk og mun þess vegna ekki mæta.“
Valdi og Erna skrifa „Rasskellir komin á kreik mæti örugglega ekki,“ (ekki er þó á hreinu hvort þeirra skrifaði athugasemdina).
Friðrik Ómar tekur þessu greinilega með bros á vör og deilir færslunni með athugasemdum þeirra og skrifar: „HAHAHA. Ég verð ekki eldri! Takk Jón og Valdi fyrir þessi comment og fyrir að gera þennan dag ennþá skemmtilegri!“
Vinir Friðriks Ómars skilja margir eftir athugasemdir við færslu hans og leggja nokkrir til að hann gefi Jóni og Valda frímiða á tónleikana. „Ómetanleg heimild,“ skrifar einn og annar spyr: „Eru svona menn ennþá til?“
Einn leggur til að Friðrik Ómar haldi hreinlega styrktartónleika og ágóðinn verði nýttur fyrir þá til að sækja sér fræðslu.“ Annar spyr: „En hvað með alla sem eru ekki samkynhneigðir á myndinni. Vill hann ekki styrkja þá?“
Svona fyrir þá sem ekki vita þá er Friðrik Ómar samkynhneigður, en við á Fókus vitum ekki til að slíkt hafi nein áhrif á söng eða sviðsframkomu hans. Ekki erum við þó komin með miða, en ljóst er að minnsta kosti tveir sjá sér ekki fært að mæta og því kannski enn von um miða.
Ekki vera Jón eða Valdi, upp með náungakærleikann og fjölmennum á (jóla)tónleika, gleðileg jól!