Frægð fylgir ekki alltaf peningum ekki frekar en að peningum fylgi frægð, á það sérstaklega við hér á landi. Það gerist þó oft og eiga margir þekktir einstaklingar nóg af peningum. DV tók saman nokkra fræga sem eru ekki á flæðiskeri staddir.
Arnaldur Indriðason: Tjarnarstígur 10, Seltjarnarnes
Spennusagnakóngurinn Arnaldur Indriðason er öllum Íslendingum að góðu kunnur enda líða varla jól án þess að hann tróni á toppi metsölulista yfir bækur. Arnaldur, sem er 57 ára gamall, starfaði sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu þar til hann gerðist rithöfundur árið 1997.
Hann vakti strax athygli fyrir krimma sína og sérstaklega þá sem fjölluðu um rannsóknarlögreglumanninn Erlend. Bókin Mýrin, frá árinu 2000, olli vatnaskilum í íslenskum bókmenntum og eftir henni var gerð samnefnd kvikmynd sem sló eftirminnilega í gegn. Tæplega 66 þúsund Íslendingar sáu myndina í kvikmyndahúsi, sem er fáheyrð tala.
Bækurnar eru nú orðnar 22 talsins og hafa verið þýddar á tugi tungumála. Arnaldur hefur hlotið fjölda verðlauna í gegnum tíðina, meðal annars hin norrænu verðlaun Glerlykilinn og bresku glæpasagnaverðlaunin Gullrýtinginn.
Gilhagi heitir eignarhaldsfélagið sem heldur utan um skrif Arnalds og hefur hagnaður þess verið um 100 milljónir á ári. Arnaldur og eiginkona hans, Anna Fjeldsted kennari, búa í snotru einbýlishúsi við Tjarnarstíg á Seltjarnarnesi.
Árni Hauksson og Inga Lind Karlsdóttir: Mávanes 17, Garðabær
Árni og Inga Lind eru sannkallað stjörnupar, hún er sjónvarpsstjarna og hann er fjárfestir. Saman reka þau þrjú heimili, eitt 800 fermetra hús við sjávarsíðuna í Garðabæ, einbýlishús á Akureyri og eign í einu flottasta hverfi Barcelona. Saman eiga þau þrjú börn. Inga Lind hefur gert það gott í sjónvarpi undanfarin ár, þá helst sem stjórnandi þáttanna The Biggest Loser.
Árni hefur verið umsvifamikill í íslensku viðskiptalífi undanfarin ár, árið 2014 seldi hann ásamt viðskiptafélaga sínum, Hallbirni Karlssyni, fyrir 3,2 milljarða króna í Högum. Félag þeirra, Vogabakki, hagnaðist um 283 milljónir króna á síðasta ári. Hlutabréfaeign Vogabakka í skráðum erlendum hlutabréfum nemur tæplega 2,5 milljörðum króna.
Birgitta Haukdal: Bakkaflöt 3, Garðabær
Hin húsvíska söngkona Birgitta Haukdal hefur hrifið landann lengi. Hún vakti fyrst athygli með hljómsveitinni Írafári sem stofnuð var árið 1998. Hljómsveitin var virk frá aldamótum til ársins 2005 og gaf út smelli á borð við Fingur og Stórir hringir. Platínumplatan Allt sem ég sé, frá árinu 2002, er ein sú mest selda í íslenskri tónlistarsögu.
Árið 2003 bætti Birgitta rós í hnappagatið þegar hún söng lagið Open Your Heart í Eurovision-söngvakeppninni fyrir Íslands hönd. Laginu gekk prýðilega og náði áttunda sæti.
Samkvæmt tekjublaði DV var Birgitta með 222 þúsund krónur í mánaðartekjur en það segir þó ekki alla söguna. Birgitta og eiginmaður hennar, lögmaðurinn og Engeyingurinn Benedikt Einarsson, búa í glæsihýsi við Bakkaflöt í Garðabæ.
Birgitta er ekki aðeins hæfileikarík söngkona. Nýverið hefur hún verið að gefa út barnabækur sem hafa vakið nokkra athygli og stúlkuna Láru og ljónið Ljónsa.
Björk: Ægissíða 94, Reykjavík
Söngkonan Björk sló í gegn aðeins tólf ára gömul árið 1977 þegar út kom barnaplatan Björk. Á níunda áratugnum sneri hún sér að pönki og popptónlist og gaf út plötur með hljómsveitunum Kukli og Sykurmolunum. Sykurmolarnir vöktu athygli erlendis sem var óvanalegt fyrir íslenskar hljómsveitir á þeim tíma.
Það var þó ekki fyrr en eftir að Sykurmolarnir hættu, árið 1992, að Björk varð heimsfræg. Fyrstu þrjár sólóplöturnar sem gefnar voru út erlendis, Debut, Post og Homogenic, voru allar við toppinn á breska metsölulistanum og nafn hennar varð þekkt um allan heim.
Frægðin jókst enn frekar þegar hún lék aðalhlutverkið í kvikmynd Lars von Trier, Dancer in the Dark árið 2000, og fékk tilnefningu til Óskarsverðlauna. Á athöfnina mætti hún klædd svanskjól eins og frægt er orðið.
Björk hefur gefið út tónlist allar götur síðan og þó að vinsældirnar séu ekki jafn miklar og áður á hún enn þá dyggan aðdáendahóp. Samkvæmt síðunni Celebrity Net Worth eru eignir Bjarkar metnar á fimm milljarða króna. Hún býr í íbúð við Ægisíðuna í vesturbæ Reykjavíkur.
Eyþór Arnalds: Öldugata 18, Reykjavík
Eyþór hefur komið víða við. Áður en hann varð oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík var hann áhrifamikill í íslensku viðskiptalífi. Hann var forstjóri Strokks Energy, Íslandssíma, framkvæmdastjóri hjá OZ og Enpocket sem bæði voru keypt af Nokia.
Í hagsmunaskrá borgarfulltrúa er hann skráður eigandi félagsins Ramses sem er stærsti hluthafi Morgunblaðsins en á einnig net dótturfélaga sem halda utan um viðskiptaumsvif hans. Eyþór fékk 50 milljóna króna arð greiddan frá félaginu í fyrra. Í gegnum Ramses á Eyþór veitingastaðinn Fjöruborðið á Stokkseyri og ST Holding ehf., það félag á ferðaþjónustufyrirtækið Special Tours ehf. og kaffihúsið Reykjavík Röst við Geirsgötu.
Fyrir utan glæsilegt einbýlishús á Öldugötu á Eyþór eignir í húsnæði Fjöruborðsins á Stokkseyri og 2.500 fermetra húsnæði málmbræðslunnar GMR í Hvalfirði.