fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fókus

Elín lifði af 18 klukkustundir í björgunarbát ásamt bróður sínum: „Bátinn rak í aðra áttina og pabba í hina“

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 26. ágúst 2018 14:00

Elín Óladóttir. Hefur þurft að glíma við ýmislegt á lífsleiðinni. Jákvætt hugarfar er hennar helsta vopn í baráttunni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Miðvikudaginn 18. ágúst árið 1982 réri Óli T. Magnússon út á báti sínum, Létti SH 175, frá Rifi með tveimur börnum sínum, Magnúsi og Elínu. Magnús var 19 ára gamall en Elín alveg að verða sautján ára. Líf þeirra varð aldrei samt eftir þennan örlagaríka túr sem fjölskyldufaðirinn Óli sneri ekki lifandi úr.

Elín Óladóttir / Mynd: Kristinn Svanur

„Við vorum þrjú um borð, þetta var bara svona trilla. Við bjuggum alltaf í bænum en fluttum svo búferlum á vorin vestur á Hellissand þar sem við áttum lítið hús. Þar réri pabbi á sumrin og við áttum því alltaf heima þar í um þrjá til fjóra mánuði á ári. Þvottavélin var bara sett á kerruna og keyrt af stað. Fyrstu árin fórum við ekki með í róðra því við vorum svo ung, en svo fékk Magnús bróðir að fara að fara með og síðar ég. Áður hafði eldri bróðir okkar fengið að fara með í túra en hann hætti því þegar hann var varð eldri,“ segir Elín Óladóttir, sem er í dag orðin fimmtíu og þriggja ára, í viðtali við DV.

Elín lætur erfiðleikana hvorki buga sig né brjóta

Elín Óladóttir er sjálflærð saumakona og rekur í dag saumafyrirtækið Óla Prik (snapchat: oliprik.is). Hún á þrjú uppkomin börn með manni sínum, Frey heitnum Hreiðarssyni; Óla Tómas, Tinnu og Adam, og barnabörn. Einnig átti Freyr son úr fyrra sambandi, Hjört Rósant. Líf Elínar virðist í fyrstu hið eðlilegasta en þegar málið er kannað ofan í kjölinn kemur í ljós að Elín hefur gengið í gegnum ótrúlega hluti sem markað hafa líf hennar.

Blaðamaður heimsótti Elínu í Hafnarfjörð. Heimili hennar er skreytt ótrúlegum munum sem Elín hefur safnað í gegnum tíðina og gert upp með aðstoð eiginmanns síns sálugs. Ljóst er að Elín er hörkukona sem lætur erfiðleikana hvorki buga sig né brjóta heldur byggja sig upp.

„Eitt sumarið þá var ég eitthvað ósátt við frystihússtjórann og gekk út og hætti. Pabbi varð því að taka mig með um borð þannig að ég fór að róa með þeim. Ég man ekki alveg hvort þetta var þriðja árið mitt með þeim en þetta var bara fínt. Var náttúrlega erfiðari vinna en launin voru miklu hærri en í frystihúsinu.“

Urðu að velja á milli föður síns og að lifa af

Morguninn örlagaríka, 18. ágúst, 1982, hafði verið mikil bræla í langan tíma en þegar veðrið tók að skána var tekin ákvörðun um að róa.

Óli T. Magnússon, faðir Elínar.

„Pabbi var samt búinn að vera svolítið tvístígandi um hvort við ættum að fara en við ákváðum á endanum að leggja í hann. Við stímdum svona 20 sjómílur á stað sem kallast Fláki og er svolítið langt frá landi. Við ætluðum jafnvel að vera um nótt og sögðum mömmu það áður en við lögðum af stað. Við vorum auðvitað bara með talstöð og mamma ekki með neina talstöð. Á þessum tíma voru náttúrlega engir farsímar og því voru samskiptin oft flókin. Við fiskuðum þarna um daginn og allt gekk vel. Við höfum verið komin með svona 6–700 kíló af fiski þegar pabbi ákvað að við skyldum fara í land. Það hafði verið svo mikil undiralda að það mynduðust öldudalir. En þegar maður er búinn að vera svona lengi á sjó þá verður maður ekki einu sinni hræddur.“

Faðir Elínar fór niður í stýrishús á meðan hún sjálf og Magnús gerðu að aflanum uppi á dekki.

„Vanalega gerðum við að fiskinum og fórum svo niður að sofa vegna þess að það tók nokkra klukkutíma að stíma í land. En við vorum sem betur fer ekki komin niður þegar báturinn fékk á sig brot og snerist á augabragði. Hann kastaðist til, fór upp á öldu, hún brotnaði á honum og honum einfaldlega hvolfdi. Við Magnús köstuðumst fyrir borð. Hann kom fyrst upp úr sjónum og ég skömmu síðar. Við vorum  í sjógöllum og stígvélum, flækt í alls konar drasl sem var um borð þannig að það var erfitt að berjast upp á yfirborðið. Báturinn var á hvolfi og við náðum bæði taki á honum,“ segir Elín.

Veðrið var afar vont, mikill öldugangur og hvassviðri. Systkinin fóru að svipast um eftir föður sínum en hann var hvergi sjáanlegur. „Við vissum ekkert hvað við áttum að gera og héngum bara á bátnum þar til pabbi birtist loksins. En hann flaut bara hreyfingarlaus. Magnús bróðir synti að honum og náði að snúa honum við. Það var augljóst að hann var látinn því hann var helblár og ekkert lífsmark. Við gátum ekkert gert. Öldurnar börðu á bátnum og hann rak í aðra áttina en pabba í hina. Við urðum bara að velja,“ segir Elín.

Skipverjar á Gunnari Bjarnasyni frá Ólafsvík draga gúmmíbjörgunarbátinn um borð / Mynd DV – Einar Olason

Sagði henni að halda áfram án hans

Elín og bróðir hennar tóku ákvörðun um að fara að bátnum. Skrúfan var ennþá á fullu og óttuðust þau mjög að enda í henni.

„Við komumst loksins upp á kjöl og sátum bara þar. Við vissum ekkert hvað við áttum eiginlega að gera. Gúmmíbáturinn var undir bátnum, við vorum ekki með löglegan sleppibúnað þar sem pabbi hafði breytt honum. Hann sagði einhvern tímann við einhverja karla sem voru að gera athugasemd vegna þess að hann væri með börn um borð í bátnum og að þau þyrftu að geta leyst þetta ef eitthvað kæmi upp á. Þannig að það var bara eitt öryggisband yfir bátnum. Magnús byrjaði að kafa undir bátinn, hann batt við sig band og ég hélt í það. Hann kafaði tvisvar sinnum niður. Fyrst festist báturinn en í síðari ferðinni náðum við loks bátnum upp á yfirborðið. Magnús var mjög þrekaður eftir þessa raun og það er mér mjög minnisstætt að hann sagði mér að hann gæti ekki meira og hvatti mig til þess að halda ein áfram. En þá kom eitthvað yfir mig og ég náði að vippa bróður mínum upp á kjölinn. Ég fór síðan að reyna að opna björgunarbátinn en það gekk mjög erfiðlega. Við vorum alveg að gefast upp þegar ég kippti brjálæðislega fast í öryggisbandið og þá loksins blés báturinn út og við náðum að komast um borð við illan leik,“ segir Elín.

Þegar hér var komið sögu var skollið á niðamyrkur enda gerðist slysið um miðjan ágúst og birtu fór að bregða frekar snemma.

„Það var alveg kolsvartamyrkur og báturinn var að fyllast af sjó. Við reyndum að lesa einhverjar leiðbeiningar og sáum að við áttum að setja út einhvers konar rekakkeri til þess að báturinn yrði stöðugri. Við fundum svo neyðarsendi í björgunarbátnum en vissum ekki alveg hvernig hann virkaði. Það stóð ekki á honum hve lengi batteríið mundi endast og við vorum hrædd um að það myndi klárast. Við náttúrlega sáum ekkert, rétt svo í fjöll lengst í burtu. Við vorum um 20 sjómílur frá landi og okkur rak út fjörðinn og út á rúmsjó. Við kveiktum á sendinum upp á von og óvon. Ég man að við vorum viss um að hjálp myndi berast fljótlega en svo gerðist það náttúrlega ekkert,“ segir Elín.

Skipin sáu ekki björgunarbátinn og sigldu framhjá

Nokkrum klukkustundum síðar sáu Elín og Magnús loks skip sem kveikti hjá þeim vonarneista um björgun.

„Það voru allir í aðgerð um borð þannig að það var ofboðslega mikið ljós. Þeir sáu auðvitað ekkert út. Við skutum samt upp neyðarblysi en ekkert gerðist. Skipið sigldi bara í burtu. Við lentum í þessu svona 2–3 sinnum um nóttina. Við ákváðum að lokum að slökkva á sendinum um nóttina því við vissum að það væru flugvélar að fara af stað um morguninn. Ég man ekki af hverju við vissum það en einhverra hluta vegna vissum við að flugvélarnar myndu nema sendinn.“

Þyrla Varnarliðsins fyrir ofan gúmmíbjörgunarbátinn bjargar þeim systkinum um borð. Flugvélin fyrir ofan þyrluna á myndinni er Herkules-vél frá varnarliðinu / Mynd: DV – Einar Ólason

Nóttin leið og um morguninn ákváðu systkinin að kveikja aftur á neyðarsendinum í þeirri veiku von að flugvélar á ferli myndu nema hann.

„Við vorum búin að vera alla nóttina í móki að tala saman. Ég man ekki alveg hvað klukkan var en ég held að hún hafi verið um hálftíu um morguninn þegar við heyrðum í flugvél. Eða við þóttumst heyra í flugvél, við vorum oft búin að halda að við heyrðum eitthvað en svo var það ekkert. Ég spurði Magnús hvort hann heyrði það sama og ég og hann játaði því. Þá kom ein flugvél en hún flaug bara fram hjá okkur og við vorum alveg gapandi. En svo vaggaði hún vængjunum og við vissum einhvern veginn að það þýddi að hún vissi af okkur. Svo flaug hún í burtu og við vorum ótrúlega hissa.“

Töldu Elínu látna

Á þessum tíma var eina björgunarþyrla landsins biluð að sögn Elínar en send voru boð til varnarliðsins sem enn var á landinu.

„Þeir komu þarna með Fokker-flugvél og þyrlu, sem bjargaði okkur. Kafara var sleppt í sjóinn sem aðstoðaði síðan við að hífa okkur upp í þyrluna og síðan var flogið með okkur á Borgarspítalann. Þegar ég náði loks að hringja í mömmu höfðu þær fréttir borist henni að aðeins tveir hefðu lifað sjóslysið af. Það héldu því allir í bænum að það hlyti að hafa verið ég sem hefði ekki haft það af,“ segir Elín.

Símtal Elínar við móður sína var því dramatískt í meira lagi, blanda af gleði og mikilli sorg. „Þetta var rosaleg lífsreynsla. Við vorum þarna á táningsaldri systkinin og vorum föst í einhverjar 17–18 klukkustundir í gúmmíbát áður en okkur var bjargað. Það mátti litlu muna að við hefðum verið komin niður í lúkar og þá hefðum við líklega rotast og ekki komist út. Það var örugglega það sem kom fyrir pabba og kostaði hann lífið. Þegar við vorum búin að vera í marga klukkutíma í móki í bátnum vorum við farin að ímynda okkur að pabbi hefði komist af og fórum að búa til ýmsar sögur í hausnum á okkur. Það er svo óraunverulegt þegar svona hlutir gerast svona hratt. Þó að hitt sé alveg jafn ömurlegt, þá kemur þetta bara svona allt í einu á mann sem alda og tilverunni kippt undan manni. Pabbi var bara 41 árs gamall,“ segir Elín.

Þrátt fyrir þessa ótrúlegu lífsreynslu segist hún ekki vera sjóhrædd í dag.

Elín borin um borð í sjúkrabifreið úr þyrlunni / Mynd: DV – S

„Ég fer alveg á sjó enn þá. Ekki til þess að vinna en ef ég þyrfti að velja sjó eða flugvél þá myndi ég alltaf velja sjóinn. Kannski af því að ég er svo vel synd. Ég var að æfa sund mjög lengi og svo er ég ekkert hrædd við sjóinn, það er ekki til hræðsla.“

Blés lífi í ungan dreng í sundi

Elín Óladóttir / Mynd: Kristinn Svanur

Eins ótrúlegt og það kann að hljóma er andlát föður Elínar ekki eina skiptið sem hún varð vitni að drukknun, eða því sem næst. Einungis fáeinum árum síðar var Elín stödd í Laugardalslauginni með vinkonu sinni þegar hún hún uppgötvaði að ungur drengur lá á botni laugarinnar.

„Ég var að synda og þá sá ég barn í botninum. Það var svona sex til sjö ára gamall strákur. Hann lá bara í botninum og ég byrjaði að kafa niður, þetta voru ósjálfráð viðbrögð. Ég reyndi að drösla honum upp úr og kallaði á vinkonu mína sem var með mér. Hún hjálpaði mér að koma honum upp á bakkann og ég sagði henni að fara og sækja hjálp. Það var svona turn þarna með manni sem átti að vera að fylgjast með en hann var bara að lesa blaðið og svo var fjöldi fólks í pottunum. En það kom enginn að hjálpa mér. Það er svo skrítið að þegar fólk lendir í svona aðstæðum sem þeim finnst óþægilegar þá þykist það ekkert sjá. Þannig að ég fór að reyna að blása lífi í hann og eftir smá stund fór hann að hósta og það kom vatn upp úr honum. Stuttu síðar kom sjúkrabíllinn og sögðu þeir við mig að þetta hefði verið sekúnduspursmál,“ segir Elín sem var aðeins um tvítugt þegar atvikið átti sér stað. Foreldrar drengsins heimsóttu hana stuttu síðar og færðu henni blóm og þakkir fyrir að hafa bjargað syni sínum.

Eiginmaður Elínar greindist með ólæknandi heilakrabbamein

Þrátt fyrir mörg áföll á lífsleiðinni hefur Elín reynt að takast á við þau með jákvæðni. Þegar Elín var átján ára gömul, tveimur árum eftir sjóslysið, kynntist hún Frey Hreiðarssyni. Freysi, eins og hann var alltaf kallaður, var tveimur árum eldri en Elín og þau voru bæði nýhætt í samböndum þegar þau kynntust.

Elín og Freysi á góðri stund

„Við ætluðum sko að vera laus og liðug en svo breyttist það og varð bara „forever“. Við vorum saman í þrjátíu og þrjú ár, þangað til hann lést.“

Árið 2015 greindist Freysi með ólæknandi heilakrabbamein sem fór að lokum með hann í gröfina, þann 18. júní árið 2017. Áður en Freyr greindist með meinið var hann búinn að vera ólíkur sjálfum sér.

Við fórum í siglingu um Karíbahafið um vorið og hann var alltaf eitthvað slappur og leið illa. Hann fór til heimilislæknis þar sem honum var sagt að hann væri þunglyndur og ég veit ekki hvað og hvað. Hann fór á þunglyndislyf og var alltaf svolítið ósáttur við þetta. Hann sagði stundum: „Það er eitthvað að mér í hausnum.“ Bara svona eins og fólk segir oft en enginn tekur mark á því. Ég tók ekki einu sinni mark á honum af því að hann var búinn að fara til læknis sem sagði að ekkert væri að honum,“ segir Elín.

Nokkru eftir ferðina var fjölskyldan öll að borða saman á heimili þeirra. „Freysi vildi ekki borða sem var mjög ólíkt honum. Hann var algjört matargat. Hann fór svo bara upp í rúm og ég var viss um að hann væri með einhverja flensu,“ segir Elín. Þegar hún athugaði með eiginmann sinn sagðist hann finna málmbragð og að honum liði eins og allt væri „skrítið“. „Ég spurði hvort að við ættum ekki að fara upp á vakt. Hann vildi það ekki svo ég sagði honum að setjast í sófann og að ég ætlaði að fara í tölvuna, sem er inni í bílskúr. Þegar ég var inni í eldhúsi þá heyrði ég lætin. Ég vissi að eitthvað hafði gerst, greip símann og hringdi í 112 áður en ég var komin inn í stofuna aftur. Ég bara vissi að eitthvað var að,“ segir Elín.

Vissi ekki hvaðan blóðið kom

Þegar Elín kom inn í stofu lá Freysi í flogakasti á gólfinu og var alblóðugur.

„Þá hafði hann dottið á borðið og sprengt á sér hökuna og það var allt út í blóði. Ég vissi ekki hvort það væri að blæða út úr eyrunum á honum eða hvað því ég sá ekkert hvaðan blóðið kom. Þeir í símanum leiðbeindu mér um hvað ég ætti að gera og ég átti að byrja á því að snúa honum við því hann lá í grúfu og átti erfitt með að anda. Allt í einu voru komnir tveir sjúkrabílar og hann var sprautaður niður. Þeir ætluðu ekki að ná sambandi við hann. Þegar hann lá enn á gólfinu heima þá höfðu þeir sagt við mig að ég ætti að fara fyrir ofan hann og horfa framan í hann þar sem hann var í panikkástandi og hræddur. Þá hafði ég gert eins og þeir ráðlögðu mér hann róaðist, fann kannski til öryggis eða einhvers sem hann þekkti.

Við fórum á Landspítalann í Fossvogi og þeir voru rosalega lengi að ná honum úr floginu. Þeir spurðu hvort ég vildi ekki koma með í sjúkrabílnum en ég sagðist ætla að fara á mínum bíl. Ég hugsaði sem svo að við þyrftum að fara heim aftur á eftir. Maður hugsar ekki rökrétt á svona stundum.“

Krabbameinið komið á lokastig

Í kjölfarið fór Freysi í rannsóknir og myndatöku þar sem í ljós kom fyrirferð í heilanum.

„Við vissum ekkert hvað það þýddi en við fögnuðum því að þetta hafði ekki verið heilablóðfall. Daginn eftir var honum svo sagt að hann væri orðinn flogaveikur og að hann þyrfi að fara á flogaveikilyf. Þegar hann fór svo í sneiðmyndatöku sást fyrirferðin sem við vissum ekkert hvað var. Þeir vissu örugglega meira en þeir sögðu okkur, held ég. Þeir voru svo sem ekki að segja neitt fyrr en það er orðið alveg staðfest. Ég skil það vel. Síðan átti bara að fylgjast með fyrirferðinni og sjá hvort hún stækkaði eða ekki. Í þrjá mánuði stækkaði hún ekkert og við brugðum okkur í ferðalag til Ameríku í millitíðinni. Í desember fór hann svo aftur í myndatöku og þá sást að fyrirferðin hafði stækkað og hann var sendur beint í heilaskurð í janúar þar sem tekið var það sem hægt var að taka. Læknirinn greindi okkur frá því að þeir héldu að þetta væri krabbamein af annarri eða þriðju gráðu, sem væri ólæknandi, og að það eina sem hægt væri að gera væri að halda því niðri. Sýnið var hins vegar sent út til Bandaríkjanna þar sem þeir voru ekki alveg vissir og svo þegar svarið kom, þá kom í ljós að krabbameinið var á fjórðu gráðu. Þá var það komið á lokastig.“

Elín og Freysi með börnunum sínum þremur. Fv. Óli Tómas, Elín, Freysi, Adam og Tinna.

Mælir ekki með krabbameinsmeðferð

Krabbameinslæknir Freysa greindi þeim hjónum frá því að meðallífaldur eftir greiningu væri yfirleitt um tvö ár.

„Og hann lifði rétt tæplega tvö ár. Það stóðst eiginlega bara akkúrat. Á þeim tíma fór hann tvisvar sinnum í geislameðferð og hann kom rosalega illa út úr seinni geislameðferðinni. Hann var á krabbameinslyfjum í einhverja átta til níu mánuði sem hann raunverulega, eftir á að hyggja, hefði aldrei átt að fara í. Ef einhver myndi lenda í því að vita af svona krabbameini í dag þá myndi ég ráðleggja viðkomandi að fara ekki í meðferð. Freysi átti vin sem hann kynntist í öllu þessu, sem var með það sama og hann. Hann greindist bara rétt á eftir Freysa en sá maður fór í minni meðferð. Hann lést tveimur mánuðum á undan Freysa en hann átti miklu betra líf. Freysi var svo ofboðslega veikur. Ég var með hann hérna heima í margar vikur, var komin með hjólastól, stangir, heimilishjálp og Karítas. Hann fór í tvær vikur upp á líknardeild í svona hvíldarinnlögn og svo tók ég hann heim og hann var hér heima í tvær vikur. Svo komu þær frá Karítas hingað og sögðu við mig að þetta væri komið nóg. Hann átti orðið erfitt með að ganga og ég þurfti að halda honum uppi. Hann var farinn að rugla og bulla og ég mátti ekki fara fyrir horn þá panikkaði hann. Hann setti allt sitt traust á mig. Sagði við mig áður en hann veiktist svona mikið að ég væri minnið hans og að ég væri allt.“

Freysi dvaldi í sex vikur á líknardeild áður en hann lést en það er talinn nokkuð langur tími.

„Hann þraukaði svo lengi og var svo duglegur. Hann var aldrei einn, það var alltaf einhver hjá honum. Ef ég fór eitthvert og kom svo aftur þá heyrði hann göngulagið mitt. Hann þekkti það. Þótt hann væri í engu sambandi og við héldum að hann heyrði ekki neitt og skildi ekkert, þá spenntist hann allur upp þegar hann heyrði mig koma og svo róaðist hann niður. Þetta var ótrúlega skrítið. Það var hrikalega vont að horfa upp á hann svona en við ræddum þetta náttúrlega svolítið. Það var aðdragandi að þessu sem gerði þetta aðeins auðveldara. Þegar pabbi lést þá dó hann alveg strax. En það er hvorugt öðru betra, þetta var bara öðruvísi. En við gátum allavega græjað öll okkar mál.“

Sögu þeirra ekki lokið

Freysi þekkti konu sína vel og þrátt fyrir erfiðleika þá vissi hann allan tímann að Elín myndi standast þessa áskorun eins og hverja aðra sem hún hafði staðið frammi fyrir.

Elín við minnisvarða sem hún útbjó á heimili sínu. Pleysi var gælunafn fjölskyldunnar um Freysa / Mynd: Kristinn Svanur

„Þegar það var nýbúið að leggja hann inn þá kom prestur einu sinni og talaði við hann. Presturinn sagði við hann að það væri farið að styttast í þetta og sagði að hann gæti auðvitað verið sorgmæddur yfir því sem aldrei yrði og að hann gæti alveg verið miður sín og haft áhyggjur af konunni sinni. En þá sagði Freysi: „Ég hef engar áhyggjur af Elínu, engar áhyggjur af henni. Hún spjarar sig. Svo klárum við bara það sem við eigum eftir að gera saman í næsta lífi.“ Presturinn sagði mér eftir að hann dó að þetta væru mjög sérstök viðbrögð því yfirleitt þegar menn deyja þá hafa þeir svo miklar áhyggjur af konunni sinni. En presturinn sagði að það hefði verið svo gott fyrir Freysa að hafa engar áhyggjur af mér. Þetta var mjög sérstakt en honum leið alveg vel með þetta. Honum fannst hann ekkert vera að yfirgefa mig, þannig séð. Hann vissi að ég myndi spjara mig og var ekkert ósáttur við það. Í mínum huga í dag þá ætla ég aldrei að vera með öðrum manni, ég trúi því að við Freysi séum sálufélagar og að okkar sögu sé ekki lokið. Við munum halda áfram þar sem frá var horfið þegar minni göngu lýkur hér á jörð. En auðvitað veit maður ekkert hvað framtíðin býr í skauti sér.“

Elín segir skrítið að hugsa aftur í tímann í dag, rúmu ári eftir andlát Freysa, þar sem hún áttar sig reglulega á skrítnum persónuleikabreytingum sem hún tengir við veikindin.

„Þær voru svo skrítnar, þessar persónuleikabreytingar. Þegar ég lít til baka þá átta ég mig á því að ýmis einkennileg atvik tengjast veikindunum. Hann var á tímabili rosalega erfiður og ég man að einu sinni sagði sonur okkar við mig: „Mamma, hvernig getur þú látið hann tala svona við þig?“ En ég sagði bara við hann að þetta væri ekki pabbi hans að tala við mig. Þetta væri sjúkdómurinn að tala. Þannig að ég tók þetta aldrei nærri mér. Ég vissi að pabbi þeirra myndi aldrei koma svona fram við mig. Aldrei. Ef hann væri í lagi. Þannig að ég var alltaf voða róleg yfir því. Þeim fannst þetta einmitt svo fyndið þegar þær komu hérna frá Karítas og hann var eitthvað leiðinlegur. Þeim fannst svo skrítið að sjá mig aldrei reiða eða pirraða. En ég vissi bara að þetta var ekki hann. Ég hugsaði þetta bara þannig. En auðvitað var þetta stundum óþægilegt og ég var stundum sár. En ég hugsaði alltaf, þetta er ekki Freysi. Hann myndi aldrei láta svona. Maður verður að hugsa svona, þó að hitt nái manni stundum. Það var bara allt í einu einhver allt annar karakter kominn þarna.“

Lést daginn eftir brúðkaupsafmælið

Freyr Hreiðarsson fæddist á Akranesi 31. maí 1963. Hann lést á líknardeildinni í Kópavogi 18. júní 2017.

Freysi lést á líknardeild Landspítalans þann 18. júní árið 2017, degi eftir 31 árs brúðkaupsafmæli þeirra hjóna.

„Við kynntumst fyrst á 17. júní og giftum okkur svo 17. júní líka. Hann var alveg ofboðslega veikur á brúðkaupsafmælinu okkar og um morguninn fannst mér eitthvað skrítið í loftinu. Ég skrapp heim í sturtu og fór svo strax til hans aftur. Hann dó svo um nóttina. Hann hefur ákveðið að þrauka, ekki nota 17. júní í þetta, ekki setja þetta allt á sama dag. Svona er þetta bara, maður spilar úr spilunum sem maður hefur.“

Jarðarför Freysa var með mjög sérstöku móti og þegar henni var lokið hafði fólk orð á því við Elínu að þetta hefði verið sorgleg en jafnframt skemmtileg jarðarför.

„Jarðarförin var mjög sérstök,“ segir Elín og hlær. Þegar hann var uppi á líknardeild var ég með fjölskyldumyndir úti um allt. Ég tók þær niður, plastaði þær og voru þær sprautaðar á kistuna. Þetta voru myndir af okkur þegar við vorum ung og af barnabörnunum og þess háttar. Í jarðarförinni voru svo bara spiluð ELO-lög. Hann var algjört ELO-fan, þetta voru bara trúarbrögð. ELO-logoið er á steininum hans. Ég teiknaði steininn sjálf með aðstoð Óla Tómasar og lét höggva hann út. Ég lenti í smá stríði við Jónu Hrönn prest sem vildi hafa að minnsta kosti einn sálm í jarðarförinni. Það var bara einn sálmur, svo bara ELO, James Blunt, Bubbi og lag með Bítlunum. Freysi elskaði golf og var í golfklúbbnum Skrambar. Þeir keyptu sér alltaf eins föt þegar þeir fóru að keppa á móti og áttu alveg hvítar buxur og svarta boli. Hann tók það fram við mig, alveg tvisvar til þrisvar sinnum, að hann vildi að Skrambarnir bæru kistuna og að þeir yrðu í samstæðu fötunum. Ég sagði honum alltaf að hætta að spá í því en svo minntist hann aftur á þetta stuttu áður en hann fór í algjört mók. Þá sagði hann við mig: „Elín þú verður að passa að buxurnar þeirra séu hreinar því þær eru alveg hvítar“,“ minnist Elín, hlær og yljar sér við minninguna.

Bar kistuna sjálf út á öxlunum

Elín krafðist þess að fá að ganga fremst með kistuna og að hún yrði borin út á öxlum.

„Útfararstjórinn sagði við mig að í þau tuttugu ár sem hann hefði starfað hefði engin kista verið sett upp á öxl nema um þjóðhöfðingja væri að ræða. Ég sagði að mér væri alveg sama. Kistan yrði sett upp á öxl. Hann hafði líka áhyggjur af því að það gæti liðið yfir mig en ég sagði nei. Ég var að fara í þetta verkefni og ég ætlaði að klára það. Svo æfðum við þetta og allt gekk ótrúlega vel. Eftir jarðarförina voru margir sem sögðu við mig að þeir vissu ekki hvort þeir mættu nefna það en að þeim hafi þótt gaman í þessari jarðarför. Sorglegt auðvitað, en gaman. Óli fór upp í pontu og hélt ræðu um pabba sinn og það var hrikalega sorglegt. Ég veit ekki hvernig hann gat þetta, það er náttúrlega erfitt en hann náði að halda sér þar til rétt í endann. Þá var hann alveg búinn. Þetta var rosalega flott hjá honum og þeir voru mjög nánir. En við Óli erum þannig gerð að þrátt fyrir að okkur finnist þetta alveg ótrúlega ömurlegt þá hugsum við að svona sé staðan og hvað sé hægt að gera. Hvað hefði hann viljað. Hvernig hefði hann viljað að við myndum díla við þetta. Maður þarf svolítið að hugsa það þótt maður sé ósáttur og verði aldrei sáttur, en þá verður maður einfaldlega að lifa með þessu.“

Ætlar að klára lífið með sóma

Eftir andlát Freysa tók Elín ákvörðun um að lifa lífinu lifandi og að gera það sem hana hefur alltaf dreymt um á meðan heilsan leyfir.

„Fólk er alltaf að segja; rosalega ertu dugleg, rosalega ertu dugleg. En ég segi alltaf að þetta hafi ekkert með það að gera. Ég þarf bara að klára þetta og ég ætla að gera það með sóma. Ég fór til Taílands í janúar með fjögurra daga fyrirvara. Það datt ein út sem ætlaði að fara og það var hringt í mig á fimmtudegi. Á sunnudeginum var ég svo komin út til Taílands. Ég hef aldrei gert svona áður. Í september er ég svo að fara til Hawaii að læra á brimbretti. Ég er að fara með konunni sem missti manninn sinn tveimur mánuðum á undan Freysa. Hún ætlar reyndar ekki að fara á brimbretti, hún sagði við mig að hún væri ekki alveg jafn geðveik og ég,“ segir Elín og hlær.

„Nú er bara planið að gera allt svona. Ég ætla að fara eftir áramót með Óla, syni okkar, og læra að kafa. Ég ætla að nýta tímann til þess að gera nýja og spennandi hluti með börnunum mínum og barnabörnum. Ég ætla að klára allt sem mig langar að gera á meðan ég hef heilsu til.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hefur enn ekki leyft börnum sínum að horfa á Home Alone

Hefur enn ekki leyft börnum sínum að horfa á Home Alone