Eftir að lag Drake, In My Feeling, kom út birti grínistinn TheShiggyShow myndband af sér á Instagram þar sem hann dansaði við lagið. Þúsundir aðdáenda um heim allan hermdu eftir og birtu myndbönd af sér á samfélagsmiðlum að dansa Shiggy dansinn.
Doktor Rich Constantine sem starfar á Constantine tannlæknastofunni í Greenville í Suður Karólínu er einn af þeim. Tæplega 15 milljónir hafa horft á útgáfu hans, In My Fillings (Í fyllingunum mínum), síðan að myndbandinu var póstað á Facebook þann 23. júlí síðastliðinn. Um 26 þúsund athugasemdir eru við myndbandið, flest þeirra frá konum. Margar þeirra sögðust til í að henda öllu frá sér og ýmist flytja til Greenville, já eða í það minnsta brjóta í sér tönn og panta tíma hjá Constantine.
Aðrir sáu ástæðu til að minnast á hvað myndbandið væri góð markaðssetning, „Íbúafjöldi Greenville fer úr 65 þúsund í 1,65 milljón á innan við sólarhring,“ skrifar einn. Annar sér ástæðu til að gefa starfsmanni Constantine hrós: „Hann ætti einnig að sjá sóma sinn í að hækka laun starfsmannsins sem sér um samfélagsmiðla hans og gerði myndbandið „viral.“ Frægum á fimm tímum, vá!“