fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Ungmennin sem féllu frá langt fyrir aldur fram – Fikt getur skilið milli lífs og dauða

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 14. ágúst 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um 25 ungmenni hafa látist í ár vegna eiturlyfjaneyslu samkvæmt upplýsingum frá Landlækni, neyslumynstur ungmenna er að breytast og auðvelt er fyrir ungmenni að ná sér í lyf og fíkniefni í gegnum samfélagsmiðla og snjallsíma. Staðalímyndin um hinn dæmigerða fíkniefnaneytanda er líka breytt, auk þess sem leitarbeiðnir og nauðungarvistun barna og unglinga í vanda er að aukast.

Blaðamaður DV ræddi við mæður barna sem fallin eru frá langt fyrir aldur fram vegna neyslu á lyfseðilsskyldum lyfjum, móður ungs manns sem fannst látinn eftir að hafa verið neitað um hjálp á geðdeild, bróður ungs manns sem framdi sjálfsvíg eftir langvarandi neyslu, og Guðmund Fylkisson lögreglumann sem finnur „Týndu börnin“ og færir þau heim.

Sú staðalímynd hefur lengi loðað við börn og ungmenni sem eru að prófa fíkniefni eða eru í neyslu að um sé að ræða vandræðabörn frá brotnum heimilum, sú er þó ekki raunin. Guðmundur Fylkisson sem hefur í fjögur ár leitað að „Týndu börnunum“, börnum sem velja að yfirgefa heimili sitt og fjölskyldu og fara huldu höfði af einhverri ástæðu, segir börnin vera þverskurð af íslensku samfélagi. Vissulega komi einhver þeirra af brotnum heimilum og hafi átt erfitt uppdráttar alla sína æsku, en meirihlutinn sé venjuleg börn frá venjulegum heimilum, þar á meðal afrekskrakkar í íþróttum.

Sama á við um ungmennin sem látist hafa í ár vegna neyslu lyfseðilsskyldra lyfja, meirihluti þeirra er venjuleg börn af venjulegum heimilum, börn sem hafa ekki neyslusögu að baki, ungmenni sem stunduðu nám og vinnu, áttu vini og fjölskyldu að, áhugamál og drauma, en fikt skildi milli lífs og dauða hjá þeim.

Ingibjörg Melkorka Ásgeirsdóttir 08.03.1998–02.06.2015 „Ingibjörg Melkorka var tekin frá okkur á hrikalegan og ógnvekjandi hátt sem erfitt er að átta sig á. Hún var manneskja sem hefur skilið eftir djúp spor í sálu þeirra sem þekktu hana og mun ávallt lifa í hjörtum okkar. Ingibjörg fór alla tíð sínar eigin leiðir og hafði sérstaka sýn á heiminn. Það var alltaf sterkt í henni listamaðurinn, bókaormurinn, dýravinurinn og spekingurinn. Við þökkum fyrir þessa kosti hennar því hún skilur eftir sig bæði ljóð og myndir sem sem færa okkur nær henni.“ Úr minningargrein systra Ingibjargar.

Upplifði fordóma annarra hjá sjálfri sér

„Þegar dóttir mín lést þá var hún fyrsti einstaklingurinn í stórfjölskyldunni sem prófaði fíkniefni og ég fann hjá sjálfri mér þvílíka fordóma gagnvart því og varð hrædd um að umræðan yrði að hún væri bara enn einn dauður dópisti, ég held að fordómar mínir pínulítið endurspegli fordóma annarra,“ segir Kristín Frímannsdóttir, móðir Ingibjargar Melkorku Ásgeirsdóttur, sem lést sautján ára gömul, eftir að hafa prófað fíkniefni í fyrsta sinn.

Kristín segir dóttur sína hafa átt erfitt uppdráttar í skóla, hún varð fyrir einelti meðal annars vegna sérstakra áhugamála. Hún var ein af þeim sem pössuðu ekki inn í skólakerfið, en afburðanemandi í því sem hún hafði áhuga á. „Hún var heilluð af göldrum og öllu dulrænu og það stuðaði einhverja krakka í kringum hana sem skildu þetta ekki. Hún skipti um skóla og eignaðist nýja vini þar og ég vil meina að líf hennar hafi snarbatnað við það, en hún var brennd af fyrri reynslu. Hún mætti oft engum skilningi á því hvernig hún var, hún var afburðanemandi en fékk aldrei að njóta sín sem slíkur.“

Ingibjörg lést þegar hún var að klára fyrsta árið í menntaskóla, hún var til í að prófa að storka lífinu og dauðanum að sögn móður hennar, sem telur það vera ástæðu þess að dóttir hennar ákvað að prófa fíkniefni. „Hún var búin að missa aðeins virðinguna fyrir sjálfri sér og vildi taka sénsinn.“

Kvöldið sem Ingibjörg lést fór hún út, keypti e-töflur og lést eftir að hafa innbyrt eina og hálfa e-töflu. Hún er sá Íslendingur sem hefur dáið með minnst efni í blóðinu. „Maður man það sem unglingur að maður hafði þörf fyrir að prófa. Að sumu leyti er þetta kannski unglingafikt og þessi bjargfasta trú að það komi ekkert fyrir mig,“ segir Kristín, sem telur að koma þurfi fræðslu inn í skólana, en einnig til foreldra um hversu alvarleg neysla fíkniefna er.

„Við sem eigum börnin verðum að vera meðvituð um heiminn sem þau eru í svo við getum frætt þau verndað og varið, við trúum stundum ekki hvað er í gangi hjá þeim.“

Alma Maureen Vinson 07.10.1998–03.10.2014 „Aldrei í lífinu hélt ég að ég ætti eftir að gera þetta, að sitja heima með tárin í augunum að skrifa minningargrein um dóttur mína. Elsku litli fallegi engill, það eru engin orð sem fá því lýst hversu mikið við söknum þín. Núna er allt svo hljótt, enginn söngur úr herberginu þínu, enginn gítarleikur, og ekkert verið að kalla á mömmu sína til að biðja hana um að koma með eitthvað. Að koma að barninu sínu látnu í rúminu sínu er ekki það sem nokkur getur hugsað sér að eiga von á, við stóðum hérna agndofa, ég og bróðir hennar, skelfingin var svakaleg. Af hverju þú sofnaðir svefninum langa fáum við ekki að vita strax en sjálfsagt er ekki hægt að kveðja þetta líf á fallegri máta. Lífið hafði ekki alltaf verið dans á rósum en þú gerðir allt sem þú gast til að halda þínu striki. Framtíðarplönin voru alveg á hreinu, að klára skólann með sálfræði og félagsfræði sem aðalfög, stofna svo meðferðarheimili fyrir börn sem hafa lent í vandræðum, því þú vildir ekki að neinn þyrfti að ganga í gegnum það sem þú varst búin að gera.“ Úr minningargrein Hildar móður og Stefáns bróðir Ölmu.

Féll aftur sama kvöld og vinkona hennar fyrirfór sér á Vogi

Í sama streng tekur Hildur Hólmfríður Pálsdóttir, móðir Ölmu Maureen Vinson, sem lést í október árið 2014 eftir að hafa tekið inn of stóran skammt af morfínlyfinu Contalgin. Hún var þá aðeins 15 ára gömul og var búin að vera í neyslu í þrjú ár. Hildur hefur gagnrýnt úrræðaleysi í samfélaginu gagnvart ungmennum í sömu stöðu og dóttir hennar var í og telur fræðslu í skólum ábótavant og að hún þurfi að byrja mun fyrr, jafnvel um 12 ára aldur.

Fyrir andlát hennar var Alma nýbyrjuð í vinnu og búin að skrá sig í Fjölbraut í Ármúla, en hætti fljótlega. Alma var búin að fara nokkrum sinnum inn á Vog, hún er með þeim yngstu sem hafa farið þangað, en hún var 13 ára þegar hún fór í fyrsta sinn. „Þegar hún var 14 ára þar í meðferð þá neitaði hún að vera þar lengur og ég fékk símtal um að sækja hana og ég spurði hvort hún gæti bara ráðið því 14 ára.

Alma kláraði síðustu meðferð sína þremur vikum fyrir andlát sitt,“ segir Hildur: „Það var búið að lofa henni plássi á Vík en hún var svikin um það. Hún var svo mikill fíkill að ég held að meðferð þar hefði bara lengt líf hennar, ég  hugsa að hún hefði engu að síður farið svona. Alma kom út af Vogi sama kvöld og önnur ung stúlka fyrirfór sér þar. Andlát hennar fréttist strax í undirheimunum og Alma fór klukkutíma síðar, keypti sér efni og féll.“

Eftir andlát dóttur sinnar hefur Hildur boðið skólum upp á fræðslu, en hún segir nánast enga fræðslu í boði fyrir utan Maritafræðsluna, en hún segir þá fræðslu ólíka sinni. Hún ætlar að halda áfram að bjóða upp á fræðsluna í vetur. „Ég mæti með fyrirlestur, glærur og myndir og sýni myndir af kistunni með þeim orðum að svona geti þetta endað. Ég vil helst hafa lítinn hóp, mesta lagi 1–2 bekki. Krakkarnir spyrja margra spurninga. Ég var beðin um að gera fyrirlestur fyrir foreldra líka og þá hugsaði ég hann út frá því sem ég hefði viljað vita, ég er með myndir af augum, hvernig þau líta út þegar barnið er í neyslu. Einnig nefni ég atriði eins og það að matskeiðar fóru að hverfa, ég taldi að þær hefðu bara týnst, en þá var Alma að nota þær í neyslunni.

Vinir Ölmu hafa sumir hætt í neyslu, nokkrir eru látnir og aðrir eru enn í bullandi neyslu. Ég er stundum hrædd á hverjum einasta degi um að einhver vinur hennar sé farinn.“

Steindór Smári Sveinsson 03.08.1986–13.06.2018 „Þá er síðasta kafla í lífi bróður míns lokið. Hann var jarðsunginn í dag umkringdur fjölskyldu og vinum. Athöfnin var afburða falleg rétt eins og drengurinn sem við kvöddum í hinsta sinn. Þakkir til allra sem sáu sér fært að kveðja hann með okkur.“ Daníel Örn Sigurðsson, bróðir Steindórs Smára.

 Lyfin hefðu sigrað hefði hann ekki svipt sig lífi
„Það er sorglegt að eins mikill fíkill og bróðir minn var að hann var mjög góð manneskja. Hann stal aldrei frá fjölskyldu eða vinum og það eru margir sem lifa góðu lífi í dag, sem voru fíklar en hann náði að aðstoða úr neyslu. Hann vissi hvernig átti að gera þetta, en þráhyggjan var svo mikil að hann náði ekki að bjarga sjálfum sér, þótt hann hafi bjargað mörgum öðrum,“ segir Daníel Örn Sigurðsson, bróðir Steindórs Smára Sveinssonar, sem svipti sig lífi í júní eftir langvarandi neyslu, þar á meðal á lyfseðilsskyldum lyfjum.

Steindór Smári byrjaði í neyslu 14 ára gamall, var kominn í harða sprautuneyslu tvítugur og náði sér aldrei úr neyslunni. „Hann var edrú af og til í einhverja mánuði, en það dugði aldrei. Þetta stóð og féll með honum og því miður féll þetta með honum á endanum,“ en eftir að hafa neytt mikils magns fíkniefna fór Steindór Smári og hengdi sig í bílakjallara. „Hengingin var afleiðingin, en lyfin voru orsökin. Hann sprautaði sig með öllu sem hann komst í. Lyfin hefðu sigrað hefði hann ekki svipt sig lífi.“

Daníel Örn gerði myndband í tilefni þess að Steindór Smári átti afmæli og tengdi það forvarnarátaki fjölskyldu Einars Darra Óskarssonar, Ég á bara eitt líf. „Ég veit að þetta er eitthvað sem Steindór Smári hefði viljað, að hans dauði yrði ekki til einskis. Að hann myndi hafa einhver áhrif á aðra. Mér finnst dauði hans ekkert tabú. Það til dæmis kemur aldrei fram í dánartilkynningum ef einhver deyr vegna baráttu við fíkniefni eða vegna sjálfsvígs. Það þarf að tala um þessi mál opinberlega. Það eykur skilning fólks og er aukin forvörn og fræðsla.“

Kristján Steinþórsson 28.01.1992–09.06.2018 „Ég á erfitt með að trúa þessu en ætla mér að læra að lifa með sorginni. Þið sem þekktu hann vissuð að þar var á ferð einstakur drengur, ljúfur og góður, afburða greindur og skemmtilegur. Við höfum ákveðið að tala opinskátt um hann og hans líf. Mögulega er hægt að opna augu einhverra með því. Hvíldu í friði elsku drengurinn minn. Ég mun alltaf elska þig af öllu hjarta,“ segir Dagbjört Þórunn Þráinsdóttir, móðir Kristjáns.

Kom alls staðar að lokuðum dyrum þegar hann leitaði sér hjálpar

Kristján Steinþórsson barðist við þunglyndi og önnur andleg vandamál frá barnæsku. Hann fannst látinn í herbergi sínu í júní síðastliðnum, eftir að hafa ítrekað mætt lokuðum dyrum þegar hann leitaði sér hjálpar.

„Það virðast ekki vera til úrræði fyrir þetta fólk. Það þarf að vera hægt að grípa fólk sem lendir í andlegri krísu áður en það fer að reyna að lækna sig sjálft með því að reykja gras og prófa hin og þessi efni til þess að deyfa sársaukann,“ sögðu Dagbjört Þráinsdóttir, móðir Kristjáns, og systir hennar, Andrea, í viðtali við DV í lok júní.

Á sínum yngri árum var Kristján afburða nemandi, sá besti í skólanum, og hafði allt til brunns að bera til að eiga gæfuríkt og gott líf en kerfið brást honum á öllum stigum. Hann átti fjölskyldu sem studdi hann og var vinsæll meðal allra sem kynntust honum.

Kristján hafði glímt við þunglyndi, kvíða og félagsfælni um langt skeið og sautján ára fór hann að leita í fíkniefni til að deyfa sársaukann. Í kringum jólin árið 2017 var hann farinn að leita í harðari efni og sökk hratt niður í dýpi þunglyndis og fíkniefnaneyslu. Þegar hann grátbað um aðstoð á sinni myrkustu stund mætti honum sinnuleysi og hroðvirknisleg vinnubrögð. Afleiðingin er sár, bæði fyrir fjölskyldu hans og vini og samfélagið allt.

„Við vorum alltaf mjög náin og töluðum opinskátt um allt og þar voru veikindi hans ekki undanskilin. Það voru gerð endalaus mistök á geðdeildinni. Kristján átti að fara á biðlista en hann var búinn að mæta þrisvar sinnum þegar í ljós kom að hann hafði aldrei verið settur á biðlista og hann var alltaf sendur heim eftir það. Þennan dag áttu þeir að hafa samband við hann en þeir hringdu ekki þannig að hann hringdi sjálfur. Þá fékk hann þær fréttir að hann þyrfti að bíða í einhverja daga til viðbótar.

Þá var hann búinn að gefast upp og missa alla von. Hann vildi komast inn núna og sagði konunni sem hann talaði við að hann gæti ekki beðið lengur.“

Kristján komst loksins inn á geðdeild Landspítalans og var þar í eina viku. Eftir þá dvöl átti hann að komast í fíknimeðferð á Teigi og var bjartsýnn á að komast þar inn. Taka átti einn hóp inn á Teig áður en sumarfríin hefðust og meðferðarheimilinu yrði lokað í heilan mánuð. En þegar honum var tjáð að hann hann kæmist ekki inn fyrr en í haust var það slíkur skellur að hann byrjaði aftur í harðri neyslu

„Það varð honum mikið áfall þegar hann frétti að hann myndi ekki byrja í meðferð fyrr en í ágúst. Fyrir fíkil get ég ímyndað mér að honum hafi fundist það heil eilífð. Þetta kvöld féll hann og aðeins fjórum dögum seinna komum við Viktor, litli bróðir hans, að honum látnum í herberginu hans. Ég veit ekki hvað varð til þess að hann lést en læknirinn sem kom á staðinn taldi að það væri hjartaáfall þar sem engin merki væri um mikla neyslu á staðnum og hann virðist hafa látist mjög snögglega. Hann sat á rúminu sínu með matarbakka á hnjánum og gaffal sér við hlið. Að sögn læknisins sem krufði hann beindist grunur helst að einhvers konar ofneyslu. Í mínum huga finnst mér það í rauninni ekki skipta máli hver ástæðan er. Hann er farinn frá mér og ég veit að hann þjáist ekki lengur,“ segir móðir hans.

„Við vorum alveg vissar um að hann vildi hætta í neyslu því hann var nýbúinn að segja við móður sína að hann væri svo spenntur og hlakkaði svo til að sýna okkur að hann gæti orðið edrú,“ segir Andrea.

Guðrún Andrésdóttir 07.09.1989–10.11.2017 „Guðrún var ung kona sem átti allt lífið framundan, hún lést af völdum lyfjaeitrunar lyfseðilsskyldra lyfja, aðeins 28 ára gömul. Andlát hennar kom okkur algjörlega í opna skjöldu. Guðrún var róleg og yfirveguð ung móðir í námi, hún átti sitt heimili og sína framtíðardrauma. Hún var heimakær og var lítið fyrir skemmtanalífið. Áhugamálin hennar voru að vera úti í náttúrunni eða að vera heima og horfa á góðar myndir í rólegheitum. Hún var með smitandi hlátur og mikill húmoristi, hafði hlýja og góða nærveru og var tilfinningarík og trygglynd. Hún var góður vinur vina sinna og góð systir sem hafði alltaf tíma til að hlusta. Hún var á þeim stað þegar hún lést, Þetta var svo stuttur aðdragandi. Í dag eigum við kærleiksríkar minningar um Guðrúnu sem fór allt of fljótt, fór í blóma lífsins og skildi eftir sig þriggja ára yndislegan son,“ segir Fanney Halldóra Kristjánsdóttir, móðir Guðrúnar.

Einar Darri Óskarsson 10.02.2000–25.05.2018 „Ég veit líka að alltaf þegar verður gleðidagur hjá mér, þá mun hann verða smá sorgardagur um leið. Eins og þegar ég gifti mig, eignast börn, ég hef alltaf séð Einar sem hluta af því. Ég mun gráta af því að hann er ekki með, en ég verð bara að leyfa því að gerast því ég mun alltaf sakna Einars. Ef ég loka alveg á sorgina þá er ég hrædd um að góðu minningarnar fari líka og ég vil frekar eiga slæma daga af og til, en að loka á minningarnar. Maður býst ekki við að einhver svona ungur muni deyja,“ segir Aníta Rún, systir Einars Darra sem lést á heimili sínu eftir neyslu róandi lyfja.

Aðstandendur ungmennanna sem fallið hafa frá langt fyrir aldur fram hafa valið að koma fram með myndir og sögur ástvina sinna, til að sýna að þau eru ekki bara tölur á blaði, heldur ungt og fallegt fólk sem var elskað af fjölskyldu og vinum. Mörg þeirra leituðu sér hjálpar sem ekki var í boði, sum eiga neyslusögu að baki meðan önnur fiktuðu bara einu sinni. Margir eiga um sárt að binda eftir andlát þeirra, en vilja eigi að síður koma fram opinberlega til að standa saman með öðrum aðstandendum, opna umræðuna og halda henni vakandi og knýja á um breytingar í fræðslu, forvörnum og meðferðarúrræðum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér
Fókus
Í gær

Benedikt lenti í miklum vanda á karlakvöldi – „Aðrir við borðið voru farnir að stara á okkur“

Benedikt lenti í miklum vanda á karlakvöldi – „Aðrir við borðið voru farnir að stara á okkur“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa