fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Kom alls staðar að lokuðum dyrum þegar hann leitaði sér hjálpar

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 12. ágúst 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um 25 ungmenni hafa látist í ár vegna eiturlyfjaneyslu samkvæmt upplýsingum frá Landlækni, neyslumynstur ungmenna er að breytast og auðvelt er fyrir ungmenni að ná sér í lyf og fíkniefni í gegnum samfélagsmiðla og snjallsíma. Staðalímyndin um hinn dæmigerða fíkniefnaneytanda er líka breytt, auk þess sem leitarbeiðnir og nauðungarvistun barna og unglinga í vanda er að aukast.

Blaðamaður DV ræddi við mæður barna sem fallin eru frá langt fyrir aldur fram vegna neyslu á lyfseðilsskyldum lyfjum, móður ungs manns sem fannst látinn eftir að hafa verið neitað um hjálp á geðdeild, bróður ungs manns sem framdi sjálfsvíg eftir langvarandi neyslu, og Guðmund Fylkisson lögreglumann sem finnur „Týndu börnin“ og færir þau heim.

Þetta er hluti af stærri umfjöllun í DV.

Kristján Steinþórsson 28.01.1992–09.06.2018 „Ég á erfitt með að trúa þessu en ætla mér að læra að lifa með sorginni. Þið sem þekktu hann vissuð að þar var á ferð einstakur drengur, ljúfur og góður, afburða greindur og skemmtilegur. Við höfum ákveðið að tala opinskátt um hann og hans líf. Mögulega er hægt að opna augu einhverra með því. Hvíldu í friði elsku drengurinn minn. Ég mun alltaf elska þig af öllu hjarta,“ segir Dagbjört Þórunn Þráinsdóttir, móðir Kristjáns.

Kristján Steinþórsson barðist við þunglyndi og önnur andleg vandamál frá barnæsku. Hann fannst látinn í herbergi sínu í júní síðastliðnum, eftir að hafa ítrekað mætt lokuðum dyrum þegar hann leitaði sér hjálpar.

„Það virðast ekki vera til úrræði fyrir þetta fólk. Það þarf að vera hægt að grípa fólk sem lendir í andlegri krísu áður en það fer að reyna að lækna sig sjálft með því að reykja gras og prófa hin og þessi efni til þess að deyfa sársaukann,“ sögðu Dagbjört Þráinsdóttir, móðir Kristjáns, og systir hennar, Andrea, í viðtali við DV í lok júní.

Á sínum yngri árum var Kristján afburða nemandi, sá besti í skólanum, og hafði allt til brunns að bera til að eiga gæfuríkt og gott líf en kerfið brást honum á öllum stigum. Hann átti fjölskyldu sem studdi hann og var vinsæll meðal allra sem kynntust honum.

Kristján hafði glímt við þunglyndi, kvíða og félagsfælni um langt skeið og sautján ára fór hann að leita í fíkniefni til að deyfa sársaukann. Í kringum jólin árið 2017 var hann farinn að leita í harðari efni og sökk hratt niður í dýpi þunglyndis og fíkniefnaneyslu. Þegar hann grátbað um aðstoð á sinni myrkustu stund mætti honum sinnuleysi og hroðvirknisleg vinnubrögð. Afleiðingin er sár, bæði fyrir fjölskyldu hans og vini og samfélagið allt.

„Við vorum alltaf mjög náin og töluðum opinskátt um allt og þar voru veikindi hans ekki undanskilin. Það voru gerð endalaus mistök á geðdeildinni. Kristján átti að fara á biðlista en hann var búinn að mæta þrisvar sinnum þegar í ljós kom að hann hafði aldrei verið settur á biðlista og hann var alltaf sendur heim eftir það. Þennan dag áttu þeir að hafa samband við hann en þeir hringdu ekki þannig að hann hringdi sjálfur. Þá fékk hann þær fréttir að hann þyrfti að bíða í einhverja daga til viðbótar.

Þá var hann búinn að gefast upp og missa alla von. Hann vildi komast inn núna og sagði konunni sem hann talaði við að hann gæti ekki beðið lengur.“

Kristján komst loksins inn á geðdeild Landspítalans og var þar í eina viku. Eftir þá dvöl átti hann að komast í fíknimeðferð á Teigi og var bjartsýnn á að komast þar inn. Taka átti einn hóp inn á Teig áður en sumarfríin hefðust og meðferðarheimilinu yrði lokað í heilan mánuð. En þegar honum var tjáð að hann hann kæmist ekki inn fyrr en í haust var það slíkur skellur að hann byrjaði aftur í harðri neyslu

„Það varð honum mikið áfall þegar hann frétti að hann myndi ekki byrja í meðferð fyrr en í ágúst. Fyrir fíkil get ég ímyndað mér að honum hafi fundist það heil eilífð. Þetta kvöld féll hann og aðeins fjórum dögum seinna komum við Viktor, litli bróðir hans, að honum látnum í herberginu hans. Ég veit ekki hvað varð til þess að hann lést en læknirinn sem kom á staðinn taldi að það væri hjartaáfall þar sem engin merki væri um mikla neyslu á staðnum og hann virðist hafa látist mjög snögglega. Hann sat á rúminu sínu með matarbakka á hnjánum og gaffal sér við hlið. Að sögn læknisins sem krufði hann beindist grunur helst að einhvers konar ofneyslu. Í mínum huga finnst mér það í rauninni ekki skipta máli hver ástæðan er. Hann er farinn frá mér og ég veit að hann þjáist ekki lengur,“ segir móðir hans.

„Við vorum alveg vissar um að hann vildi hætta í neyslu því hann var nýbúinn að segja við móður sína að hann væri svo spenntur og hlakkaði svo til að sýna okkur að hann gæti orðið edrú,“ segir Andrea.

Aðstandendur ungmennanna sem fallið hafa frá langt fyrir aldur fram hafa valið að koma fram með myndir og sögur ástvina sinna, til að sýna að þau eru ekki bara tölur á blaði, heldur ungt og fallegt fólk sem var elskað af fjölskyldu og vinum. Mörg þeirra leituðu sér hjálpar sem ekki var í boði, sum eiga neyslusögu að baki meðan önnur fiktuðu bara einu sinni. Margir eiga um sárt að binda eftir andlát þeirra, en vilja eigi að síður koma fram opinberlega til að standa saman með öðrum aðstandendum, opna umræðuna og halda henni vakandi og knýja á um breytingar í fræðslu, forvörnum og meðferðarúrræðum.

Sjá einnig:  Lyfin hefðu sigrað hefði hann ekki svipt sig lífi.

Sjá einnig: Dóttir Kristínar lést langt fyrir aldur fram – Upplifði fordóma annarra hjá sjálfri sér.

Sjá einnig: Féll aftur sama kvöld og vinkona hennar fyrirfór sér á Vogi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“