fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Bankalögfræðingurinn sem verður bæjarstjóri – „Þetta var einhver skyndihugdetta“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 31. júlí 2018 21:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karl Óttar Pétursson söðlar um um næstu mánaðamót þegar hann yfirgefur krefjandi starf til margra ára sem forstöðumaður lögfræðideildar Arion banka og flytur þvert yfir landið og tekur við sem nýr bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Í viðtali við blaðamann DV ræðir hann gamla og nýja starfið, gutlið sem varð að pönkhljómsveit, rokkhátíðina Eistnaflug, sem hann tók þátt í að skapa og bjarga frá gjaldþroti, og þunglyndið, sem hann glímdi við frá barnæsku en reyndist vera kvíði, kvíði sem fylgir honum alla tíð, en hamlar honum hvorki í leik né starfi.

„Þetta var einhver skyndihugdetta,“ svarar Karl, aðspurður af hverju hann, fæddur og uppalinn Reykvíkingur, sótti um bæjarstjórastöðu í Fjarðabyggð. „Það var reyndar búið að nefna þetta við mig og ég var búinn að vera mikið fyrir austan að skipuleggja og bjarga Eistnaflugi, sem fór tæknilega séð á hausinn í fyrra. Ég var ekkert að hugsa um að skipta um starf, en ég ræddi þetta við konuna mína sem fannst þetta sniðug hugmynd, þannig að ég sótti um rétt áður en umsóknarfresturinn rann út.“

Umsókn Karls var sýndur mikill áhugi, ferlið gekk hratt fyrir sig og var honum boðin staðan. „Þetta er fyrsta bæjarstjórastaðan sem ég sæki um,“ segir hann og hlær. „Þegar maður tekur svona ákvörðun, er maður þá ekki búinn að hugsa í undirmeðvitundinni að breyta til? Það er eitthvað sem gerir það að verkum að maður stekkur til. Núna erum við konan bara að skoða fasteignir fyrir austan á netinu.“

Karl er búinn að vinna hjá Arion banka og forverum hans í 14 ár og alla tíð í erfiðustu málunum, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum og sem forstöðumaður lögfræðideildar frá árinu 2007. „Ég er búinn að vera stjórnandi mjög lengi,“ segir Karl og bætir við að meiri óvissa fylgi nýja starfinu en að vera í bankanum, enda ráðningartíminn sá sami og sveitarstjórnarinnar, fjögur ár. „En maður er orðinn það gamall að það er svona síðasti séns að breyta til.“

Bæjarráð Fjarðabyggðar ásamt nýjum bæjarstjóra, Karli Óttari Péturssyni. Frá vinstri: Dýrunn Pála Skaftadóttir, Eydís Ásbjörnsdóttir, Karl Óttar Pétursson, Rúnar Gunnarsson og Jón Björn Hákonarson.

Stígur til hliðar sáttur við Eistnaflug

Sem nýráðinn bæjarstjóri Fjarðabyggðar stígur Karl til hliðar sem framkvæmdastjóri rokkhátíðarinnar Eistnaflugs sem haldin hefur verið í Neskaupstað í fimmtán ár, en hann hefur verið framkvæmdastjóri síðan árið 2014. „Þá tóku fyrri eigendur, Stefán Magnússon og Hrefna Húgósdóttir, þá ákvörðun að það þyrfti að gera eitthvað meira. Hátíðin var þá búin að sprengja utan af sér, margir útlendingar farnir að mæta og hátíðin var flutt í íþróttahúsið. Síðan þá hefur útlendingum fækkað og standa kannski 100 manns eftir. Það er afar dýrt að vera á Íslandi og hátíðin er eins langt frá Reykjavík og hægt er, þetta kostar allt sitt, gisting sem er takmarkað framboð af og svo framvegis. Það er hins vegar nóg af gistiplássi í Fjarðabyggð, en við bjóðum ekki upp á akstur milli bæjarfélaga. Við tókum eftir að fólk í ár var ekki að gista mikið á tjaldsvæðinu.

Það hefur verið minn draumur að selja ferðir í Fjarðabyggð með aðgangi að Eistnaflugi og annarri afþreyingu, til dæmis bátsferð frá Neskaupstað, það er alls konar afþreying í boði í Fjarðabyggð og fallegir staðir að njóta. Þetta var draumurinn þegar útlendingarnir voru margir, en við vorum bara of fá í allri skipulagningu, sem er öll unnin í sjálfboðavinnu.“

Magný Rós Sigurðardóttir tók við framkvæmdastjórastöðunni af Karli. „Ásamt henni er kominn hópur af konum og það verður gaman að sjá hvað þær gera úr þessari hátíð, sem stendur á ákveðnum tímamótum. Gamla liðið sem stofnaði hana er mikið til hætt að mæta, en andinn sem þau bjuggu til hefur lifað og það er kominn nýr hópur af fólki. Spurning hvort að ný stjórn bjóði upp á fjölbreyttari tónlist og afþreyingu, sem ég tel nauðsynlegt þegar fólk er að ferðast þessa vegalengd. Við höfum ekki staðið okkur vel í því hingað til, heldur bara skipulagt tónleikana, en allt starfið er sjálfboðavinna.“

Flestir stjórnenda og eigenda Eistnaflugs eru búsettir í og koma frá Reykjavík, en nýlega er komin tenging austur, en SÚN, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað er komið inn sem hagsmunaaðili. „Þannig að það eru fleiri hagsmunir komnir inn og ég hef miklar væntingar til þess sem SÚN getur gert. Við erum að flytja inn aðila, eins og plötufyrirtæki og umboðsmenn sem bera orðspor okkar út. Það er mikilvægt við hátíðina að þarna kemst þungarokk og öðruvísi tónlist til útlanda. Hún er einnig stökkpallur fyrir minni íslenskar hljómsveitir, sem eru að gera góða hluti og það þykir mikil upplifun að spila á stóra sviðinu. Ég er til dæmis mikill aðdáandi Hemúlsins sem kom fram í ár, ég var glaður að sjá hann spila fyrir fjölda fólks og fólk að taka undir. Hemúllinn er pönk, það er öllum vel tekið þarna.“

Karl segir mikla breytingu hafa orðið á hátíðinni, í ár hafi verið mikil gleði og ró og allir mætt til að njóta tónlistar og samveru, áður hafi þetta snúist meira um drykkju. „Þetta snýst ekki um að drekka sig fullan og muna ekki rassgat, það er stór breyting. Við sem byrjuðum höfðum gaman af að detta illilega í það, við erum með þemalag og það er einkennandi fyrir gömlu tímana að það kemur í lok lagsins að ef þú manst eftir Eistnaflugi þá hafir þú ekki verið þar. Það má segja að með Eistnaflugi í ár hafi þessu slagorði verið eytt.

Það sem við eigum öll sameiginlegt er að þetta er menning sem við viljum viðhalda, menning sem við viljum tilheyra og við viljum hjálpa böndunum að verða stærri af því að þegar við vorum ung þá var það dauði að vera í þungarokkshljómsveit.“

Kynntist ástinni í gegnum Eistnaflug

Karl flytur ekki einn austur, því kærastan, Helga Dóra Jóhannesdóttir, og dóttir hennar flytja með. Karl og Helga kynntust í gegnum Eistnaflug og byrjuðu saman árið 2016. „Ég fékk hana inn í Eistnaflug til að sjá skipulega um minjagripasölu bæði fyrir íslensku og erlendu böndin. Fljótlega eftir það vorum við byrjuð saman. Hún var þá byrjuð að selja fyrir hljómsveitir, en í dag sér hún um allar stærri sveitirnar. Hún bjó til „bisness“ úr þessu fyrir þær og heldur þeim við efnið. Hún situr einnig núna í framkvæmdastjórn Eistnaflugs.“

Hyggst læra nýja starfið fyrst

„Ég er náttúrlega ekki pólitíkus, ég er kominn til að framfylgja þeirri stefnu sem pólitíkin setur á hverjum tíma,“ segir Karl aðspurður hvaða áhrif hann vilji hafa sem bæjarstjóri. „Ég hef mikinn áhuga á að fá fleiri ferðamenn austur og á menningartengdri ferðaþjónustu og það er margt að gerast í þeim málum.“

Hann segir að í raun megi segja að Suðurlandið sé orðið uppselt, landið dýrt og ferðamannafjöldinn of mikill. Á Austurlandi sé fólk velkomið, það vanti bara að koma fólki þangað. Einhvern tíma hafi verið skoðað að bjóða upp á flug að utan beint á Egilsstaði, en það hafi ekki gengið upp af einhverjum ástæðum.

„Ég þarf að byrja á því að læra áður en ég fer að leggja eitthvað til, ætli maður geri ekki mikið til eins og manni er sagt fyrsta árið,“ segir Karl.

„Svona fyrsta hálfa árið og ert stilltur,“ stingur blaðamaður upp á og Karl hlær og samsinnir því.

Dr. Gunna að kenna að gutl varð að pönkhljómsveit

Áramótin 1990/1991 þegar Karl var á síðasta ári í Menntaskólanum á Laugarvatni voru hann og félagar hans mjög menningarlega sinnaðir, gáfu út tvö blöð og einhverjir voru að spila á hljóðfæri og halda tónleika. „Menn voru byrjaðir að glamra niðri í skólastofu, það voru hinir og þessir sem komu að hljómsveitinni Saktmóðigur og það voru haldnir einhverjir tónleikar undir þessu nafni. Síðan sótti einn okkar um í Músíktilraunum. Einn daginn heyrði ég fyrir tilviljun í síma hringja uppi á þriðju hæð í skólanum. Þetta var auðvitað löngu fyrir tíma farsíma og ég hljóp þarna upp þrjár hæðir til að svara í símann sem félaginn hafði gefið upp á umsókninni. Við vorum komnir inn í Músíktilraunir.

„Já, ókei, við erum að fara að vera hljómsveit,“ sögðum við, en hún var aldrei meðvituð ákvörðun, við bara töldum í og spiluðum í skólanum. Þarna bjuggum við til fjögur lög sem var skilyrði til að taka þátt og bara mættum.“

Þannig að var þetta bara gutl þar til símtalið kom?

„Já, það kunni bara enginn neitt,“ segir Karl. Strengjaleikararnir ákváðu að skipta um alla strengi áður en stigið var á svið og það var kona þarna frá Rás 2 sem ég man nú ekki nafnið á. Hún horfði á okkur og spurði svo: „Á ekki að tjúna?“

Ég hafði ekki hugmynd um hvað hún var að segja, hafði aldrei heyrt þetta orð áður. Þannig að við stigum bara á svið og framkvæmdum hávaða. Sem varð mjög vinsæll þarna á tímabili. Ég get ekki haldið takti, sko, er alveg falskur og heyri varla. Þess vegna get ég verið svona slæmur, af því ég heyri ekki hversu lélegur ég er. Hinir strákarnir kunnu ekkert á þessum tíma og gerðu bara eitthvað, þannig að þetta var eins og gjörningur á sviði í mörg ár. Síðan hafa nú strákarnir lært heilmikið eins og kannski sést á nýjustu plötunni okkar.“

En hvernig gekk í Músíktilraunum?

„Við fengum ekkert sæti og vorum væntanlega neðstir á kvöldinu, en fengum mikil skrif um okkur frá bæði Árna Matt og Dr. Gunna sem voru aðalskríbentarnir á þessum tíma og það er í raun og veru þeim að kenna að við urðum til. Það kom ekki annað til greina þegar við byrjuðum í háskólanum um haustið en að halda bara áfram í pönkinu.“

Sótti um á heimavist til að berjast gegn þunglyndinu

Strax sem barn var Karli farið að líða illa, hann fann fyrir þunglyndi og lokaði sig af. Ellefu ára gamall var hann farinn að lesa sér til um lífs- og heimspeki til að reyna að komast að af hverju honum leið alltaf svona illa. Þegar kom að því að velja menntaskóla tók hann meðvitaða ákvörðun um að sækja um á heimavist, í stað þess að fara í skóla í Reykjavík.

„Það var aðallega vegna þess að ég var svo þunglyndur, ég var búinn að einangra mig frá öllum, ég var bara heima að lesa bækur. Með því að sækja um á heimavist gerði ég ráð fyrir að ég mundi neyðast til að tala við fólk og það mundi hjálpa mér í þessari vanlíðan.

Á þessum tíma þá áttaði ég mig ekki á að þetta var kvíði, ég fann bara þunglyndi þegar orkan var búin, þetta máttleysi og áhugaleysi. Það var meðvituð ákvörðun að einangra mig, þá sparaði ég orkuna og gat verið hressari. Og ég var alls ekki að flækja líf mitt með því að eiga við konur.

Ég var fyrirmyndarnemandi, varaskólinn minn var MR og ég komst þar inn, móðir mín var ofsalega glöð. Ég sótti hins vegar um í Menntaskólanum á Laugarvatni sem aðalskóla, en var mjög lengi að fá svar. Við vorum tveir félagarnir sem sóttum um þar og ég hefði aldrei farið ef hans hefði ekki notið við. Ég hefði ekki haft manndóm í það, þannig að ég á honum mikið að þakka. Við vorum saman á Laugarvatni í fjögur ár, sem var ómetanlegur tími. Ég kynntist fjölda fólks og við mynduðum þennan hóp sem Saktmóðigur er.

Ég var þolanlegur í íþróttum og oft verið að reyna að draga mig í þær en það olli mér miklum kvíða þannig að ég forðaðist að vera með. Ég stóð mig til dæmis vel í bridds, en Menntaskólinn á Laugarvatni var þekktur fyrir góða briddsspilara. Ég man við vorum einu sinni efstir eftir fyrsta dag, ég hafði ekkert sofið í tvo daga fyrir mótið og ég svaf ekkert allt mótið.

Um fertugt fór ég að lesa mér til um kvíðaröskun og þá uppgötvaði ég að þessi vanlíðan, öri hjartsláttur og sviti, bara úti í miðri búð eða eitthvað, væri kvíði.“

Aðspurður hvort segja megi að um frammistöðukvíða sé að ræða, kvíða yfir hvað gerist ef eitthvað klikkar, svarar Karl: „Ég er mikið fyrir það, ég reyni að sjá allar mögulegar aðstæður fyrir í lífi mínu. Ég hef ekki skilgreint kvíðann, heldur reyni frekar að beina ekki hugsunum mínum þangað. Þetta er samt eitthvað sem maður ræður ekki mikið við, heldur kemur bara allt í einu upp þessi tilfinning og þá er málið að ergja sig ekki mikið á því heldur takast á við eftirköstin. Ég fæ örugglega brjálaðan kvíða á eftir yfir að hafa mætt í þetta viðtal.“

Karl hefur náð góðum tökum á kvíðanum í dag, en þegar hann skrifaði BA-ritgerð sína í sagnfræði missti hann tökin. „Ég fór að kvíða fyrir hvað ég ætti að gera þegar ég væri útskrifaður. Ég skrifaði ritgerðina á engum tíma, týndi lokaeintakinu þannig að ég skilaði kennaranum eintakinu sem ég hafði skilað honum nokkrum vikum áður og með sömu villum. Ég var orðinn of seinn og veit ekkert hvernig ég fór að því að týna lokaeintakinu, en ég hef svo sem aldrei verið góður á tölvur. Kennarinn hefur líka orðið alveg brjálaður þegar hann fékk ritgerðina og hugsað að ég hafi ekki hlustað á orð af því sem hann sagði. Þarna stóð tæpt hjá mér og þá var ég drifinn út af félögum mínum og fjölskyldu að hitta fólk.“

Stundaði háskólanám í áratug og féll fyrir lögfræðinni

Karl er útskrifaður með BA í sagnfræði, stundaði síðan heimspekinám í tvö ár, áður en hann kynntist lögfræði og féll fyrir henni, en hann útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2002.

„Ég dúllaði mér í tíu ár í háskólanum. Ég varð fyrir vonbrigðum í heimspekinni, þetta var allt svo þeórískt. Þegar ég var í sagnfræði þá fór ég að velta fyrir mér hvar reynir á þessa lífsspeki og skoðanir manns. Þá fór ég að lesa réttarheimspeki og fannst hún alveg vera málið. Þú bara setur lög út af einhverri lífsspeki sem þú hefur. Þannig verða lögin til, það eru lífsgildi, siðaboðskapur sem er undirliggjandi, sem heimspekin er alltaf að velta fyrir sér, en í lögfræðinni gerist hún. Ég féll fyrir lögfræðinni og hef rosalega gaman af að grúska í henni.“

Eftir útskrift úr lögfræði steig Karl aftur út fyrir þægindarammann og réð sig sem aðstoðarmaður héraðsdómara í Héraðsdómi Vestfjarða á Ísafirði. Þar starfaði hann í 20 mánuði.

„Ég ákvað að fara þangað af því að þar fengi ég að gera allt. Ég samdi dóma og úrskurði allt í nafni og undir handleiðslu dómstjórans, Erlings Sigtryggssonar, sem kenndi mér mikið. Nokkrir úrskurðir fóru fyrir Hæstarétt þar sem þeir voru staðfestir með vísan til forsenda í Hæstarétti, þá var ég ekkert smá glaður og ég sá þetta fyrir mér sem framtíðarstarf.“

Vegna ágreinings um greiðslur til dómstólsins var starf Karls hins vegar ítrekað lagt niður og hann rekinn og endurráðinn á víxl og lét kvíðinn þá kræla á sér aftur. „Ég var nýkominn til starfa, þá var staðan lögð niður, svo fékkst peningur og ég var ráðinn aftur, og síðan var staðan aftur lögð niður.

Þetta olli mér rosalegum kvíða. Þingmaður Vestfjarða tók málið upp á Alþingi, benti á að það væri alltaf verið að leggja stöðuna niður, þrátt fyrir að álagið væri hvergi meira á löglærðan starfsmann en á Vestfjörðum, eins og staðan var á þeim tíma. Þá var hringt í mig og mér boðin vinna eftir að hafa verið sagt upp rétt fyrir jól árið 2003. Og ég hugsaði að ég gæti þetta ekki lengur, þetta ástand var alveg að drepa mig og ég var bara ekki maður í það.“

Man varla eftir hruninu vegna vinnuálags

Karl réð sig því í aðra vinnu og hóf störf hjá Kaupþingi 1. mars 2004. „Það er einstaklega gott fólk sem vinnur í þessum banka og gríðarlega góður félagsskapur. Ég þarf að vera með góðu fólki það gerir líf mitt gott.“

Kom aldrei til greina að hætta í bankanum eftir hrunið?

„Ég man ekki vel eftir hruninu, maður bara vann 20 klukkustundir á sólarhring og það leið ekki mínúta þar sem ekki var verið að ónáða mann með eitthvað. Þá sjaldan sem ég settist við borðið mitt var komin löng röð af starfsfólki að leita ráða hjá mér. Mér bárust tilboð um að fara annað, en mér fannst ég bara ekki geta yfirgefið fólkið mitt. Það hefur ekki verið mikil starfsmannavelta í þeim hópum sem ég hef stýrt, fólk hefur ekki mikið verið að fara frá mér. En því miður hef ég þurft að segja fólki upp þegar kröfur hafa verið gerðar um hagræðingu.

Eina sem ég sé eftir í mínu lífi er að hafa ekki haldið dagbók á árunum 2008–2014, en líklega hefði ég hvorki haft tíma til þess eða nennt því.“

Karl tekur eins og áður segir við bæjarstjórastöðunni í ágúst næstkomandi, en fær hann að yfirgefa bankann með svona stuttum fyrirvara? „Við ræðum það á mánudag, þá koma yfirmennirnir úr fríi,“ segir hann hress í bragði, enda tilbúinn að takast á við nýjar áskoranir í nýju starfi í menningarlífinu og sveitasælunni í Fjarðabyggð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Davíð lýsir martraðarkenndri læknismeðferð í Svíþjóð – „Ég var í einhverjum svaka slag í hausnum á mér að reyna að lifa þetta af“

Davíð lýsir martraðarkenndri læknismeðferð í Svíþjóð – „Ég var í einhverjum svaka slag í hausnum á mér að reyna að lifa þetta af“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leikkonan harðlega gagnrýnd eftir að hún deildi söfnun fjölskyldumeðlims – Segir gagnrýnendum að fokka sér

Leikkonan harðlega gagnrýnd eftir að hún deildi söfnun fjölskyldumeðlims – Segir gagnrýnendum að fokka sér
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni