Þetta skrifar Amanda Smith við Instagram mynd af sjálfri sér þar sem hún liggur makindalega í hengirúmi við frjósaman frumskóg.
Nokkrum vikum áður hafði hún ferðast Nýja Sjáland og þar tók hún að sjálfssögðu stórkostlegar myndir af hafinu og klettunum. Þar áður var Amanda í Tulum í Mexíkó en áður en hún kom þangað var hún á öfundsverðu ferðalagi um Evrópu.
Í stuttu máli virðist líf Amöndu Smith einfaldlega ganga út á að ferðast um heiminn og þakka hótelum og veitingastöðum fyrir góðgjörðir þeirra með myndbirtingum á þessum sívaxandi samfélagsmiðli.
Amanda er semsagt það sem kallað hefur verið „áhrifavaldur“ á samfélagsmiðlum. Öflugt markaðstæki ein og sér, án þess að hafa mikið fyrir því.
Margir vilja reyndar meina að það sé kraftaverk að Amanda skuli enn vera að á Instagram.
Amanda Smith, öðru nafni @wanderingggirl á Instagram er nefnilega karakter sem var búinn til af markaðsstofunni Mediakix í þeim tilgangi að sýna fram á hversu einfalt það er fyrir hvern sem er að bjóðast til að kynna varning í gegnum falskan Instagram reikning.
Já, þú last rétt – það er ekki nóg með að fylgjendurnir séu fæstir raunverulegar manneskjur, eigandi reikningsins er líka uppspuni frá rótum.
Liðsmenn Mediakix borguðu semsagt fyrir fylgjendur, birtu svo útpældar og ákaflega glamúrus myndir úr myndabönkum og sköpuðu þannig, á stuttum tíma, tálsýn um öfundsverða, fallega stelpu sem ferðast um heiminn og lifir fáránlega ljúfu lífi án þess að borga krónu fyrir.
Þeir sendu svo tölvupósta á fjöldan allann af fyrirtækjum sem gáfu henni loforð um hin ýmsu fríðindi en eðlilega þáði hún þetta aldrei, enda hefur hún aldrei verið til.
Talsmenn Mediakix greindu reyndar fyrst frá þessu síðasta sumar og útskýrðu þá að með uppátækinu hefðu þeir viljað sýna hvernig fjölmörg fyrirtæki eru alls ekki með á nótunum þegar kemur að fölskum fylgjendum eða „engagement“ á Instagram.
Margir verða við bónum hinna og þessa „áhrifavalda“ um fría gistingu, mat eða aðra þjónustu en vita í raun ekki hvort þetta fólk sé jafn áhrifaríkt og það gefur sig út fyrir að vera.
Í kjölfar yfirlýsingarinnar reiknuðu þeir eðlilega með að reikningnum @wanderingggirl yrði strax lokað en sú varð ekki raunin.
Þeir afréðu því að halda áfram en nú í opinberu samstarfi við ferðabransann og áfram í þeim tilgangi að vekja fyrirtækjaeigendur til umhugsunar um á hvað þeir væru að veðja.
„Að koma sér á framfæri í gegnum samfélagsmiðla getur verið krefjandi verkefni, sérstaklega fyrir minni fyrirtæki. Það hafa ekki allir fjármagn til að kaupa þjónustu af markaðsfyrirtækjum og fæstir hafa þekkinguna til að sjá í gegnum þetta,“ segir Evan Asano forstjóri Mediakix en á heimasíðu fyrirtækisins má lesa ýtarlegar um málið og hvernig hver sem er getur falsað sér leið og orðið svokallaður „áhrifavaldur“ á Instagram.
Ekki er allt sem sýnist, – og allra síst á netinu.