fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fókus

Lauga (30) og Árni (28) á Torfastöðum: „Bændur eru bændum verstir“

Margrét Gústavsdóttir
Mánudaginn 18. júní 2018 16:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurlaug Jónína Ólöf Þorsteinsdóttir, kölluð Lauga, er bóndi á Torfastöðum í Jökulsárhlíð. Þangað flutti hún 22. apríl í fyrra ásamt manni sínum Árna Jóni Þórðarsyni og þriggja ára syni þeirra, Þórði Þorsteini.

Í nýju viðtali við Mannlíf fer hún yfir stöðuna á búskapnum en þau parið hófu búskap sinn á þessari leigujörð í fyrra:

„Foreldrar mínir voru að hætta búskap og hafa stutt okkar heilshugar í þessu verkefni og þau gáfu okkur fyrir fimmtíu gripum, svo að í haust fórum við og keyptum okkur gimbrar,“ segir Lauga en hún og Árni hafa fyrst og fremst áhuga á fjárbúskap.

„Við höfum bæði mjög gaman að íslensku sauðkindinni og ætlum að láta það duga, en mig dreymir nú líka um að eignast hesta einhvern tíma, fyrir göngur og réttir og útreiðatúra,“ segir Lauga sem fyrir sakir örlaganna eignaðist svo allt í einu 150 kindur til viðbótar og þurfa því að heyja mun meira en til stóð í fyrstu. Þau ætluðu að dunda sér við að fjölga bústofninum í rólegheitum á næstu árum en meðalstórt bú er um 400-500 fjár og þau eru nú þegar hálfnuð í þá áttina.

Bændur hafa ekki mikið á milli handanna

„Ég hugsa að við grisjum bara úr í haust og bætum við nýjum gripum en förum ekki mikið yfir 200 gripi. Þetta er mjög stór jörð og við færum létt með að fjölga mikið en hugsanlega þyrftum við að byggja fjárhús til þess og það stendur svolítið á því. Það er mikill kostnaður og bændur hafa jú ekki mikið á milli handanna,“ segir Lauga í viðtalinu og snýr um leið talinu að orðræðunni í kringum landbúnaðinn sem að hennar mati mætti vera umtalsvert betri:

„Það versta er hvað landbúnaður er talaður niður, bæði af fólki sem stundar landbúnað og þeim sem hafa ekki hundsvit á honum. Mér finnst það eiginlega verst af öllu að bændur eru bændum verstir oft og tíðum. Við erum stétt sem ætti að standa saman, þétt saman, vegna þess að við viljum öll það sama: það sem okkur ber fyrir okkar afurðir miðað við það sem við leggjum á okkur. Sem skilar sér ekki í dag. Og það er svolítið súrt að sjá þessa umræðu um innflutning á kjöti, þar sem við erum þegar með mjög góða og hreina vöru. Ég væri til í að sjá meiri útflutning, ég trúi því að þar séu tækifæri sem við nýtum ekki en þetta er ekki auðveldur markaður, það verður að viðurkennast,“ segir bóndinn ungi og bætir um leið við að þau Árni finni samt sem áður fyrir miklum stuðningi og velvild.

Góðir nágrannar eru gulls ígildi

„Við erum heppin með það að hér eru góðir nágrannar, það er gulls ígildi. Og við ætlum bara að standa með okkar sannfæringu.“

Þótt bændum fari fækkandi segir Lauga jafnframt að önnur hjón á fertugsaldri hafi einnig nýlega hafið búskap í sveitinni svo hún lætur engan bilbug á sér finna.

„Maður getur ekki alltaf verið að bíða eftir því að sveitirnar verði fullar af ungu fólki, einhvers staðar verður að byrja og ég vona að við verðum bara til þess að fólki vilji hefja búskap, að við verðum fordæmi. Þetta er hægt, ef við gátum það þá geta þetta allir,“ segir hún að lokum en viðtalið má lesa í heild sinni hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 16 klukkutímum
Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?