Líklegt þykir að þátturinn verði unninn í samstarfi við Netflix þar sem Murphy hefur nýgengið frá stórum samningi við efnisveituna.
Þættirnir bera heitið Consent (eða Samþykki) og sagt er að þeir verði í stíl við hina geysivinsælu Black Mirror-seríu. Hver þáttur segir sjálfstæða sögu og verður nýtt teymi aðstandenda við tauminn á hverjum.
Metoo-byltingin hófst í október í fyrra. Þá greindu fjölmargar konur frá kynferðisbrotum og áreitni kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein. Í kjölfarið greindi fjöldi kvenna í ýmsum starfsstéttum frá reynslu sinni af sambærilegu ofbeldi og áreitni við störf.
Ryan Murphy hefur áður unnið að sjónvarpsþáttunum Nip/Tuck, Glee, American Horror Story og American Crime Story sem sópaði til sín níu Emmy-verðlaunum en það er fjöldamet fyrir eina þáttaröð á hátíðinni.
Framleiðandinn hefur sagt frá því að Constent fjalli um mál Harvey Weinstein og leikarans Kevin Spacey ásamt því að notast við frásagnir margra brotaþola í áreitismálum kvikmyndabransans og víðar.
„Þetta er sorglegt umverfi”, sagði Murphy í samtali við fréttamiðilinn The New Yorker, „…en svona er Hollywood. Fæstir sem hafa náð frama í þessum bransa fengu almennilegt uppeldi, svo ég viti.”
Enn er ekki ljóst hvenær þættirnir verða teknir til sýninga en álykta má að margir bíði spenntir.