fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Fjallahjólagarpurinn Albert Jakobsson (56): „Ég hef ekki alla stígana fyrir sjálfan mig eins og ég hafði áður“

Margrét Gústavsdóttir
Fimmtudaginn 31. maí 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Albert Jakobsson, deildarstjóri tölvudeildar Háskóla Íslands, er að öllum líkindum fjallahjólamaður nr. 1 á Íslandi. Konungur Öskjuhlíðar og aldursforseti með meiru.

Hann segist ekki hafa sleppt hjólinu frá því hann var sex ára gamall en bíl á hann einungis til þess að komast upp í fjöll þar sem hann hreinlega elskar að rúlla upp og niður brekkur.

Fókus sló á þráðinn til Alberts og fræddist aðeins um fjallahjólasportið sem á sívaxandi vinsældum að fagna, sér í lagi meðal miðaldra og vel menntaðra Íslendinga.

Hvenær var fjallahjólaklúbburinn stofnaður?

„Sko, Hjólreiðaklúbbur Reykjavíkur var stofnaður árið 1927 og hét þá Hjólamannafélag Reykjavíkur. Þetta félag var endurvakið í kringum 1979 og telur nú um 200 manns sem greiða félagsgjöld. AM, eða All mountain deildin er í raun undirklúbbur í HFR. Íslenska nafnið á honum gæti kannski verið Öll fjöll, eða eitthvað svoleiðis!? Í HFR eru sem sagt götuhjólaklúbbur, fjallahjólaklúbbur, AM og svo brun – og brekku klúbbur, eða downhill eins og það kallast á fjallahjólatungumáli.“

Hvernig líður ykkur sem eruð búin að vera rosa lengi í þessu með tískubylgjuna? Hverjir eru kostirnir og hverjir eru gallarnir?

„Ég hef ekki alla stígana fyrir sjálfan mig eins og ég hafði áður,ׅ“ svarar Albert og hlær.

„Þetta er gleðilegt en við finnum óneitanlega fyrir vaxtaverkjum. Við þurfum að vinna aðeins betur með gangandi, hlaupandi fólki og hestum og hestafólki. Til að leysa þetta þurfum við að gera eins og í Ameríku, en þar eru reghlífasamtök sem reyna að bæta þessa umferðamenningu á stígum svo að fólk taki tillit til hvors annars. Við eigum auðvitað ógrynni af hestaþjóðleiðum sem við fjallahjólafólkið hjólum eftir og hestarnir eiga erfitt með að sættast við okkur en við reynum bara að sýna tillitssemi, þar sem annarsstaðar.“

Albert í banastuði í Utah

Hver er elsti fjallahjólakappi landins?

„Vá. Þegar stórt er spurt. Fjallahjól komu til landsins í kringum 1985 og við vorum ansi margir sem keyptum fjallahjól þá. Ætli ég sé ekki sá elsti innan HFR, 56 ára, en Magnús Bergsson jafnaldri minn er líka enn á fullu.“

Er ekki mikil slysahætta af þessu?

„Jú, óneitanlega fylgir þessu slysahætta. Fólk þarf að fara varlega og það er mikið um að við þurfum að meta hvort okkur sé óhætt að hjóla niður ákveðnar brekkur. Allir sem hjóla eru í mikilli slysahættu, þannig að þetta er pínu áhættusport. Ég hef brotið viðbein, er með samfall á hryggjalið og fleira. Hef skemmt mig á nokkrum stöðum,“ segir hann og skellir upp úr.

Þarf maður að vera í góðu formi til að geta flakkað um á fjallahjóli?

„Nei, það er ekki nauðsynlegt. Líkaminn þarf að vera þokkalega sterkur en fólk í almennri þjálfun getur vel nýtt sér fjallahjól og farið á fjöll. Maður þarf ekkert keppnisform í þetta eins og með göngur til dæmis. Fólk fer bara á sínum hraða.“

Fýkur (ekki) yfir hæðir: Albert virðir landslagið í Utah fyrir sér.

Hvert er fyrirheitna land fjallahjólagarpa?

„Fyrir mér er það Utah í Bandaríkjunum. Moab svæðið er þakið rauðum sandsteinum og eiðimörk og í kring um þetta svæði og meðfram Colorado ánni er dásamlegt að hjóla á fjallahjóli.“

Koma erlendir ferðamenn hingað í fjallahjólaferðir?

„Já, það er alltaf að verða stærri og stærri faktor. Hjólaferðamennskan er alltaf að stækka og þó nokkuð mörg fyrirtæki sem sérhæfa sig í þessu. Hjólaleiðirnar okkar hafa fengið hæstu einkunir um allann heim og það er vel af þessu látið. Fólk kemur og gapir hreinlega þegar áttar sig á leiðinni yfir Fimmvörðuháls og Landmannalaugar. Og ekki má gleyma Hengilssvæðinu rétt hjá Reykjavík þar sem hægt er að skoða heitar og kaldar uppsprettur, heitan leir og aðra dýrð. Við notum það svæði mjög mikið þannnig að maður þarf ekkert endilega að fara langt.“

Standið þið fyrir einhverjum lengri ferðum í sumar?

„Þegar æfingum lýkur á vorin þá heldur fólk yfirleitt á vit ævintýranna og skipuleggur þau bara í litlum hópum á Facebook, enda ekki hentugt að hafa of marga saman. HFR hefur þó skipulagt eina ferð núna í vor þar sem við ætlum að fara hjá Skammadal, upp hjá Laxnesi, upp að Helgufossi, yfir að Tröllafossi og þaðan niður á Esju mela.“

Hvað þarf maður að gera til að byrja í sportinu?

„Fyrsta mál á dagskrá er bara að kaupa hjól og það þarf ekkert að vera dýrt. Þó það sé gaman að hjóla á dýru og flottu hjóli þá er það ekki nauðsynlegt. Hins vegar er nauðsynlegt að vera á fulldempuðu hjóli með 130 mm fjöðrun og breiðum dekkjum. Þá er maður kominn með þetta og getur byrjað. Venjulegur útivistarfatnaður er hentugur í þetta sport svo það þarf ekki auka útgjöld hvað það varðar heldur.“

Er hægt að stunda þetta allt árið?

„Já við gerum það. Setjum bara naglana undir þegar klakinn kemur og hjólum á svellbunkum í Öskjuhlíð.“

Stendur til að halda byrjendanámskeið í fjallahjólasportinu á næstunnni?

„Já, í haust mæta hingað mjög góðir kennarar frá Bandaríkjunum. Félagsmenn í HFR og almenningur geta skráð sig en félagsmenn ganga fyrir. Námskeiðið fer fram í Öskjuhlíð og tekur um það bil einn dag og hentar bæði konum, körlum og fólki á öllum aldri.“

Hvað græðir maður á því?

„Helsti gróðinn er sá að maður verður mun öruggari á hjóli, lærir að beita því, taka léttar hindranir auðveldlega og nota líkamann rétt. Eftir svona námskeið hafa allir, ekki bara fjallahjólafólk, betri tækni og verða þar með miklu öruggari í umferðinni, hvort sem hún er á stígum eða götum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“