Þrátt fyrir að listskautar falli undir vetraríþrótt er ekki svo að skautar séu ekki stundaðir árið um kring, en í sumar er boðið upp á sumarskautaskóla fyrir krakka á aldrinum 4–11 ára. Sumarskautaskólinn er leikjanámskeið og er áhersla á að ná grunnfærni á ísnum á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt, unnið er í gegnum leik bæði á svellinu og utan þess.
Í Skautahöllinni í Laugardal æfa að jafnaði um 280 krakkar á öllum aldri listhlaup á skautum. Yngsti iðkandinn í vetur var ekki nema 3 ára og sá elsti á miðjum aldri, það er nefnilega aldrei of seint að byrja að skauta.
Hjá Skautafélgaginu eru skautarar sem eru rétt að stíga sín fyrstu spor á ísnum og iðkendur sem eru komnir svo langt að vera að keppa með landsliðinu og þar með fyrir Íslands hönd á alþjóðlegum skautamótum, en iðkendum er skipt í hópa eftir getu og má finna hóp við hæfi fyrir alla.
Afreksskautarar félagsins æfa um það bil 10 sinnum í viku á ísnum, en auk þess mæta skautarar líka í þrekæfingar og dans svo eitthvað sé nefnt. Suma daga er bæði æft fyrir og eftir skóla. Þeir iðkendur eiga það allir sameiginlegt að vera mjög metnaðarfullir, stefna langt í sinni íþrótt og elska að skauta. Skautararnir okkar hafa náð mjög góðum árangri á erlendum mótum og stefnan er sett á að innan fárra ára eigi Ísland fulltrúa á heimsmeistaramóti unglinga.
Gleðin ríkir svo sannarlega í sumarsólinni og kuldanum í Skautahöllinni í Laugardal!
Nánari upplýsingar á http://fristund.is/namskeid/skautanamskeid
Skráning fer fram á skautafelag.felog.is