Hjá Klifinu Skapandi setri er boðið upp á námskeið allt árið um kring og er fókusinn lagður á börn og ungmenni og boðið upp á meðal annars myndlist, tónlist, dans og ballett.
„Í sumar bjóðum við upp á námskeið fyrir börnin sem heitir Skapandi sumarfjör og er það í boði í samtals átta vikur,“ segir Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir, verkefnastjóri hjá Klifinu.
Námskeiðið er fyrir börn á aldrinum 6-11 ára og er hvert námskeið í viku, ýmist fyrir eða eftir hádegi. Boðið er upp á að taka fleiri en eina viku og einnig er boðið upp á gæslu í hádeginu gegn vægu verði. „Það eru nú þegar nokkur börn skráð hjá okkur þrjár vikur í röð í sumar, en aldrei er boðið upp á sömu viðfangsefni á milli vikna,“ segir Guðrún.
Námskeiðið er í boði fyrir börn alls staðar af höfuðborgarsvæðinu, enda námskeiðsstaðurinn, Höllin í Hofsstaðaskóla í Garðabæ, í alfaraleið milli Kópavogs og Garðabæjar. Kennt er inni og þegar gott er veður þá er lögð áhersla á að vera úti.
Sumarnámskeiðin hafa verið í boði hjá Klifi undanfarin sumur og voru þau með sama sniði í fyrra með sama verkefnastjóra, Rebekku Sif Stefánsdóttur.
Rebekka Sif Stefánsdóttir
„Við vorum mjög ánægð með hvernig til tókst í fyrra og ákváðum að endurtaka námskeiðið með sama fyrirkomulagi í ár,“ segir Guðrún, en Rebekka Sif sér um námskeiðin ásamt Rebekku Jenný Reynisdóttur og nemendum í vinnuskólanum.
Klifið er kjörinn staður fyrir börn sem vilja ekki stunda hefðbundnar hópíþróttir, heldur kynnast skapandi greinum.
Í sumar er einnig boðið upp á önnur námskeið, sem dæmi gítar og núvitund, margmiðlun og stuttmyndagerð og píanó.
Skráning fer fram á heimasíðu Klifsins, klifid.is