Þeir gerast í smábæ í Noregi árið 790 og fjalla um nokkra víkinga sem eru í algjöru rugli, svo ekki sé meira sagt.
Þættirnir eru einhverskonar flippuð samsuða úr Fóstbræðrum, Game of Thrones, Vikings og Monthy Python.
Sögusviðið er þetta hefðbundna víkingaþorp þar sem ætthöfðinginn Orm á að ráða rikjum en sökum meðvirkni gengur það ekkert allt of vel hjá honum.
Orm er að öllum líkindum skápahommi og allt, allt of þókunargjarn sem gerir það að verkum að enginn ber virðingu fyrir honum – og það er alveg pínu fyndið.
Svo er það auðvitað hún Freyja, eiginkona Orms, sem gerir ekki annað en að halda framhjá honum enda karlmennskan í Ormi ekki beinlínis í takt við væntingar eiginkonunnar sem er svona 100 sinnum karlmannlegri en hann og sirka 30 sentimetrum hærri.
Bróðir Orms, Olav, er heldur meiri nagli, en þó ekki meiri en svo að hann fær móral eftir að hafa kýlt pirrandi þræl beint á nefið og segir við félaga sinn: „Þetta er ekki beint ég, þessi óttastjórnun.“
Pirrandi þrællinn er svo aftur algjör snillingur í þessum þáttum. Ítalskur spjátrungur, hrikalega meðvitaður um öll réttindi sín og sítuðandi yfir lélegum aðbúnaði og slæmri meðferð.
Í stuttu máli gengur grínið að mörgu leyti út á að birta hegðun og samskipti nútímafólks með öll sín fáránlegu fyrsta-heims-vandamál í víkinga umgjörð sem er jú karlmennska á karlmennsku ofan.
Útkoman er ótrúlega frískandi og framúrstefnulegt grín sem hefur fallið mjög vel í kramið hjá gagnrýnendum, þá aðallega breskum og norrænum en þættirnir eru jú norskir, skrifaðir af þeim félögum Jon Iver Helgaker og Jonas Torgersen.
Þeir voru teknir upp bæði á norsku og ensku en þykki norski hreimurinn í ensku útgáfunni gerir þetta eiginlega bara enn fyndnara.
Hver þáttur er 30 mínútna langur sem er fyrirtak fyrir ykkur sem fílið að horfa á einn fyrir svefninn.