Leikarinn og ljúflingurinn Guðjón Davíð Karlsson, eða Gói eins og við þekkjum hann best, hefur svo sannarlega slegið í gegn á leiksviðinu og í hláturstaugum landsmanna. Sýningin Slá í gegn, sem byggð er á lögum Stuðmanna, er nú sýnd fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu, en Gói skrifar handrit og leikstýrir. Í önnum og afmælisundirbúningi gaf Gói sér tíma til að sýna lesendum DV á sér hina hliðina.
Hvað halda margir um þig sem er alls ekki satt?
Að ég sé voða góður.
Ef þú mættir velja eitt lag sem yrði alltaf spilað um leið og þú gengir inn í herbergi, allt þitt líf, hvaða lag myndirðu velja?
Lagið Hveitibjörn með Stuðmönnum er klárlega lagið sem ég myndi vilja hafa. Það er sjúklega töff lag. Það er eitt af lögunum í söngleiknum Slá í gegn sem verið er að sýna í Þjóðleikhúsinu.
Ef þú þyrftir að dansa til að bjarga lífinu, undir hvaða lagi myndirðu vilja dansa?
Energí og trú með Stuðmönnum. Það er svo frábært lag. Það er einmitt í söngleiknum Slá í gegn sem er verið að sýna í Þjóðleikhúsinu núna og geggjaður dans við það lag.
Hvað ætti ævisagan þín að heita?
Fyrsta bindið ætti að heita Draumar geta ræst.
Hvaða bíómynd hefurðu séð oftast?
Three Amigos, Stella í orlofi og Með allt á hreinu.
Yfir hverju getur þú alltaf hlegið?
Slá í gegn sem er sýnt núna í Þjóðleikhúsinu. Sirkussöngleikur með lögum Stuðmanna. Sjúklega fyndið og skemmtilegt!
Borðarðu mat sem er kominn fram yfir síðasta söludag?
Já, ef augun og nefið segja að það sé í lagi.
Heilsarðu frægum Íslendingum úti á götu, þótt þú þekkir þá ekki persónulega?
Að sjálfsögðu. Ég heilsa nú yfirleitt öllum, bara. En frægir þekkjast það er bara svoleiðis. Ég nikka svona og segi: „Sæll kollegi.“
Hver er fyndnasta „pick-up“ línan sem þú hefur heyrt?
„Þú mátt alveg borða kókó puffs heima hjá mér í fyrramálið.“
Um hvað varstu alveg viss þangað til þú komst að því að þú hafðir rangt fyrir þér?
Að Kúst og fæjó færi í Eurovision! Ég var alveg pottþéttur á því!
Hvaða kvikmynd þætti þér helst við hæfi að breyta í söngleik?
Three Amigos.
Hvað er framundan um helgina?
Ég er að fara að leika í Slá í gegn í Þjóðleikhúsinu, sirkussöngleik með lögum Stuðmanna. Ég ætla að stökkva inn í sýninguna fyrir Hilmi Snæ og Baldur Trausta sem skipta með sér hlutverki Frímanns flugkappa. Þeir eru báðir uppteknir í öðru í leikhúsinu enda Þjóðleikhúsið gjörsamlega að blómstra þessa dagana. Svo á laugardaginn ætla ég að vera í leikhúsinu og hjálpa til við prufur sem eru í gangi fyrir Ronju ræningjadóttur sem verður á sviðinu næsta vetur. Á sunnudaginn á ég svo AFMÆLI og ætla að eyða deginum með konunni minni og börnunum okkar. Gera eitthvað ofboðslega skemmtilegt saman.
Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi?
Gleðja og gleðjast.
Hvaða hljóð fer mest í taugarnar á þér?
Klór í krítartöflu.
Hvaða lag hefðir þú viljað hafa samið?
Fljúgðu með Stuðmönnum sem er einmitt eitt af lögunum í Slá í gegn sem verið er að sýna í Þjóðleikhúsinu.
Hvað myndirðu nefna landið okkar ef við þyrftum að breyta?
Stuðland, við íbúarnir værum Stuðmenn.
Hvaða teiknimyndapersónu myndirðu vilja eiga sem vin?
Guffa.
Ef þú kæmir einn daginn heim úr vinnunni og þar væri enginn nema Geir Ólafsson í sturtu, myndirðu hringja í lögregluna?
Mér myndi örugglega bregða. Svo myndi ég örugglega segja:„Geir? Hvað ert þú að gera hér?“ Hann myndi þá væntanlega svara. Svo myndi ég segja: „Á ég að hringja á lögregluna?“ Ég myndi svo væntanlega meta næstu skref eftir það … sjá hverju hann myndi svara og svona. Af því kannski var þetta bara algjör misskilningur eða bara eitthvert grín. Þú veist. Maður veit aldrei með Geir. Hann er lúmskur.
Ef þú þyrftir að eyða 100 þúsund kalli á klukkutíma, í hvaða verslun færirðu?
66°Norður! Alltaf! Engin spurning!
Hvað verður orðið hallærislegt eftir 5 ár?
Að veipa!