fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fókus

Heilræði Elizu Reid: „Það hefur hjálpað mér mikið að trúa því að ég væri fær“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 25. apríl 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eliza Reid, forsetafrú ávarpaði fermingarbörn við borgaralega fermingu hjá Siðmennt sunnudaginn 22. apríl 2018. Í ræðunni segir hún frá eigin reynslu um hvernig hún átti erfitt með að aðlagast í nýjum skóla sem barn og miðlar hollum heilráðum til fermingarbarnanna, heilráðum sem við getum öll tamið okkur.

Komið þið sæl, öll, og til hamingju með þann áfanga sem þið fagnið í dag.

Fermingaraldurinn er spennandi tími, tími tækifæra. Þó getur enginn ætlast til að þið vitið nú þegar hvað þið viljið gera, eða hvað þið viljið verða. En þið eruð að safna í eins konar verkfærakistu til framtíðar, safna tækjum sem hjálpa ykkur að mæta því sem lífið kann að kasta í fangið á ykkur í framtíðinni.

En þið eruð ekki ein að þessu. Við skulum gefa okkur að verkfærakistan sé það stór að í hana sé hægt að troða fólki; að í hana sé hægt að setja manneskjur – einstaklinga sem búa í sameiningu til stuðningsnetið ykkar. Ég veit að við erum farin að rugla öllu saman hér – verkfærakistu, neti og fólki – en hér er það sem ég á við: Allt í kringum ykkur má finna fólk sem vill hjálpa ykkur og styrkja.

Ég nefni fyrst fjölskyldu ykkar, ættingjana sem eru margir með ykkur hér í dag og eru svo stoltir af ykkur, glaðir fyrir ykkar hönd.

Svo eru það vinirnir, ekki bara rafrænir „vinir“ eins og á samfélagsmiðlum, heldur raunverulegt fólk, krakkar sem þið þekkið, krakkar með kosti og galla, alveg eins og þið, en krakkar sem þið þekkið og treystið. Þið þurfið að rækta sambandið við þessa sönnu vini; þeir vilja styðja ykkur og hvetja, vera vinir í raun.

Og svo nefni ég líka góðar fyrirmyndir. Það getur verið kennari eða þjálfari sem þið þekkið, eða einhver þjóðþekkt manneskja, leikari eða söngkona eða eitthvað slíkt, einhver sem sýnir gott fordæmi, einhver sem lætur gott af sér leiða.

En vitiði hvað? Það sem skiptir mestu er það sem þið látið sjálf í verkfærakistu lífsins. Þið getið notið leiðsagnar annarra, lært af öðrum. Ættingjar og vinir geta og vilja hjálpa ykkur en þið þurfið líka að treysta ykkur sjálfum, finna sjálf hvaða tæki eða verkfæri þið þurfið að grípa til út af þessum vanda, hvaða verkfæri ykkur vantar til að glíma við einhvern annan vanda.

Þegar ég var aðeins yngri en þið eruð núna flutti ég með fjölskyldunni og þurfti að byrja í nýjum skóla. Í þeim gamla átti ég marga vini, mér hafði gengið vel að læra og var í alls konar félagsstarfi. Ég veit ekki hvers vegna, en einhvern veginn aðlagaðist ég illa í þessum nýja skóla, small ekki saman við krakkana sem voru þar fyrir. Ég hlustaði ekki á réttu tónlistina, var ekki í réttri tegund af reiðhjólastuttbuxum (sem voru í tísku þá), og einhvern veginn tókst mér ekki að krulla hárið eins og hinar stelpurnar. Ég var í stuttu máli ekki „kúl“ og mér fannst eins og nánast allir í bekknum væru að reyna að segja mér það. Og að sjálfsögðu var ég of hrædd, ja eða skammaðist mín of mikið, til að segja foreldrum mínum frá þessu þannig að ég reyndi bara að telja dagana (sem voru nokkur hundruð!) þangað til ég kæmist í menntaskóla.

Ég man svo vel að í nýja skólanum þorði ég ekki einu sinni að flytja ræður fyrir framan bekkinn, eins og krakkar þurfa að gera í Kanada – ég sem hafði gert það svo glimrandi vel í gamla skólanum mínum, keppti meira að segja fyrir bekkinn minn.

En til að gera langa sögu stutta: Ég var svo hrædd við að flytja þessa blessuðu ræðu að ég þorði ekki í skólann og varð á endanum að segja mömmu og pabba frá þessu öllu saman. Þá töluðu þau strax við kennarann (sem gaf í skyn, eins og mamma hafði búist við, að krakkarnir, sem voru að stríða mér, væru bara að reyna að ná athygli og fá útrás með því að níðast á öðrum). Kennarinn leyfði mér að flytja ræðuna fyrir hana eina og ég lærði af þessari reynslu: Það er gott að eiga góða að, maður á að tala um vandamálin, fólk á að sýna tillitssemi. Þessi tæki fóru í verkfærakistuna mína góðu.

Margir foreldrar nota lýsingarorð eins og „klár“, „skemmtilegur“, „sterk“, „hæfileikaríkur“ eða „dugleg“ um dætur sínar og syni. Mamma mín sagði líka eitthvað í þessum dúr um mig en lýsingarorðið sem festist mér helst í minni var „capable“, „fær“ – „þú ert svo fær“, sagði mamma. Þetta er kannski ekkert sérstaklega spennandi hrósyrði en mér þótti vænt um það.

Mér tókst ekki að safna kjarki til að tala fyrir framan bekkinn en ég hélt þetta allt saman út. Ég reyndi að halda í þá trú að ég væri, eins og mamma sagði, fær, að ég gæti náð settu marki. Og ég lærði að vera sátt við sjálfa mig, sætta mig bara við þá staðreynd að hárgreiðsla mín yrði aldrei alveg fullkomin. Og að ég mundi aldrei hafa gaman af að hlusta á hljómsveitina New Kids on the Block. Og það var bara allt í lagi (kannski bara í mjög góðu lagi).

Ef ég hraðspóla yfir þrjá áratugi get ég sagt að það hafi hjálpað mér gríðarlega mikið að trúa því að ég væri fær, vera sátt við að vera eins og ég er, hvað sem líður göllum mínum og takmörkunum. Þetta sjálfstraust hefur hjálpað mér verulega eftir að ég og maðurinn minn stigum inn á nýjan vettvang og erum núna reglulega í sviðsljósinu.

Og þetta er heilræði sem mig langar að gefa ykkur í dag: Ræktið stuðningsnet ykkar. Styðjið hvert annað. Reynið líka að bæta alltaf í verkfærakistuna – hún stækkar bara sjálfkrafa. Og munið að þið eruð fær. Þið getið svo margt. Þið eruð „með’etta“.

Gangi ykkur öllum allt í haginn. Við hlökkum til að fylgjast með ykkur vaxa og dafna. Takk fyrir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024
Fókus
Fyrir 5 dögum

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife