„Þetta verður stórskemmtileg kvöldstund með frábæru fólki,“ segir Arnar Dór. „Við erum þrír aðalsöngvarar. Ásamt sjálfum mér er það hjartaknúsarinn Arnar Jóns og enginn annar en Páll Rósinkranz. Svo erum við með níu manna hljómsveit, sem er skipuð af Óskari Einarssyni, Ara Braga Kárasyni, Samúel Jóni Samúels og öðrum snillingum.“
„Ég hélt tvenna tónleika á síðasta ári og gaf út tvö frumsamin lög. Að setja upp tónleika er eitt það skemmtilegasta sem ég geri, þannig að þegar ég fór að hugsa um næsta verkefni þá kom lítið annað til greina en Búbblarinn,“ segir Arnar Dór og hlær. „Ég hef verið mikill aðdaándi Michael Bublé síðan hann kom fyrst fram á sjónarsviðið og elska að syngja lögin sem hann gefur út.“
Þeir félagarnir, Páll Elfar Pálsson bassaleikari, settu saman flott grunnband og byrjuðu að æfa fyrir jól. „Við viljum hafa þetta virkilega vel gert og setjum mikinn metnað í þetta.“
Fann eiginkonuna í IDOL stjörnuleit
Arnar Dór og eiginkona hans, Alma Rut söngkona, kynntust og byrjuðu saman árið 2003 í fyrstu Idol stjörnuleitinni. Eru þau núna gift, eiga tvö börn og búa í Hafnarfirði.
„Það er svo dýrmætt fyrir okkur að eiga sameiginlegt áhugamál og ástríðu. Við vinnum mikið saman og getum fengið ráð hvort hjá öðru varðandi tónlistina og sönginn. Það er mikil tónlist í gangi hjá okkur alla daga og við erum alltaf syngjandi.“
Arnar Dór gaf út tvö lög á síðasta ári ásamt þeim Valgeiri Magnússyni (Valla sport) og Hrafnkeli Pálmarssyni (gítarleikara). „Valli hafði samband við mig eftir Voice keppnina og bað mig að syngja lag sem hann og Keli höfðu samið saman fyrir nokkrum árum, en þeir höfðu verið að bíða eftir rétta söngvaranum. Ég er svo þakklátur fyrir að fá að vinna með svona góðu fólki.“
Arnar Dór segist hafa lært mikið á því að taka þátt í Voice. „Maður þjálfast í svo mörgu, en það sem ég lærði helst var að vera óhræddur að vera ég sjálfur í viðtölum. Ég er svolítið fyrirferðamikill karakter og hávær, þannig að áður var ég alltaf að rembast við að dempa mig einhvernveginn niður og verða formlegri. En þá fékk fólk ekki að kynnast mér raunverulega. Það er svo mikill léttir að átta sig á því að það er alltaf best að láta sitt rétta ljós skína.“
Michael Bublé hefur verið mikil fyrirmynd hjá Arnari varðandi sviðsframkomu, þannig að við eigum von á líflegum og glaðlegum tónleikum næstkomandi föstudag. „Þetta verður frábær endir á vinnuvikunni hjá tónleikagestum. Góð tónlist, rólegt og rómantískt, í bland við stuð og skemmtun.“
Allar frekari upplýsingar um tónleikana má finna hér.