Sumardagurinn fyrsti er kominn á dagatalið og fjöldi Facebooknotenda setti sumarkveðju í stöðufærslu í tilefni dagsins. Einn þeirra er Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, sem skipar 3. sæti á lista Miðflokksins í borgarstjórnarkosningunum .
Á myndinni situr hann við forláta kirkjuorgel sem er yfir 100 ára gamalt og í eigu Sveins. „Ég spila oft á það, enda hluti af slökun eftir amstur dagsins,“ segir Sveinn í samtali við DV. „Orgelið var gjöf fyrir nokkrum árum og virkar eins og nýtt sé.“
Aðspurður um sögu orgelsins gaf Sveinn góðfúslega leyfi til að birta færslu sem hann birti þegar hann fékk orgelið að gjöf.
ORGELIÐ Á LANGANESI
Frú Guðrún Ólafsdóttir frá Efra Lóni á Langanesi var fædd árið 1919. Þegar Guðrún er 20 ára kaupir hún forláta orgel sem er fótstígið og hljómfallegt mjög. Alla sína tíð fylgdi það Guðrúnu og jafnvel frá Langanesi var orgelið flutt með henni til Reykjavíkur og þótti mikil raun, enda þungt og mikið. Orgelið er mikil mubla og lék Guðrún á það oft og einkum á mannamótum fjölskyldunnar í Skálagerði í Reykjavík þar sem Guðrún bjó til dauðadags.
Það var svo um einu ári eftir andlát Guðrúnar að ég var staddur hjá vini mínum og ömmubarni Guðrúnar, Friðrik Elí, þar sem við vorum að mála íbúðina að Skálagerði en Elí hafði fest kaup á íbúð ömmu sinnar, að ég sá orgelið, settist við það og spilaði sálma að íslenskum sveitasið. Fannst Elí mínum mikið til koma enda vanur því að heyra ömmu sína leika á orgelið og syngja með þegar hún var á lífi. Enginn hafði spilað á orgelið eftir tíma Guðrúnar fyrr en ég settist við það og gleymdi mér við fagra hljóma frá þessum einstaklega fallega og sögumikla grip. Málningarvinna okkar Elí sóttist seint því báðir vorum við hugfangnir af orgelinu – ég að spila á það, og Elí að hlusta.Nú í dag kom fjölskylda Friðriks Elí mér heldur betur á óvart og er orgelið nú í minni eigu og algjör eining með að Svenni skuli fá að njóta þess að spila á orgelið hennar ömmu Guðrúnar í Skálagerði.
Það er mér mikil virðing að fá að njóta þess að halda minningu Guðrúnar á lofti með því að spila á orgel hennar, orgelið sem sameinaði fjölskyldu hennar á slóð minninganna.
Vil ég þakka þér Elí og fjölskyldu þinni fyrir traustið og virðinguna!
Guð blessi minningu Guðrúnar Ólafsdóttur frá Efra Lóni á Langanesi.