Bylgja Guðjónsdóttir hafði ekki hreyft sig að ráði í tæp þrjú ár vegna taugaáfalls sem hún fékk. Í kjölfar taugaáfallsins varð hún mikið andlega veik og tók að þyngjast verulega. Það sem bætti ekki úr skák fyrir Bylgju var að vegna greiningar hennar á kvíða og þunglyndi á hún það til að fá svokallað vægt „body dysmorphia“ sem er brengluð sýn manneskju á líkama sinn eða hluta af honum.
„Ég hafði enga stjórn á lífi mínu á þessum tíma og vegna hreyfingarleysis hrönnuðust á mig kílóin. Ég hef aldrei nokkurn tímann verið jafn þung og ég var á þessum tíma eða allt þar til ég tók þessa U-beygju.“
Í dag stundar Bylgja crossfit þrisvar sinnum í viku, fer í ræktina þrisvar sinnum í viku og hjólar 10–20 kílómetra þrisvar í viku.
„Það ótrúlega við þetta allt saman er að ég byrjaði allt í einu að funkera, andleg heilsa mín hefur ekki verið jafn stöðug í að verða tvö ár og ég trúi varla muninum á mér. Ekki misskilja mig, ég á mína slæmu daga en ég er allt í einu byrjuð að höndla þá mun betur.“