fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

Dagur í lífi Ingibjargar Grétu Gísladóttur

– súkkulaðifíkn, sjóðheit böð, Brúin og morgunjóga með Guðna Gunnars

Margrét Gústavsdóttir
Föstudaginn 2. mars 2018 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mynd: Einar Ragnar

Ingibjörg Gréta Gísladóttir fæddist í Reykjavík þann 31. október árið 1966. Hún er dóttir þeirra Agnesar Pálsdóttur hágreiðslukonu og Gísla heitins Þorvaldssonar lagerstjóra. Ingibjörg á fjögur systkini. Móðurmegin þau Jónu Kristínu f. 1971, Sjöfn f. 1985 og Guðmund f. 1979 en föðurmegin systurina Margréti f. 1963. Ingibjörg Gréta ólst upp hjá móðurömmu sinni og afa í Efstasundi í Reykjavík og lauk Verslunarskólaprófi árið 1986. Þaðan fór hún í Leiklistarskóla Íslands þar sem hún útskrifaðist frá árið 1991 og árið 2006 útskrifaðist hún með meistarapróf í nýsköpun og frumkvöðlafræðum frá Háskólanum á Bifröst. Síðasta áratuginn hefur hún meðal annars sérhæft sig í íslenskri hönnun, markaðssetningu hennar og viðburðastjórnun en Ingibjörg er framkvæmdastjóri sýningarinnar Verk og vit sem verður opnuð þann 8. mars í Laugardalshöllinni. Hún býr í Bústaðahverfinu ásamt tveimur börnum sínum, þeim Maríó, 21 árs, og Jóhönnu Ölbu, 18 ára.

05.45

Þrisvar í viku vakna ég klukkan korter í sex og er komin í robe yoga-tíma hálftíma síðar hjá Guðna Gunnarssyni í Robe Yoga setrinu á Garðatorgi. Áður en ég fer í tímann fæ ég mér vatnsglas og sérstakan ólífudrykk en morgundrykkinn fæ ég mér eftir að ég er búin í robe yoga.

08.00

Ég kem heim úr jóga fyrir klukkan átta og þá er það morgundrykkurinn. Sérstakt bulletproof-te sem inniheldur NCT-olíu, íslenskt smjör og smá kakó. Eftir robe yoga og þennan drykk þá flýg ég hátt enda dásamleg byrjun á deginum.

09.00

Skrifstofan mín er á Laugavegi 178 en þar er ég í góðu yfirlæti ásamt fjölda annarra skemmtilegra einyrkja og fyrirtækja sem nota saman vinnuaðstöðu í þessu ágæta húsi sem stendur við hlið gamla Sjónvarpshússins. Undanfarið höfum við verið á þessum lokafasa Verk og vit-sýningarinnar enda stutt í að allt smelli inn í tannhjólið og það byrji að rúlla. Við erum búin að funda með sýnendum, fara yfir sýninguna, afhenda starfsmannapassa og svo framvegis svo að allt virki smurt frá opnunardegi. Nú er það staðfest að Þórdís Kolbrún ráðherra ætlar að opna sýninguna en borgarstjóri og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins munu flytja ávörp.

Hvað er besta ráð sem þér hefur verið gefið?

Guðni Gunnarsson í Robe Yoga setrinu gaf mér þetta ráð og það er að hlusta á innsæið enda bregst það aldrei. Það virkar hjá öllum.

Hvaða ráð vilt þú gefa öðrum?

Ekki reyna að sannfæra aðra um þínar skoðanir vegna þess að það hafa allir sína eigin sannfæringu, – sem er rétt fyrir þeim.

Hvað vildir þú að þú hefðir vitað fyrr?

Hversu öflugur hugurinn er. Allt sem maður veitir athygli vex og dafnar.

12.00

Í hádeginu fæ ég mér oft afganga frá deginum áður. Ef ekki þá skrepp ég í Krónuna og næ mér í eitthvað að borða þar. Ég fer ekki oft á veitingastaði í hádeginu en það kemur þó fyrir. Ég legg mikið upp úr því að borða hollan mat og mér finnst gott að vita alveg hvaða mat ég er að borða. Svo er ég algjör súkkulaðifíkill, held mest upp á 75 prósent dökkt súkkulaði og það fæ ég mér oft seinnipart dags.

13.00

Oftast erum við samstarfskonurnar, Elsa Giljan, sýningarstjóri Verk og vit, á mjög þéttum fundum eftir hádegi. Við ákveðum næstu skref enda þurfum við að vera alveg í takt og vinna mjög náið saman svo að allt gangi upp. Við pössum að vita alltaf stöðuna hjá hinni og heyrumst stundum oft á dag og fram á kvöld til að ekkert klikki.

Verk og vit

Verk og vit

Á stórsýningunni Verk og vit 2018 bjóða um 110 sýnendur, framleiðendur og innflytjendur upp á framsækna þróun og nýjungar í byggingariðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð.

Opnunartími Verks og vits 2018Fimmtudaginn 8. mars kl. 17.00–21.00 (fagaðilar)Föstudaginn 9. mars kl. 11.00–19.00 (fagaðilar)Laugardaginn 10. mars kl. 11.00–17.00 (fagaðilar/almennir gestir)Sunnudaginn 11. mars kl. 12.00–17.00 (fagaðilar/almennir gestir)

Verð aðgöngumiðaFagaðilamiði: 2.500 kr. (gildir alla sýningardaga)Almennur miði: 1.500 kr. (gildir laugardag eða sunnudag)Eldri borgarar, öryrkjar, börn yngri en 12 ára og nemar fá frítt inn (laugardag/sunnudag)

Fjöldi viðburða er á dagskrá sýningarinnar og verða þeir kynntir þegar nær dregur.

17.00

Undanfarið hafa vinnudagarnir verið í lengra lagi. Í dagslok fer ég yfir tölvupóst dagsins og skoða verkefnalistann fyrir næsta dag en við leggjum mjög mikið upp úr góðu og samstilltu skipulagi. Svo leggjum við líka mjög mikla áherslu á að sýnendur séu vel upplýstir um gang mála enda umfangsmikið verkefni framundan. Hingað til hefur verið gríðarleg ánægja meðal sýnenda á Verk og vit en eftir síðustu sýningu sögðust 96 prósent þeirra hafa náð að uppfylla markmið sín með þátttökunni.

20.00

Þessa dagana hef ég yfirleitt komið heim eftir kvöldmatinn og þá útbý ég eitthvað að borða. Dóttir mín er í skiptinámi á Kanaríeyjum og sonurinn er kominn heim til kærustunnar svo ég þarf ekki að hugsa svo mikið um að elda fyrir aðra en sjálfa mig. Oft finnst mér gott að grípa eitthvað hjá Bændur í bænum á leiðinni heim en það eru mjög góðir lífrænir réttir sem er fljótlegt að útbúa.

21.00

Það er alltaf heilög stund hjá mér að fara í heitt bað með epsom-salti eða kókosolíu á hverju kvöldi. Ég kveiki á kertum, les í iPad eða horfi á sjónvarpsþætti. Undanfarna mánudaga hefur það ekki klikkað að ég er komin ofan í baðið klukkan 20.50 enda hef ég verið alveg háð því að fylgjast með Brúnni á RÚV.

22.30

Þegar best lætur þá er ég komin í háttinn milli tíu og ellefu. Ég les þá ýmist eða legg kapal í iPad-inum mínum. Kapallinn virkar mjög svæfandi og það bregst ekki að ég er yfirleitt byrjuð að geispa mjög fljótlega eftir það. Svo slekk ég ljósin um ellefu og fer að sofa, enda fer ég snemma á fætur næsta morgun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni