Skaði Þórðardóttir gaf nýlega út fyrstu kassettuna sína, Jammið. Það er FALK – Fuck Art Let’s Kill sem gefur út og er þetta jafnframt síðasta útgáfa þeirra á árinu 2018.
Skaði kom inn á sjónarsviðið með glimmeri og látum fyrir um fjórum árum þegar hún hóf að koma fram með Dragsúg á Gauknum. Hún var þá nýflutt heim eftir nokkurra ára nám í Interactive Media Design við Konunglegu listaakademíuna í Haag. Hún kom með höfuðið fullt af hressandi diskótónlist og gat ekki beðið eftir að komast á svið. Hún var snögg að koma sér upp samböndum og var ein af upphafskonum Dragsúgs – reglulegra Drag kvölda á Gauknum – sem hún hefur notað sem vettvang til að vinna í hljómi sínum og orkumikilli sviðsframkomu sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.
Tónlistinni sjálfri má lýsa sem alternatívri – og stundum funkskotinni – NuDisco tónlist, stútfullri af glimmeri og TransDívu attitjúdi.
Plötunni er hægt að streyma á öllum helstu streymiþjónustum sem internetið býður upp á: Spotify, itunes/Apple music, Google play og svo framvegis. Hún er einnig á heimasíðu FALK, þar sem einnig er hægt að panta kassetuna.
Lagalisti: 1.Skaði Manifesto 2. Jamma 3. Romance in the Chillroom 4. The Vacuum of the Heart 5. Darkest Corner 6. Strip 7. The Heeling 8. Ástarseiður
FALK hefur verið hörkudugleg í ár með útgáfum á kassettum frá astvaldi , Erzh og Crowhurst en einnig vínyl plötum frá AAIIEENN , Asmus Odsat og Jónbjörn en sú síðastnefnda var á dögunum tilnefnd til verðlauna hjá Kraum.
FALK hélt líka nokkra tónleika, voru með aukasvið á Sónar Reykjavík 2018 þar sem FALK flutti inn VARG frá Svíþjóð og Ziúr frá Berlin auk þess besta sem gerist í raftónlist á Íslandi.
Í september flutti FALK inn Power Electronics/noise bandið Yeah You! við gríðarmikinn fögnuð á Gauknum.
Næsta ár verður ekki minna að gera, FALK er þegar búið að stilla upp tveimur vínyl útgáfum undir útgáfunni FALKDISKS sem og helling af frábærum kassettum með bæði íslenskum og erlendum listamönnum sem þeim finnst mikilvægt að heyrist á íslenskri grundu.