fbpx
Þriðjudagur 07.janúar 2025
Fókus

Ummæli ársins 2018

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 31. desember 2018 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið er senn á enda og ýmislegt eftirminnilegt fékk að flakka í fjölmiðlum. Sumt til að stuða. Sumt í hálfkæringi. Sumt átti aldrei að fréttast. Hér eru nokkur af eftirminnilegustu ummælum ársins 2018.

„Mér finnst lagið alveg ótrúlega leiðinlegt, því miður“ – Jóhannes Þór Skúlason

Framlag Íslands til Eurovision fór misvel í landann. Flestir voru sammála um að Ari Ólafsson flytti lagið af stakri snilld og ekkert væri upp á hann að klaga. Hins vegar voru margir á því að lagið væri einfaldlega grútleiðinlegt og ætti engan séns á að komast upp úr riðlinum. Það reyndist rétt.

„Ég ek á guðs vegum“ – Ásmundur Friðriksson

Akstursmál Ásmundar hafa verið mikið í umræðunni á árinu. Hefur mörgum fundist þingmaðurinn aka full langt á kostnað skattborgaranna og skrifað á sig bílferðir sem koma þingstörfunum ekki við. Ásmundur sagðist aldrei hafa lent í óhappi á ferðum sínum, æki eftir aðstæðum og væri laginn við það.

„Mér finnst þetta bera merki um takmarkalausan drullusokkshátt af spítalanum“ – Kári Stefánsson

Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar var ekki par sáttur við þær tafir sem urðu á uppsetningu jáeindaskannans sem fyrirtækið gaf Landspítalanum. Upprunalega átti skanninn að vera kominn í notkun í september árið 2016 en var ekki tekinn í notkun fyrr en í desember árið 2018.

„Ég kem fljótlega“ – Sindri Þór Stefánsson

Strokufanginn Sindri varð heimsfrægur þegar hann tók flug úr landi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Ekki leið á löngu þar til leitað var að honum um alla Evrópu og þá steig hann fram og gaf út yfirlýsingu um að hann kæmi fljótlega aftur heim. Skömmu síðar var hann handsamaður í Hollandi.

„Partýið er búið“ – Vigdís Hauksdóttir

Vigdís lýsti þessu yfir þegar hún boðaði innkomu sína í borgarmálin. Var hún, sem  oddviti Miðflokksins, kjörin borgarfulltrúi í vor. Vigdís er þekkt fyrir að líða ekkert bruðl með almannafé og hefur hún látið mikið fyrir sér fara í braggamálinu sem upp kom í sumar.

„Ég vil ekki vera húsþræll“ – Sanna Magdalena Mörtudóttir

Sanna, frambjóðandi Sósíalistaflokksins, vakti mikla athygli fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Þótti nálgun hennar hispurslaus og vitnaði hún til að mynda í Malcolm X máli sínu til stuðnings. Sanna fékk glimrandi kosningu og náði örugglega sæti í borgarstjórn.

„Ég trúi því að þú sért útvalinn af guði“ – Guðmundur Örn Ragnarsson

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, kom fram í viðtali á sjónvarpsstöðinni Omega sem átti ekki eftir að afla honum neins nema háðs. Sjónvarpspredikarinn hóf samstundis að ausa Eyþór lofi og lýsti því yfir að almættið hefði valið hann sem borgarstjóra. Þótti Eyþóri sjálfum þetta augljóslega vandræðalegt og reyndi að gera sem minnst úr þessu.

„Eftir flokkinn liggur ekkert“ – Össur Skarphéðinsson

Össur hefur þótt beittur á ritvellinum eftir að hann hætti formlega þátttöku í stjórnmálum. Þegar ljóst var að Björt framtíð myndi ekki bjóða fram krafta sína í sveitarstjórnarkosningunum í vor ritaði hann ófagra grafskrift flokksins. Lýsti hann þessari sögu sem hinni sorglegustu í síðari tíma stjórnmálum.

„Ókídókí bæjó“ – Garðar „Gæi“ Viðarsson

Þetta voru einu viðbrögð Snapchat-stjörnunnar Gæja eftir að eiginkona hans, Anna Björk Erlingsdóttir, var dæmd fyrir fjárdrátt, skilasvik og fleira. Gæi er ein vinsælasta samfélagsmiðlastjarna landsins og kallar sig Iceredneck á Snapchat. Hann sjálfur var ekki kærður vegna málsins.

„Einhverra hluta vegna datt mér í hug að eitt það sniðugasta sem þú getur gert sem barnaníðingur á Íslandi er líklega að ganga í Sjálfstæðisflokkinn“ – Bragi Páll Sigurðarson

Bragi Páll gerði allt vitlaust með pistli sínum á Stundinni um landsfund Sjálfstæðisflokksins í vor. Þar dansaði hann hárfínt á línu háðs, alvöru og ósvífni. Lýsti Páll Magnússon þingmaður Stundinni sem „endaþarmi íslenskrar blaðamennsku“ í kjölfarið.

„Konur reyna alltaf að troða sér þar sem karlmenn vinna“ – Kristinn Sigurjónsson

Lektor við Háskólann í Reykjavík olli miklum usla í haust eftir miður skemmtileg ummæli um konur á vinnustöðum. Var honum í kjölfarið vikið frá störfum.

 

Klaustursmálið

Umræður sex þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á Klaustri bar eru þess eðlis að mörg ummæli úr þeim urðu vel þekkt. Verður því að hafa sérstakan kafla um þau hér í umfjöllun um ummæli ársins.

„Það hefur engin gugga teymt mig meira á asnaeyrunum en hún, sem ég hef ekki fengið að ríða“ – Bergþór Ólason um Lilju Dögg Alfreðsdóttur.

„Henni er ekki treystandi og hún spilar á fólk eins og kvenfólk kann“ – Sigmundur Davíð Gunnlaugsson um Lilju Dögg Alfreðsdóttur.

„Þetta snýst allt um og ég held við séum öll í þessum slag til að láta gott af okkur leiða og eru miklu meiri líkur til að það gerist undir merkjum Miðflokksins heldur en Flokks fólksins, af því að þið eruð með þessa húrrandi klikkuðu kuntu sem formann Flokks fólksins sem þið ráðið ekki við“ – Bergþór Ólason um Ingu Sæland.

„Hún getur grenjað um þetta en getur ekki stjórnað“ – Karl Gauti Hjaltason um Ingu Sæland.

„Hún er ung, en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var fyrir fjórum árum síðan“ – Bergþór Ólason um Írisi Róbertsdóttur.

„Geir slapp í gegnum þetta eins og smjör á smokknum hjá honum þarna Friðriki Ómari“ – Gunnar Bragi Sveinsson um skipun Geirs H. Haarde í sendiherrastöðu.

„Oddný er ekkert ágæt, hún er algjör apaköttur“ – Gunnar Bragi Sveinsson um Oddnýju Harðardóttur.

„Freyju eyju?… [selahljóð!]“ – Anna Kolbrún Árnadóttir og ónefndur Miðflokksmaður.

„Ef þú tekur þrjá bókstafi, u-n-t, og bætir við einum staf fyrir framan. Hvaða staf setur þú þar?“ – Ólafur Ísleifsson um konur.

„Welcome to politics, Bergþór Ólason“ – Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

„Mér blöskraði það sem ég heyrði“ – Bára Halldórsdóttir eftir að hún tók upp samræðurnar.

„Þeir eru ofbeldismenn og ég segi: Þetta er alveg skýrt í mínum huga, ofbeldismenn hafa ekki dagskrárvald í íslensku samfélagi“ – Lilja Dögg Alfreðsdóttir í Kastljósi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Áfall fyrir Arsenal
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar Þórðarson er áttræður í dag – „Takk fyrir alla dásamlegu músíkina“

Gunnar Þórðarson er áttræður í dag – „Takk fyrir alla dásamlegu músíkina“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þetta gerist ef þú sleppir áfengi í janúar

Þetta gerist ef þú sleppir áfengi í janúar