fbpx
Þriðjudagur 07.janúar 2025
Fókus

Þeir kvöddu á árinu

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 30. desember 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tíminn gefur og tíminn tekur. Á árinu hefur tíminn hrifið með sér þjóðþekkta Íslendinga sem sárt verður saknað. Hér verður nokkurra valinkunnra einstaklinga, sem kvöddu á árinu, minnst og sendum við aðstandendum þeirra innilegar samúðarkveðjur. 

 

Pétur Gunnarsson blaðamaður

Pétur Gunnarsson blaðamaður

Fæddur: 16. mars 1960

Látinn: 23. nóvember 2018

Pétur Gunnarsson var einn fremsti blaðamaður landsins. Hann var fyrsti fréttastjórinn hjá Fréttablaðinu og gegndi síðar sömu stöðu hjá Viðskiptablaðinu. Pétur stofnaði vefmiðilinn Eyjuna og gegndi þar stöðu ritstjóra og pistlahöfundar. Margir þekktir Íslendingar minntust Péturs í kjölfar fráfalls hans, þeirra á meðal  Egill Helgason: „Pétur Gunnarsson er einhver mikilsverðasti maður sem ég hef kynnst. Hann var skarpgreindur, afar fróður og réttsýnn. Hann hafði þann eiginleika að skoða mál á gagnrýninn hátt, taka ekki hlutunum eins og gefnum – og hann gat skipt um skoðun. Í samfélagi nútímans eru þetta feikilega mikilvægir eiginleikar.“ Brynjar Níelsson þingmaður minntist Péturs sem eins allra besta blaðamanns landsins: „Ólíklegt er að margir andmæli þeirri fullyrðingu minni að hann hafi verið með allra bestu blaðamönnum sem við höfum átt. Þar skipti máli hin mikla og almenna þekking sem Pétur bjó yfir. Enginn blaðamaður var betri en Pétur þegar kom að viðkvæmri umfjöllun um lögreglu- og dómsmál. Vegna þekkingar sinnar og innsæis gat hann dregið fram það sem skipti máli á hlutlausan og yfirvegaðan hátt.“

Jónas Kristjánsson, blaðamaður með meiru.

Jónas Kristjánsson, blaðamaður og fyrrverandi ritstjóri DV

Fæddur: 5. febrúar 1940

Látinn:  29. júní 2018

Jónas starfaði við fjölmiðla í ríflega hálfa öld þá einkum sem ritstjóri. Hann var ritstjóri DV í rúm tuttugu ár og stundakennari í blaðamennsku við Háskólann í Reykjavík. Hann gegndi stöðu formanns Blaðamannafélags Íslands og Íslandsnefndar International Press Institute og skrifaði jafnframt margar bækur, þá einkum bækur um áhugamál sín, ferðalög og hestamennsku. Sem fjölmiðlamaður fór hann eftir reglunni „Blaðamaður á enga vini“ og veigraði sér ekki við að beina ljósum að spillingu þar sem hún fannst. Áhrif hans á íslenska fjölmiðlun og fjölmiðlamenn eru og verða mikil og minntust hans fjöldamargir nafntogaðir Íslendingar, fjölmiðlamenn og fleiri á samfélagsmiðlum. Þeirra á meðal var Illugi Jökulsson, rithöfundur og fyrrverandi ritstjóri. „Um áhrif hans á sögu hinna ýmsu fjölmiðla má margt skrifa en fyrir ungan blaðamann fyrir nokkrum áratugum var afdráttarleysi hans lærdómsríkast. Hann kenndi manni hvort tveggja að tala enga tæpitungu og reyna aldrei að þóknast valdsmönnum. Þetta voru einkenni hans fram á síðustu stund og verða mér persónulega ævinlega efst í huga.“

Tómas Magnús Tómasson tónlistarmaður.

Tómas  Magnús Tómasson tónlistarmaður

Fæddur: 23. maí 1954

Látinn: 23. janúar 2018

Tómas Magnús Tómasson var bassaleikari með Þursaflokknum og Stuðmönnum auk fleiri sveita og þótti einstaklega afkastamikill tónlistarmaður. „Hann var orðheppinn og sniðugur. Það var ótrúlegt að horfa og hlusta á hann spila, hann var einn af okkar allra bestu og þó víðar væri leitað. Hann stjórnaði upptökum á mörgum af ástsælustu plötum þjóðarinnar. Hann var ótrúlegur bassaleikari og bassaskáld og hefur sett mark sitt á íslenska tónlistarsögu með fjöldanum öllum af grípandi bassalínum,“ sagði Eyþór Ingi Gunnlaugsson söngvari, einn þeirra fjölmörgu sem tjáðu sig um fráfall Tómasar á netinu.

 

Stefán Karl Stefánsson leikari

Stefán Karl Stefánsson leikari

Fæddur : 10. júlí 1975

Látinn: 26. ágúst 2018

Stefán Karl var einn ástsælasti leikari Íslendinga og baráttumaður gegn einelti. Hann var þekktastur fyrir hlutverk Glanna glæps í leikritunum og barnaþáttunum um Latabæ og hlutverk Trölla í söngleiknum Þegar Trölli stal jólunum, í uppsetningu í Bandaríkjunum og í Kanada. Hann var í ár sæmdur riddarakrossi fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar og samfélags og kjörinn maður ársins 2018 af lesendum DV. Auðunn Blöndal minntist Stefáns á Twitter: „Stefán Karl sendi mér tvisvar skilaboð um ævina og bæði voru pepp þegar ég var að fá leiðindi á netinu! Þín verður saknað fallegi maður.“

Jóhannes Gunnarsson, fyrrverandi formaður Neytendasamtakanna.

Jóhannes Gunnarsson, fyrrverandi formaður neytendasamtakanna

Fæddur: 3. október 1949.

Látinn: 6. janúar 2018

Jóhannes, mjólkurfræðingur að mennt, eyddi ríflega hálfri ævinni í baráttu fyrir hagsmunum neytenda og var formaður Neytendasamtakanna í rúm þrjátíu ár. Jóhannes var fenginn árið 1978 til að stýra fundi Neytendasamtakanna þar sem mál borgfirskra kvenna, sem höfðu kvartað undan útrunnum mjólkurvörum, var tekið fyrir. Eftir það varð ekki aftur snúið og neytendamál áttu hug hans allan. Þegar Jóhannes tilkynnti að hann hygðist hætta sem formaður samtakanna sagði hann á Facebook: „Ég hef verið formaður samtakanna lengi og tel tíma til kominn að annar taki við keflinu. Það hefur verið mér mikil ánægja og um leið heiður að hafa átt kost á því að leiða starf Neytendasamtakanna.“

Jóhann Jóhannsson tónskáld

Fæddur: 19. september 1969

Látinn: 9. febrúar 2018

Jóhann lést að heimili sínu í Berlín í febrúar, langt fyrir aldur fram. Undanfarin ár hafði Jóhann klifið  metorðastigann hratt í heimi kvikmyndatónlistar og var orðinn meðal þeirra allra virtustu í bransanum.  Hann var tvisvar tilnefndur til hinna virtu Óskarsverðlauna, annars vegar fyrir kvikmyndina The Theory of Everything og hins vegar fyrir kvikmyndina Sicario. Hann hlaut Golden Globe-verðlaunin og var auk þeirra tilnefndur til BAFTA- og Grammy-verðlaunanna. Áður en ferill hans sem tónskáld komst á flug hafði Jóhann gert það gott með hljómsveitum á borð við Ham og Apparat Organ Quartet.

 

 

Einar Darri Óskarsson

Fæddur: 10. febrúar 2000

Látinn: 25. maí 2018

Einar Darri var aðeins 18 ára gamall þegar hann lést á heimili sínu eftir neyslu róandi lyfja. Andlát hans kom fjölskyldu hans í opna skjöldu, en hann hafði aðeins fiktað við misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja í skamman tíma. Fjölskylda hans hefur stofnað minningarsjóð Einars Darra sem ætlað er að veita forvarnir og fræðslu gegn misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja og fíkniefna. Minningarsjóðurinn stendur fyrir þjóðarátakinu „Ég á bara eitt líf“, sem berst gegn fíkniefnum með áherslu á misnotkun lyfja meðal íslenskra ungmenna. Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis létust, á fyrri hluta ársins, 14 karlmenn og 2 konur vegna eitrunar sem má rekja til lyfja, áfengis og ólöglegra fíkniefna. Það sem af er ári hefur 51 andlát komið til skoðunar embættisins og í flestum þeirra hafa lyf komið við sögu.

 

Sigurður Svavarsson útgefandi

Sigurður Svavarsson útgefandi

Fæddur: 14. janúar 1954

Látinn: 26. október 2018

Sigurður var íslenskukennari við Menntaskólann í Hamrahlíð í um tvo áratugi áður en hann sneri sér að bókaútgáfu. Hann var ritstjóri kennslubóka og síðar framkvæmdastjóri hjá Máli og menningu, útgáfustjóri hjá Eddu-útgáfu og tók þátt í að stofna bókaútgáfuna Opnu. Hann ritstýrði og þýddi fjölda bóka á ferli sínum en á hans yngri árum var hann jafnframt mikill íþróttamaður og spilaði handknattleik í meistaraflokki, bæði með ÍR og Fram. Rithöfundurinn Kristín Helga Gunnarsdóttir var ein fjöldamargra sem minntust hans hlýlega: „Siggi var lífsglaður fagurkeri, ljúf og hlý manneskja með stóra faðminn og næman skilning á bókmenntunum. Hann kvaddi svo snemma og snögglega og það er skarð fyrir skildi meðal bókaútgefenda. „Og svo færðu borgað fyrir að gera það sem þér finnst skemmtilegast,“ sagði hann þegar hann rétti mér fyrstu ávísunina fyrir ritverk.“

Þorsteinn frá Hamri skáld

Þorsteinn Jónsson frá Hamri rithöfundur

Fæddur: 15. mars 1938

Látinn: 28. janúar 2018

Þorsteinn gaf út sína fyrstu ljóðabók, Í svörtum kufli, aðeins tvítugur. Eftir hann liggur fjöldi ljóðabóka, skáldsagna, sagnaþátta og fjöldamargar þýðingar. Hann var í stjórn Rithöfundafélags Íslands og  varamaður í stjórn, meðstjórnandi og að lokum heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands. Hann hlaut fjölda viðurkenninga fyrir ritstörf sín. Þeirra á meðal eru Íslensku bókmenntaverðlaunin, Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar, Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, riddarakross hinnar íslensku fálkakorðu fyrir ritstörf og Heiðurslaun Alþingis. Þegar Þorsteinn hlaut heiðursviðurkenningu Menningarverðlauna DV árið 2016 sagði í rökstuðningi dómnefndar: „Þorsteinn frá Hamri hefur í áratugi auðgað og dýpkað íslenska ljóðagerð. Stílgáfa hans er einstök og hugsunin ætíð hnitmiðuð og öguð. Í verkum hans, ljóðum jafnt sem prósaverkum, endurspeglast ást og virðing fyrir náttúru landsins, sögunni og hinum þjóðlega menningararfi. Tilgerð, prjál og raup hafa aldrei verið fylginautar þessa hógværa skálds sem þekkir mátt orðanna og hefur alltaf nýtt þau til gagns. Íslenskir ljóðaunnendur standa í þakkarskuld við Þorstein frá Hamri sem hefur af örlæti, og án háreysti, miðlað snilligáfu sinni og séð þannig til þess að ljóðið rati til sinna.“

 

Sverrir Hermannsson stjórnmálamaður

Sverrir Hermannsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra

Fæddur: 26. febrúar 1930

Látinn: 12. mars 2018

Sverrir sat á þingi og gegndi stöðu ráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann sagði sig síðar úr flokknum og stofnaði nýjan flokk, Frjálslynda flokkinn. Eftir að hann hætti á þingi tók hann við sem bankastjóri Landsbankans og gegndi því starfi í áratug. Í minningarorðum um Sverri, sem Steingrímur J. Sigfússon flutti á Alþingi, segir: „Í kringum Sverri Hermannsson ríkti sjaldnast lognmolla. Hann fór jafnan mikinn í orðum og athöfnum, hafði óvenjulega auðugt tungutak, var skýr og skorinorður í ræðustól, skapmikill og stór í sniðum. Í daglegum samskiptum hér á Alþingi var Sverrir hlýr í viðmóti, hreinn og beinn og tryggur sínum. Athafna Sverris sér víða stað en hann var ekki síst maður orðsins, málsnjall og orðheppinn, víðlesinn í íslenskum bókmenntum og hafði tilvitnanir úr þeim jafnan á hraðbergi. Hann var sögumaður góður, það svo að til hreinnar listar mátti teljast. Sverrir Hermannsson verður þeim sem honum kynntust í opinberum störfum minnisstæður maður, hvort sem skoðanir fóru saman eða ekki. Hann bar sig jafnan vel, lét til sín heyra og hélt reisn sinni fram á síðustu daga.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Áfall fyrir Arsenal
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar Þórðarson er áttræður í dag – „Takk fyrir alla dásamlegu músíkina“

Gunnar Þórðarson er áttræður í dag – „Takk fyrir alla dásamlegu músíkina“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þetta gerist ef þú sleppir áfengi í janúar

Þetta gerist ef þú sleppir áfengi í janúar