Ég er ein af þeim fjölmörgu sem hefur engin jól eins. Það þýðir að jólin á hverju ári eru sniðin eftir stöðu fölskyldunnar hverju sinni. Með því verða engin jól eins þó þau verði alltaf eitthvað svipuð á milli ára. Nú er til dæmis komin upp ný staða, þar sem þetta eru fyrstu jólin þar sem við hjónin eigum tvö börn. Fyrir vikið þarf að taka tillit til þess á hvaða aldri þau eru og stilla „öllu sem þarf að gera“ í hóf miðað við það.
Mig langar til að deila með öllum sem vilja lesa, því hvernig ég ætla að haga mínum málum í desember.
Markmiðin mín fyrir desember 2018
- Haga mér þannig í áti og lifnaði að mér líði vel þegar janúar 2019 kemur.
- Borða einungis 1.900 – 2.000 hitaeiningar á dag. Já, ég mun vigta allan mat sem ég borða! Það er ekkert eðlilegt að borða um 2.500-3.500 hitaeiningar í heilan mánuð, bara vegna þess að það eru að koma jól.
- Fara út í gönguferð alla rauða daga og frídaga.
- Vera alltaf með vel hugsaðan innkaupalista þegar ég fer í matvörubúð og kaupa einungis eftir honum.
- Eyða sem mestum tíma heima með börnunum mínum og eiginmanni í staðinn fyrir í verslunum. Það er búin að vera brjáluð vinnutörn núna á haustmánuðum þannig að þau eiga skilið að fá tíma með mér. Lesa bækur fyrir börnin, föndur, mála, leira og leika sér verður það sem ég ætla gera í mínum frítíma.
- Jólakort verða farin í póst fyrir 12. desember.
- Ekkert reykt eða saltað! Mér finnst þetta góður matur en mér líður ekki vel af honum. Í ár verður ekkert reykt né saltað á mínum borðum. Jólaandinn kemur ekki með þrútnum puttum og magaverk.
- Brosa, já, ég ætla að reyna brosa eins mikið og ég get í desember. Enda skemmtilegur mánuður, tónlist út um allt og kærleikurinn er út um allt.
Þér er velkomið að leika þessa punkta eftir. Ég mæli með því að þú setjir niður nokkra svona punkta um hvernig þú sérð fyrir þér desembermánuð. Svo getur þú rennt yfir þá á gamálársdag og séð hvort þetta hafi gengið vel hjá þér.