„Ástin dugir að eilífu,“ sungu Páll Óskar og Unun, en sú er ekki raunin. Samböndum manna er stundum ætlaður aðeins afmarkaður tími og tíma þessara para lauk á árinu.
Svala Björgvinsdóttir og Einar Egilsson
Greint var frá skilnaði Svölu Björgvins og Einars Egilssonar í september en þau höfðu gengið saman í gegnum súrt og sætt í rúmlega tuttugu ár. Í lok september opinberaði Svala að hún væri komin með nýjan ástmann. Sá heppni er hinn 23 ára gamli Guðmundur Gauti Sigurðarson.
Lína Birgitta og Sverrir Bergmann
Samfélagsmiðlastjarnan Lína Birgitta Camilla Stefánsdóttir og söngvarinn Sverrir Bergmann hættu saman í byrjun árs. Orðrómur hafði gengið manna milli um sambandsslitin um tíma uns Lína staðfesti þau á samfélagsmiðlum. „Það hvarflaði ekki að mér að það væri hægt að eiga gott og fallegt „breiköpp“ við neina manneskju. Ég verð að segja að það er svo mikil virðing og svo mikill kærleikur og við erum svo góð við hvort annað,“ sagði Lína og bætti svo við að hún og Sverrir væru þrátt fyrir allt bestu vinir. Margt getur breyst á einu ári og í dag er Sverrir í sambúð með Kristínu Evu Geirsdóttur, sérfræðingi í flugöryggis- og flugverndarmálum.
Sigríður Elva og Teitur
Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir, fréttakona á K100, og fyrrverandi fréttamaðurinn Teitur Þorkelsson tilkynntu um skilnað í október eftir 18 ára samband. Þau eiga eitt barn saman.
Rikka og Haraldur
Friðrika Hjördís Geirsdóttir, fjölmiðlakona og matgæðingur, og Haraldur Örn Ólafsson, pólfari og ævintýramaður, slitu sambandi sínu í haust eftir þriggja ára samband. Sem par lögðu þau stund á mikla útivist saman, klifu fjöll og klæddust úlpum, ætli þau skilin hangi þá inni á hlýrabolum?
Hildur Eir og Heimir
Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju, og Heimir Haraldsson eru skilin. Hildur tilkynnti það í færslu á Facebook í nóvember. „Við Heimir erum skilin eftir 20 ára samfylgd og 18 ára hjónaband sem gat af sér tvo undursamlega drengi og óendanlega dýrmæta vináttu sem við hjónaleysin ætlum svo sannarlega að rækta um ókomna tíð,“ sagði Hildur svo fallega um skilnaðinn. Hildur tók líka fram að gefnu tilefni að hún væri ekki samkynhneigð og ekki komin á Tinder. En það var þá. Nú er kominn mánuður frá opinberuninni og raunin gæti verið önnur í dag.
Sunna Elvíra og Sigurður
Sunna Elvíra vann hug og hjörtu Íslendinga eftir að hafa lamast í hörmulegu slysi á Spáni í janúar. Hún skildi í maí við eiginmann sinn, Sigurð Kristinsson, en hann er einn sakborninga í umfangsmiklu smyglmáli sem kennt er við Skáksamband Íslands. Málið varðaði sex kíló af amfetamíni sem smyglað var til landsins í skákgripum og sent á Skáksamband Íslands til að vekja ekki grunsemdir. Rétt er að taka það fram að Skáksamband Íslands hafði ekkert með málið að gera.
Sigurður Kristinsson.