fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Rúrik, Baltasar og 66°Norður mest gúgglað árið 2018

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 28. desember 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hverju leituðu landsmenn mest að á Google árið 2018? Auglýsingastofan SAHARA tók saman lista yfir nokkra flokka sem mikið er leitað í, svo sem vörumerki og íþróttafólk. Niðurstöðum er skipt í flokka og hér eru þær helstu.

Rúrik og Gylfi efstir meðal íþróttafólks

Rúrik Gíslason kom töluvert við sögu í fréttum á árinu, ekki síst í tengslum við miklar vinsældir á Instagram, en þar rauf hann milljón fylgjenda múrinn. Vinsældir hans á miðlinum jukust mikið eftir leik hans með landsliðinu gegn Argentínu á HM, ekki síst í Suður-Ameríku. Brasilíska leikkonan Gabriela Lopes spurði til að mynda fylgjendur sína á Instagram ‘How is it possible to be this cute?’, en hún hefur sjálf rúmlega tvær milljónir fylgjenda á miðlinum þegar þetta var skrifað.

Á Íslandi var leitað 2.400 sinnum í mánuði að meðaltali að nafni Rúriks Gíslasonar. Leitirnar dreifast mjög ójafnt yfir árið, því 18.100 sinnum var nafn Rúriks gúgglað í júní og 3.600 sinnum í júlí, mánuðina sem HM fór fram. Í nóvember var nafn Rúriks hins vegar „aðeins“ 480 sinnum slegið inn í leitarvélina á Íslandi.

Næstur á eftir Rúrik í leitum á Google var Gylfi Þór Sigurðsson en leitað var rúmlega 2.000 sinnum á mánuði að nafni hans að meðaltali. Dreifingin var ekki eins ójöfn yfir árið og hjá Rúrik, þótt mest hafi verið leitað í kringum HM. Í nóvember var jafnoft leitað að nafni Gylfa og nafni Rúriks.

Mikið var einnig leitað eftir nöfnum annarra landsliðsfélaga þeirra Rúriks og Gylfa. Þannig var nafn Alberts Guðmundssonar slegið inn 1.300 sinnum á mánuði og varnarjaxlinn Ragnar Sigurðsson kom 1.000 sinnum við sögu, rétt eins og Birkir Bjarnason. Markvörðurinn sem varði víti Lionel Messi á HM, Hannes Þór Halldórsson, fylgdi fast á hæla þeirra með 920 leitir að meðaltali á mánuði. Athygli vekur að engar upplýsingar finnast um hve oft nafn fyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar var slegið inn, en ætla má að hann væri annars einnig á meðal efstu manna í þessum samanburði.

Annað íþróttafólk var oft gúgglað á árinu og má þar nefna Katrínu Tönju Davíðsdóttur (390), margfaldan CrossFit meistara og Elínu Mettu Jensen (210), sóknarmann Vals og landsliðsins í fótbolta.

Baltasar, Ólafur Darri & Saga Garðars efst úr leiklistinni

Baltasar Kormákur trónir á toppnum í leiklistinni þegar kemur að leitum á Google með 760 að meðaltali á mánuði. Ólafur Darri sem fer með aðalhlutverk í spennuþáttunum Ófærð sem Baltasar leikstýrir er annar á listanum með 460 uppflettingar á mánuði. Saga Garðarsdóttir leikkona og uppistandari er á svipuðum slóðum með 430 uppflettingar á mánuði.

Vinsældir vörumerkja

Nokkur vörumerki í fataverslun skera sig úr í vinsældum á Google á Íslandi. Efst á þeim lista er 66°Norður með 19.800 leitir á mánuði. Leitirnar dreifast heldur meira á vetrarmánuðina eins og við var að búast fyrir útivistarfatnað. Leitum að 66°Norður hefur jafnframt fjölgað verulega síðustu mánuði en á tímabilinu september – nóvember 2018 voru leitirnar 28.700 að meðaltali í mánuði.

Breska netverslunin ASOS á miklum vinsældum að fagna hér á landi, sem endurspeglast í 9.900 leitum á mánuði að vörumerkinu. Önnur vörumerki á toppi leitarlistans eru íslenska útivistarvörufatnaðarmerkið Cintamani (4.400), auk alþjóðlegu íþróttavörurisanna Adidas (2.400) og Nike (2.400).

Auglýsingastofur

Í flokki auglýsingastofa deila SAHARA og Hvíta húsið efsta sætinu með 260 leitir að meðaltali á mánuði. Þar á eftir koma Brandenburg (210), Íslenska auglýsingastofan (170) og Pipar TBWA (140).

*Stuðst er við tölur frá Google þann 20. desember.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024