Söngsveitin Fílharmónía heldur árlega jólatónleika sína í Langholtskirkju í kvöld, fimmtudaginn 27. desember kl. 20. Einsöngvari verður Þóra Einarsdóttir, sópran, og með kórnum leikur tríó skipað Snorra Sigurðarsyni, trompetleikara, Þórði Sigurðarsyni, píanista, og Gunnari Hrafnssyni, kontrabassaleikara.
Efnisskráin verður í senn hátíðleg og með djassyfirbragði; frumfluttur verður gullfallegur jólasálmur eftir Arngerði Maríu Árnadóttur og séra Davíð Þór Jónsson, en jafnframt verða sungin lög eftir Ingibjörgu Þorbergs, Jórunni Viðar, Sigvalda Kaldalóns og Jón Sigurðsson, svo fáeinir séu nefndir, ýmist í nýjum eða alþekktum útsetningum, auk sígildra jólalaga frá ýmsum löndm.
Stjórnandi er Magnús Ragnarsson. Miðaverð er 3.900 kr. og miðar eru seldir á tix.is.
Í hléi verður boðið upp á heitt súkkulaði og nýbakaðar smákökur.