DV skoðaði nokkra af frægustu flugfreyjum og flugþjónum Íslands.
Ari starfaði áður sem flugþjónn hjá Icelandair. Hefur hann notað þennan tíma sem efnivið í uppistand sitt og hefur það slegið í gegn, bæði hjá Íslendingum og útlendingum. Grínaðist hann með það að flugfarþegar hafi haldið að aðeins konur gætu starfað við flugþjónustu. Þeir hafi því talið hann vera flugstjórann og enginn að fljúga vélinni.
Leikkonan Helga Braga varð landsþekkt fyrir gamanþættina Fóstbræður. Þar skrifaði hún og lék ásamt Jóni Gnarr, Sigurjóni Kjartanssyni og fleirum. Árið 2011 söðlaði hún um og útskrifaðist úr flugfreyjuskóla Iceland Express og hóf í kjölfarið störf fyrir félagið. Árið 2013 fór hún yfir til WOW air.
Birgir Örn, eða Biggi lögga eins og hann er nefndur í daglegu tali, hefur fengist við ýmislegt í gegnum tíðina. Til dæmis var hann formaður stjórnmálaflokksins Samstöðu og áhrifavaldur á Facebook. Í sex mánuði árið 2017 starfaði hann sem flugþjónn hjá Icelandair en sneri aftur til lögreglustarfanna eftir það.
Marín Manda hefur verið nokkuð áberandi í gegnum tíðina. Hún hefur meðal annars starfað við blaðamennsku, hönnun og rekið eigin verslun. Hún var einnig nokkuð þekkt fyrir ástarsambönd sín við Fjölni Þorgeirsson og Arnar Gunnlaugsson. Marín Manda hefur starfað hjá WOW air og er auk þess vinsæl á samfélagsmiðlum.
Leikkonan Edda, sem þekktust er fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Stella í orlofi, útskrifaðist úr flugfreyjuskóla Iceland Express árið 2010. Hóf hún í kjölfarið að fljúga með félaginu. Edda sneri aftur í leiklistina og sló til dæmis í gegn í kvikmyndinni Undir trénu.
Jón er gjarnan kallaður Jónsi í Svörtum fötum eftir hljómsveit hans sem stofnuð var árið 1998. Hann hefur náð langt í tónlistinni og meðal annars sungið í tvígang fyrir Íslands hönd í Eurovision. Jónsi hóf störf sem flugþjónn hjá Icelandair árið 2007 og starfaði þar samhliða listinni í áratug. Árið 2017 skipti hann um vettvang og starfar nú hjá Arion banka.
Landsmenn kannast best við Evu Laufeyju sem sjónvarpskokk á Stöð 2. Þar hefur hún slegið í gegn í þáttunum Ísskápastríð. Hún er einnig einn þekktasti matarbloggari landsins. Eva varð flugfreyja hjá Icelandair árið 2011 og starfaði þar á sumrin samhliða námi í viðskiptafræði.
Jóhanna varð fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra á Íslandi. Þá leiddi hún Íslendinga í ólgusjó eftir bankahrunið árið 2008. Jóhanna var bæði formaður Þjóðvaka og Samfylkingarinnar og gegndi ótal trúnaðarstörfum á ferli sínum. Árið 1962, þegar Jóhanna var tvítug, hóf hún störf sem flugfreyja hjá Loftleiðum og starfaði þar allt til ársins 1971.
Hin ástsæla gamanleikkona María Heba Þorkelsdóttir sló í gegn í kvikmyndinni Okkar eigin Osló árið 2012 og hlaut Edduverðlaun fyrir. Hún hefur einnig getið sér gott orð fyrir leik í þáttaröðum á borð við Fanga, Pressu og Hamarinn. Í vor útskrifaðist María sem flugfreyja hjá Icelandair.
Helga er ein þekktasta söngkona landsins og stundum kölluð diskódrottning Íslands. Þann titil fékk hún fyrir fjörutíu árum þegar hún söng í dúettinum Þú og Ég. Einnig var hún í Icy-tríóinu sem söng Gleðibankann árið 1986 í fyrstu Eurovision-keppni Íslendinga. Helga hefur starfað sem flugfreyja í meira en þrjátíu ár samhliða tónlistinni.
Stórleikarinn Gunnar Eyjólfsson lést fyrir rúmum tveimur árum. Hann var margverðlaunaður, bæði á fjölum leikhússins og fyrir kvikmyndaleik. Þekktastur var hann fyrir kvikmyndina 79 af stöðinni frá árinu 1962. Á sjötta áratugnum var Gunnar búsettur í Bandaríkjunum og starfaði þá meðal annars sem flugþjónn hjá Pan American á gullaldarárum þess.
Heiðar er snyrtifræðingur að mennt og hefur viðurnefnið snyrtir því fest við hann. Heiðar hefur verið viðloðandi tískubransann og dagskrárgerð í áratugi. Hefur hann til dæmis leiðbeint fólki varðandi framkomu, hreinlæti og útlit. Heiðar starfaði sem flugþjónn í áratug en gerðist síðar fararstjóri.