Vinirnir Viktor Ingi Guðmundsson og Páll Sigurður Sigurðsson tóku upp lagið Aleinn um jólin í minningu leikarans Stefáns Karl Stefánssonar, sem féll frá fyrr á árinu.
„Stefán Karl var rosalegur innblástur og náði hann að gleðja marga, hvort sem það var í gegnum leiklist, söng eða baráttuna gegn einelti. Hann fór frá okkur alltof snemma en við getum huggað okkur við það að minning hans mun aldrei deyja,“ segir Páll.
„Við vildum heiðra minningu hans með því að covera þetta fallega lag, Öll höfundarlaun tengt þessu lagi renna beint til barna Stefáns Takk fyrir allt Stefán Karl, gleðilega hátíð,“ segir Viktor.
Lagið flutti Stefán Karl fyrst í hlutverki sínu sem Glanni glæpur. Stefán Karl kom fram á jólatónleikum Björgvins Halldórssonar, Jólagestir Björgvins, síðustu jól, þar sem þeir fluttu lagið saman við mikinn fögnuð. Sá flutningur var nýlega gefinn út og rennur allur ágóði til fjölskyldu Stefáns Karls. Á jólatónleikum Björgvins núna í ár, var flutningur Stefáns Karls og Björgvins endurtekinn með aðstoð tækninnar, þar sem Björgvin stendur á sviðinu og syngur, og upptöku af Stefáni Karli frá því í fyrra er varpað á tjaldið. Eftir atriðið risu allir úr sætum sínum í Eldborg og klöppuðu til heiðurs Stefáni Karli.
Lagið er eftir Mána Svavarsson, sem gaf vinunum fúslega leyfi til að taka upp lagið.
Um undirspil sér Ingvar Alfreðsson.