Samkvæmt nýrri könnun MMR þá mun meirihluti heimila skarta gervitré yfir jólin líkt og fyrri ár. Litlar breytingar hafa orðið á jólatrjáahefðum landsmanna undanfarin ár en samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var dagana 5. til 11. desember segjast 54,5% landsmanna ætla að setja upp gervijólatré á heimili sínu þessi jól, 31,9% segjast ætla að setja upp lifandi jólatré en 13,6% segja ekkert jólatré verða á sínu heimili.
Munur eftir aldri, tekjum og stuðningi við stjórnmálaflokka.
Þegar litið er til bakgrunns svarenda má sjá að lítill munur reyndist á uppsetningu jólatrjáa eftir kyni. Svarendur á aldrinum 30-49 ára reyndust líklegust allra aldurshópa til að segjast munu hafa lifandi tré á heimilum sínum (33%), þau 18-29 ára reyndust líklegust til að segjast ætla að setja upp gervitré (56%) en svarendur í elsta aldurshópi (68 ára og eldri) voru líklegust til að segjast ekki ætla að vera með jóla tré í ár. Þá reyndust svarendur á höfuðborgarsvæðinu (33%) líklegri en þeir af landsbyggðinni (30%) til að segja lifandi jólatré skreyta heimili sín í ár.
Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsfólk Samfylkingar (41%), Viðreisnar (38%) og Sjálfstæðisflokks (36%) voru líklegust til að segjast munu hafa lifandi jólatré í ár en stuðningsfólk Flokks fólksins (72%) og Miðflokks (64%) reyndust líklegust til að segjast ætla að notast við gervitré. Þá reyndist stuðningsfólk Pírata (22%) líklegast til að segjast ekki ætla að hafa jólatré á heimilum sínum í ár.
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi
álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð:
Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 975 einstaklingar á aldrinum 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 5.-11. desember 2018