Baltasar Kormákur kvikmyndagerðarmaður leikstýrði tveimur sonum sínum í annarri þáttaröð af Ófærð, þeim Baltasar Breka og Stormi Jóni. Fyrstu tveir þættirnir voru forsýndir í Bíó Paradís á dögunum þar sem aðstandendur og gestir kíktu við, en Baltasar leikstýrði þeim fyrsta og síðasta í þáttaröðinni.
„Okkur vantaði lítinn djöful í hlutverk, strák sem er sætur en óþekkur,“ segir Baltasar í samtali við RÚV og vísar til Storms, en á undan því tekur hann fram að hann hafi áður leikstýrt nafna sínum í fyrri seríunni. Stormur tekur undir það að gegna hlutverki „lítils djöfuls“ í Ófærð.
Aðspurður hvernig er að leikstýra sonum sínum segir Baltasar að það hafi verið hreint frábært og bætir við að maður kynnist börnum sínum á annan hátt þegar starfað er með þeim. „Þá eru tveir jafningar sem mætast og þú þarft að mæta þeim á þannig grundvelli, en ekki sem pabbi þeirra,“ segir Baltasar.
Baltasar Breki tekur fram að það hafi verið skrítið hafi að láta pabba sinn leikstýra sér: „Mér var kannski ekki mikið leikstýrt af honum í þessari seríu en áður leikstýrði hann mér í kynlífssenu,“ segir hann kátur. „Ég þurfti aðeins að leiðbeina honum í þeim málum,“ skýtur Baltasar Kormákur inn, „en við komumst í gegnum það. Ég hafði meiri áhyggjur af stúlkunni heldur en honum, en við reyndum að gera þetta eins fallega og við gátum.“
Hann bendir á að Ugla Hauksdóttir hafi fengið þann heiður að leikstýra kynlífssenum Storms Jóns í nýju seríunni, „þannig að hann þurfti ekki að fara í gegnum þau vandræði,“ segir hann. Stormur fullyrðir að hann hafi verið afar feginn að pabbi hans leikstýrði sér ekki í ástarsenum.