„Ég var uppfullur af vonleysi. Ég áttaði mig þó á því að ég fengi aldrei að sjá dóttur mína nema ég kæmi mér í lag og ég fór í meðferð með það markmið að geta barist fyrir henni og fyrir hana,“ segir Atli Heiðar Gunnlaugsson. Atli Heiðar var í neyslu í rúm 30 ár, þar af í stanslausri neyslu í 22 ár. Hann var góðkunningi lögreglunnar og framdi ófáa glæpi, sat hann meðal annars í fangelsi í Frakklandi fyrir fíkniefnasmygl. Í dag er hann 44 ára einstæður faðir og edrú í fyrsta sinn í langan tíma eftir meðferð á Hlaðgerðarkoti. Hann segir í forsíðuviðtali Samhjálparblaðsins að hann hafi nú hafið nýtt líf með aðstoð Samhjálpar og tveggja ára dóttur sinni, Kristbjörgu.
Atli Heiðar var aðeins 14 ára þegar hann byrjaði að neyta áfengis, síðar fór hann að reykja kannabisefni. Hann var búinn að vera edrú í fjögur ár árið 1995 þegar hann prófaði örvandi efni á skemmtistaðnum Tunglinu. Næstu ár á eftir tók við tímabil sem einkenndist af aukinni neyslu og tíðum innlögnum á meðferðarstofnanir. „Í kjölfarið tók við mikið stjórnleysi. Þegar ég var 21 árs var ég orðinn gjaldþrota og miðað við þann tilfinningaþroska sem maður hefur á þeim aldri þá er það mikið hrun og maður sér ekki fram á að ná sér upp úr því. Ég í raun stimplaði mig út úr samfélaginu, heimurinn gafst upp á mér og ég gafst upp á heiminum,“ segir Atli Heiðar.
Árið 2006 endaði hann í fangelsi í Frakklandi fyrir fíkniefnasmygl, þá var hann lokaður inni í 8 fermetra klefa í 22 tíma á sólarhring. Árið 2009 sat hann svo inni á Íslandi eftir að hann rændi verslun Lyfju vopnaður exi til þess að verða sér út um rítalín. „Saga mín frá þessum árum einkennist af myrkri og svartnætti,“ segir Atli Heiðar. „Maður er enginn töffari þegar maður situr grátandi inni í fangaklefa og óskar sér þess að lífið væri einhvern veginn öðruvísi.“
Hann fór loks í meðferð á Hlaðgerðarkoti í júní 2017, eftir 22 ár í stanslausri neyslu. Fyrstu dagarnir voru mjög sársaukafullir, bæði líkamlega og andlega. „Fyrstu næturnar var rúmið gegnsósa af svita og ég þurfti að færa mig reglulega á milli rúma þar sem þau voru orðin of blaut til að liggja í. Þarna voru efnin að fara úr líkamanum með öllum þeim kvölum sem því fylgir, ég svaf í mesta lagi 2-4 klst. á nóttu og sársaukinn var gífurlegur. En ég beit á jaxlinn því ég var ákveðinn í að klára þetta. Á sama tíma og ég var að stíga mín fyrstu skref í bata var ég haldinn þráhyggju og ótta um dóttur mína sem ég vissi að var í slæmum aðstæðum.“
Atli Heiðar hafði svo samband við barnaverndaryfirvöld þar sem barnsmóðir hans var í neyslu og með litlu stúlkuna hjá sér. Í dag er hann í góðu sambandi við barnaverndaryfirvöld í Reykjavík sem fylgjast náið með. Hann segir öll vinnubrögð þar vera til fyrirmyndar. Atli Heiðar á svo eina dóttur sem er komin yfir tvítugt. „Það eru svo margir af mínum gömlu félögum fallnir frá og þau eru ófá skiptin sem ég hefði átt að láta lífið líka, ýmist vegna neyslu, slysa eða sjálfsvígstilrauna. En hér er ég í dag, lifandi, edrú og með ábyrgð sem faðir lítillar stúlku.“
Það stórt skref fyrir Atla Heiðar að verða edrú og hefja eðlilegt líf eftir svo langan tíma í neyslu, sem dæmi er hann í fyrsta sinn á ævinni byrjaður að nota heimabanka. Hann skuldaði mikið eftir neysluna, þar á meðal meðlag og átti að taka af honum bílinn hans. Bíllinn var forsenda fyrir því að hann fengi að halda Kristbjörgu hjá sér og tók því við hörð barátta að halda bílnum til að geta sótt hana á leikskólann. „Þetta er búinn að vera mikill rússíbani, sem ég hafði svo gott sem enga getu eða þroska til að takast á við. Ég fékk þó aðstoð hjá starfsfólki Samhjálpar til að takast á við þessi atriði og sú aðstoð var og er ómetanleg.“
Atli Heiðar ætlar að halda áfram baráttu sinni, mæta á AA-fundi og ala upp dóttur sína:
„Vissulega þyrmir stundum yfir og sú tilfinning er ekki góð. Það er ekki skemmtilegt að vera í þessari stöðu, en ég veit að ég þarf að halda áfram og gera mitt besta. Lífið er ekki Disney-mynd, það vita það flestir. Maður þarf að taka eitt verkefni fyrir í einu, sinna því sem hægt er að sinna og gera sitt besta. Meira getur maður ekki gert. Ég veit að ég er á réttri leið.“