Kjartan Þór Kjartansson eða Kjartan á Múla, er vel þekktur meðal hundaeigenda í Facebook-hópnum Hundasamfélagið. Þar deilir hann myndum af Bellu sinni sem er glaðlyndur Golden Retriever. Bella er hamingjusamur hundur og Kjartan er umhyggjusamur eigandi. En sagan af því af hverju Kjartan ákvað að fá sér hund og hvaða stefnu líf hans tók eftir þá ákvörðun er hvort tveggja sorgleg og falleg.
Neðangreint er hluti af stærra viðtali sem birtist í helgarblaði DV
Bella til bjargar
Þegar Kjartan kom út af Vogi og hafði minnkað morfínskammtinn þá þurfti hann að fylgja læknisráði og fara að hreyfa sig. Þá kom upp sú hugmynd að hann fengi sér hund. „Ég myndi þurfa að fara með hann út á hverjum degi.“ Þá fékk Kjartan Bellu sína. „Ég fékk hana og fór að hreyfa mig. Síðan þá hef ég misst um 25 kíló.“
Bella hjálpar Kjartani þó með meira en hreyfingu. „Eftir að ég fékk hana þá varð ég ekki lengur jafn einmana. Ég var svo einn áður, það var hræðilegt.“
Kjartan á góða vini og vandamenn, en þeir eru þó uppteknir af eigin lífi, í vinnu eða skóla, sem Kjartan getur ekki stundað. „Ég vildi gjarnan geta unnið í kannski svona 2–3 tíma á dag, bara upp á félagsskapinn.“ En vinna getur haft neikvæð áhrif á örorkubætur og myndi líka valda Kjartani auknum sársauka. Til hvers að leggja það á sig að upplifa meiri sársauka og mögulega lenda í veseni með örorkubæturnar?
Bella léttir líka lundina. Hún hjálpar Kjartani að dreifa huganum frá sársaukanum og bætir geð með brosmildi og hlýju. „Vírinn er farinn og ég er orðinn svo verkjaður aftur. Ég get því orðið mjög pirraður. Undanfarið hefur líka verið mikið álag á mér og líðanin eftir því. Þá þarf ég oft bara eitt bros frá henni Bellu, eða knús, til að líða betur.“
Smitandi gleði
Bella unir athygli blaðamanns vel og meðan á viðtalinu stendur hefur hún fyllt skó af leikföngum, stillt sér upp fyrir myndatöku og náð sér í knús hjá Kjartani. Það er auðvelt að skilja hvað Kjartan meinar þegar hann segir að Bellu fylgi mikil gleði. „Bella bjargaði lífi mínu. Ég hefði verið dauður úr offitu eða einhverju öðru.“
Til að þakka Bellu ákvað Kjartan að hún skyldi fá að eiga frábært líf. Hún er alin á fínasta hráfæði og Kjartan fer með hana í göngutúr tvisvar á dag. Hann hefur meira að segja útbúið 20 metra langan taum svo Bella hafi meira svigrúm til að hlaupa og kanna heiminn í göngutúrum.
Bella er hvers manns hugljúfi og fagnar öllum ákaft sem verða á vegi hennar. En hún er líka mikill dýravinur. „Það eru tveir svanir á Vífilsstaðavatni sem koma alltaf til okkar þegar ég og Bella komum upp að vatninu. Ég er búinn að nefna þá Rómeó og Júlíu. Þeir synda nánast alveg til okkar til að heilsa upp á Bellu. Ef hún sér hesta þá missir hún sig úr gleði. Þeir skokka til okkar þegar við komum nálægt girðingunni og heilsa henni. Bella hleypur og hleypur og finnst þetta ægilega gaman á meðan þeir leika við hana yfir girðinguna, hún geltir ekki á þá eða neitt, heldur virðist bara hugsa „vá nýju bestu vinir mínir, risastórir hundar“.
Við ferðumst líka rosalega mikið. Ég er með fellihýsi og hún sefur með mér þar. Í sumar fórum við í tíu útilegur og í þeirri síðustu vorum við í heila viku. Bella er búin að heimsækja alla helstu ferðamannastaði landsins. Hún er eiginlega aldrei ein, hún getur verið ein en það er sjaldan þörf á því. Í þessu fáu skipti sem hún er ein heima þá fer hún bara og leggur sig. Hún er svo rosalega glöð að ég verð líka glaður.“
Er gífurlega þakklátur
Það er lán fyrir Kjartan að eiga góða að. Fyrir það er hann gífurlega þakklátur. Þakklátur Bellu, fjölskyldu og vinum og þakklátur fagaðilum í heilbrigðiskerfinu. Fyrrverandi vinnuveitendur hans hjá útgerðinni Ósi ehf. hafa einnig verið honum ómetanlegur stuðningur. „Útgerðin hefur staðið með mér í fimm ár, alltaf. Skiptir engu máli hvað það er, þeir eru alltaf til í að hjálpa. Þeir hafa samband við mig að minnsta kosti einu sinni í viku. Ég vann hjá þeim í tuttugu ár. Ég var ekki bara einhver kennitala á pappír heldur er þeim virkilega annt um mig. Síðan hafa 66°Norður séð mér fyrir útivistarfatnaði og þeim er ég líka mjög þakklátur.“
Kjartan Þór var venjulegur íslenskur sjómaður, jafnvel óvenjulega hraustur íslenskur sjómaður. Í dag glímir hann við krónískan sársauka og er óvinnufær. Ekkert er sjálfgefið í lífinu, sérstaklega ekki heilsan, en blessuð dýrin geta verið ljós okkar í myrkrinu. Bella er glaðvær félagi sem styður Kjartan í gegnum stöðugan sársauka. Kjartan er ákaflega heppinn með hund, og að sama skapi er Bella líka ákaflega heppin með eiganda.