Myndlistarkonan Habbý Ósk opnar sýningu sína í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri laugardaginn 15. desember.
Habbý er fædd og uppalin á Akureyri en býr og starfar sem myndlistarkona í New York þar sem hún gerir það gott. Í listinni vinnur hún með ýmsa miðla og blandar þeim gjarnan saman í verkum sínum, til að mynda með samspili skúlptúra og ljósmynda af þeim. Hún vinnur með þemu líkt og varanleika, jafnvægi, tíma, þyngdarafl, hreyfingu og andhverfur þeirra. Habbý útskrifaðist með meistaragráðu í myndlist frá School of Visual Arts í New York 2009 og bachelorgráðu í myndlist frá AKI ArtEz Institute of the Arts í Enschede í Hollandi 2006. Hún hefur haldið einkasýningar á Íslandi og í Bandaríkjunum, tekið þátt í samsýningum víðsvegar um heiminn og gestavinnustofum.
Opnun sýningar Habbýar hefst klukkan 16 og eru allir velkomnir en sýningin stendur til 10. febrúar 2019. Sýningin er önnur myndlistarsýningin af fjórum sem settar verða upp í Hofi á starfsárinu. Nýlega lauk sýningu Brynhildar Kristinsdóttur, en í febrúar setur Þrándur Þórarinsson upp sýningu og í vor verður það myndlistamaðurinn Jón Laxdal sem sýnir verk sín í Hofi.