Steinunn Ásmundsdóttir: Manneskjusaga
158 bls.
Útgefandi: Björt
Skáldævisaga er merkilegt hugtak. Ég tel að Guðbergur Bergsson hafi komið fyrstur fram með orðið er hann gaf út fyrsta bindið í æskusögu sinni. Erfitt er að skilgreina hugtakið og greina þessa tegund sagna frá æviminningum en kannski mætti segja að hér sé um að ræða verk þar sem raunverulegum staðreyndum er haldið til haga en unnið úr þeim að miklu leyti með aðferðum skáldsögunnar. Í fljótu bragði virðist mér að flestar íslenskar bækur, flokkaðar sem skáldævisögur, séu sjálfsævisögulegs eðlis. Fyrir utan rómaðan æskuminningabálks Guðbergs má nefna hina stórgóðu bók Andlit eftir Bjarna Bjarnason. Fyrstu verkin í æviminningabálki Sigurðar A. Magnússonar heitins gætu hæglega flokkast undir skáldævisögur en bálkurinn tekur smám saman á sig mynd hefðbundinna æviminninga í síðari bindum.
Manneskjusaga er athyglisverð bók eftir Steinunni Ásmundsdóttur. Bókin er kynnt sem skáldævisaga en hér er ekki um sjálfsævisögulegt verk að ræða. Þetta er saga byggð á raunverulegum atburðum, hún rekur stutta ævi raunverulegrar manneskju en nöfn og staðir í bókinni eru uppspuni höfundar. Frásagnarmátinn orkar á mig sem blanda af skáldsögu og blaðamennsku. Sú blanda heppnast vel og verkið er með köflum áhrifaríkt.
Sögupersónan Björg er fædd árið 1959 og deyr fyrir aldur fram árið 2008. Þetta er mikil harmsaga þar sem ýmiss konar samfélagsböli sem hefur verið til umfjöllunar síðustu ár er lýst. Björg er ættleitt barn sem verður frá unga aldri utangátta í samfélaginu, meðal annars vegna hegðunarraskana sem ekki eru faglega greindar og enginn skilningur er sýndur – háttalag hennar vekur fordóma sem gera illt verra. Björg verður þolandi grimmdarlegs eineltis, síðar kynferðisofbeldis og virðist fá mjög óréttláta meðferð hjá barnaverndaryfirvöldum einmitt þegar lífið virðist vera að ganga henni í haginn.
Áleitnasta spurningin sem verkið vekur er hvort ástandið í þessum málaflokkum hafi batnað. Það eru ekki nema tíu ár síðan þessi kona lést. Þá spurningu eftirlæt ég lesendum þessa pistils að melta.
Samþjöppuð frásögn
Í skáldsögum er algengt, en þó engan veginn algilt, að persónur lýsi sér að miklu leyti í athöfnum sínum og atburðir séu raktir með hlutlausum hætti líkt og í kvikmynd. Manneskjusaga er ekki þannig bók. Hér er hegðun oft skýrð út og atburðir raktir meira með frásagnarkenndum hætti fremur en með myndrænum eða sviðsettum, þó að vissulega komi fyrir sviðsetningar og haganlega gerðar smáatriðalýsingar. Oft er farið hratt yfir sögu. Þetta veldur því að bókin, sem er býsna viðburðarík og með mörgum persónum, er þó stutt eða aðeins rétt tæplega 160 blaðsíður. Það er ekkert við þessa frásagnaraðferð að athuga og hún gengur vel upp. Hér er hvergi teygður lopinn, sagan er mjög skýr, vel skrifuð og frásögnin í góðu jafnvægi.
Einn nokkuð stóran galla finn ég á bókinni sem hefur ákveðin tengsl við frásagnarmátann. Björg leitar þráfaldlega aftur í sveitina til blóðföður síns þó að hann hafi nauðgað henni, og lætur raunar áframhaldandi kynferðisofbeldi yfir sig ganga þó að hún eigi víst öruggt skjól hjá ágætum foreldrum í Reykjavík sem ættleiddu hana. Á slíkum ákvörðunum má án nokkurs vafa finna áhugaverðar skýringar en mín lestrarupplifun var sú að höfundur tekst aldrei almennilega á við þetta. Og að láta þetta gerast að mestu skýringarlaust er á skjön við frásagnarmáta bókarinnar í heild þar sem alvitur höfundur greinir skuldlaust frá hugsunum og tilfinningum flestra helstu persóna.
Manneskjusaga er í heildina vel gerð saga og efni hennar verðskuldar umræðu í samfélaginu.