Trúnó snýr aftur í Sjónvarpi Símans Premium 21. desember, en í þáttunum fáum við að kynnast nýrri hlið á þjóðþekktum tónlistarmönnum. Um er að ræða aðra þáttaröð og eru viðmælendur hennar Gunnar Þórðarson, Högni í Hjaltalín, Mugison og Raggi Bjarna.
Þeir segja okkur frá hlutum og viðburðum í þeirra lífi sem hafa mótað listsköpun þeirra í tónlist með einlægum hætti, segja frá hlutum sem þeir hafa ekki talað um áður.
„Þetta eru draumaviðmælendur sem ég fékk í báðum seríunum. Tónlistin þeirra er svo stór hluti af lífi okkar allra. Mig langaði að hafa þættina í eldhúsinu heima hjá þeim og komast að kjarnanum um lífið og listina,“ segir Anna Hildur.
Allir fjórir þættirnir verða aðgengilegir í Sjónvarpi Símans Premium 21. desember en þeir eru framleiddir af Tattarrattat fyrir Símann. Hugmynd og handrit þáttanna á Anna Hildur Hildibrandsdóttir, en leikstjóri og tökumaður er Margrét Seema Takyar.