fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

Leikdómur: Rejúníon- „Marglaga verk um lífið“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 10. desember 2018 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karítas Hrundar Pálsdóttir meistaranemi í ritlist skrifar í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, leikdóm um Rejúníon, sem sýnt er í Tjarnarbíói.

Leikhópurinn Lakehouse frumsýndi á dögum verkið Rejúníon eftir nýja íslenska leikskáldið Sóleyju Ómarsdóttur. Leikstjórn er í höndum Árna Kristjánssonar. Sviðsrýmið er Tjarnarbíó.

Allur tilfinningaskalinn

Rejúníon gerist í íslenskum samtíma og fjallar um Júlíu (Sólveig Guðmundsdóttir), eftirsóttan ferlafræðing sem rekur sitt eigið ráðgjafafyrirtæki, er með níu þúsund fylgjendur á Snapchat og skipuleggur grunnskólarejúníon aldarinnar með æskuvinkonu sinni, Hrefnu (Sara Marti Guðmundsdóttir). Það er bara eitt sem reynist ofurkonunni erfitt og það er að fóta sig í móðurhlutverkinu. Verkið er ofið úr þremur þráðum sem fléttast saman. Það er fortíðin; fyrstu dagar Júlíu og Barkar (Orri Huginn Ágústsson) í foreldrahlutverkinu. Og nútíðin sem skiptist í tvennt; samskipti Júlíu við eiginmann sinn sem er farinn á undan henni með dóttur þeirra til Noregs og samskipti Júlíu við æskuvinkonu sína í tengslum við skipulagningu grunnskólarejúníonsins.

Júlía hefur ekki gert upp fortíðina. Hún glímdi við fæðingarþunglyndi þegar hún átti dóttur sína og hefur ekki enn, þremur árum síðar, náð að vinna úr þeim tilfinningum sem því tengjast. Verkið fjallar á átakanlegan hátt um fæðingarþunglyndi en það varpar einnig ljósi á barneignir almennt, sambönd og samfélagspressu. Það er marglaga. Ef til vill mætti segja að efnistökin séu lífið sjálft, og því ást, vinátta, fjölskyldubönd, gleði og sorg. Persónur verksins eru mannlegar, tilfinningarnar kunnuglegar, átökin nærtæk. Leikurunum ferst vel úr hendi að tjá ólíkar tilfinningar, svo sem vandræðaleika, örvæntingu og reiði. Sólveig fer á kostum í Rejúníon, líkt og í verkunum Sóley Rós ræstitæknir og Svartlyng.

Velheppnaðar sviðsetningar

Þó verkið sé dramatískt er það ekki laust við húmor. Sviðsetningar á Skype-samtölum hjónanna og Snapchat-upptökum Júlíu eru hnyttnar. Þegar Júlía og Börkur tala saman á Skype snúa þau sér beint út í sal. Júlía stendur þá á miðju sviðinu, sem er íbúðin þeirra, en Börkur á palli til hliðar við miðju, sem er húsnæði þeirra í Noregi. Í stað þess að styðjast við vídeótækni reynir á leiklistarhæfileika Orra Hugins. Hann frýs grettur í miðri setningu, endurtekur sig og segir eitthvað óskiljanlegt bull þegar netsambandið höktir. Sviðsetningin er snjöll og skemmtileg og fékk áhorfendur til að hlæja.

Eins og það kemur vel út að nota ekki vídeótækni í Skype-atriðunum er flott hvernig slík tækni er nýtt til fulls í Snapchat-atriðunum (Ingi Bekk). Júlía tekur sjálfa sig nokkrum sinnum upp á Snapchat. Þá beinist athygli áhorfenda á hvíta vegginn við enda sviðsins sem reyndist í laginu eins og uppréttur snjallsími. Á skjánum talar Júlía við myndavélina og útskýrir bollakökubaksturinn sinn. Á sama tíma er Júlía að pósa á sviðinu með símann á lofti. Hreyfingar hennar minna á dans. Skemmtilegt uppbrot er einnig í sýningunni þegar Júlía gengur eins og módel á sýningarpalli áður en hún segir frá velgengi sinni í starfi og öllum fylgjendum sínum á Snapchat. Hún lætur eins og hún sé með allt sitt á hreinu.

Nokkur orð um tónlist

Tónlist og hljóðmynd (Harpa Fönn Sigurjónsdóttir) gerir mikið fyrir sýninguna. Hún ýtir undir kómíkina þegar þess þarf og styður við dramatíkina þess á milli. Flott er hvernig hljóð eins og hlátur, smell í gómi, flaut, söngl og barnahjal er notað til að skapa laglínur og ryðma. Sum laganna minna á vögguvísur. Skemmtilegt er að greina merkingarbær hljóð, eins og „vá, vá“ og „ahh“ í lögunum þrátt fyrir að þau séu instrumental. 90‘s lög sem vinkonurnar spila skapa síðan nostalgíska stemningu þegar þær eru að hita upp fyrir rejúníonið.

Rejúníon er vel skrifað verk í flottri uppsetningu Lakehouse. Það fjallar meðal annars um fæðingarþunglyndi, eitthvað sem ekki hefur verið fjallað um í íslenskri leikritun fram til þessa. Ekki er annað að sjá en Lakehouse-hópurinn nái því markmiði sínu að nota nýjar aðferðir til að vinna með nýjar sögur – sögur sem lítið hafa heyrst á sviði, samanber viðtal við Árna Kristjánsson leikstjóra. Mikið er um snjallar lausnir í sviðsetningunni. Og leikararnir túlka persónurnar Júlíu, Hrefnu og Börk af mikilli sannfæringu.

Greinin birtist fyrst í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“