fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Guðrún Ágústa – „Ísland er að murka úr mér lífið hægt og rólega, menntun er bara skuldasúpa út í lífið“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 10. desember 2018 11:00

Guðrún Ágústa Ágústsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Ágústa Ágústsdóttir, starfar sem ráðgjafi hjá SÁÁ, en hún er master í uppeldis – og menntunarfræðum og með master diploma í Fjölskyldumeðferð.

Í færslu sem hún skrifaði á föstudag lýsir hún ástandinu sem hún stendur frammi fyrir, eftir að hafa verið sagt upp leigunni. „Enn á ný og aftur stöndum við mæðgin frammi fyrir því að eiga bráðum hvergi heima,“ segir Guðrún Ágústa, og bætir við að eftir að hafa skoðað það sem er í boði á leigumarkaðinum geti hún mögulega fengið leigt fyrir 250 þúsund á mánuði.

Þá er eftir að greiða hita, rafmagn og hússjóð af laununum, en Guðrún Ágústa segist fá rétt um 300 þúsund krónur útborgaðar á mánuði.

Furðar hún sig á því að þrátt fyrir að hafa verið á leigumarkaði í 12 ár og ávallt staðið í skilum, þá fær hún hvergi lán fyrir kaupum á íbúð. Þrátt fyrir að greiðsla af láni væri minni en leigugreiðslurnar, sem hún hefur eins og áður segir, ávallt staðið skil á.

Fjármálafyrirtækin vilja ekki lána fólki eins og mér sem er „bara með eina innkomu“. Það er ekki nokkur lifandi leið að komast í gegnum greiðslumat ef þú ert einstaklingur sem átt ekki maka og hvað þá ef þú átt barn eða börn sem þú ert með á framfæri, gleymdu þessu! En hvað er þá til ráða?

Langar að standa í lappirnar sjálf

Segir Guðrún Ágústa að fólk hafi gefið henni mörg ráð til að bæta ástandið, eins og að hún nái sér í fyrirvinnu, reyni að gerast öryrki, eða komast á framfærslu ríkisins. Segir hún að hana langi ekki til neins af þessu og vilji standa undir sér sjálf og sjá fyrir sér og syni sínum.

Menntun er skuldasúpa, enginn máttur

Guðrún er vel menntuð, með þrjár háskólagráður og segist hún hafa staðið í þeirri meiningu að menntun væri máttur og að námi loknu myndi hún fá vel launað starf og geta séð fyrir þeim mæðginum. Raunin sé hins vegar önnur: hún er enn í láglaunastarfi, á bráðum hvergi heima, og skuldirnar hafi aðeins aukist, eftir að námslánin bættust við.

Ég er algjör baráttukona og það hefur ekki verið til í minni orðabók að gefast upp, frá því ég var barn hef ég barist fyrir mínu, en núna finn ég að ég get ekki meir…ég get þetta ekki lengur, Ísland er að drepa mig!!! Ísland er að murka úr mér lífið hægt og rólega!!!

Spyr hún að lokum hvort þetta ástand sé skýringin á svartri atvinnustarfsemi og það sem við sem samfélag viljum, að fólk hætti að mennta sig og vinna arðbæra vinnu.

Færslu Guðrúnar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Dagurinn sem ég fékk nóg!!!
Fyrir þremur dögum var mér sagt upp leigunni, enn á ný og aftur stöndum við mæðgin frammi fyrir því að eiga bráðum hvergi heima. Ég er að skoða leigusíðurnar og ég gæti mögulega fengið leigt fyrir náð og miskunn upp á 250 þúsund krónur minnst á mánuði, fyrir utan hita, rafmagn og hússjóð. Sem mörgum þykja ef til vill bara smá peningar, en ég er að fá útborgað rétt um 300.000 á mánuði að meðaltali, húsaleigubætur eru reiknaðar miðað við laun fyrir skatt, ég er því að fá að meðaltali um 30.000 í húsaleigubætur. Ég er eina fyrirvinnan á mínu heimili og hef verið síðast liðinn 12 ár.

Ég hef verið á almennum húsaleigumarkaði í þann tíma og ávalt staðið í skilum með leigu, samt er ekkert fjármálafyrirtæki hér á landi sem treystir sér til að lána mér fyrir kaupum á íbúð. Hef ég fylgst vel með fasteignamarkaðinum og hefði ég fengið lán fyrir þessum 12 árum þá væri ég að borga margfalt minna af lánum en ég borga í leigu. Ég gekk svo langt að ég pantaði fund með velferðarráðherra fyrir nokkrum árum, þar vonaðist ég til að fá aðstoð eða jafnvel hugmyndir um hvernig ég gæti komið þaki yfir höfuð okkar mæðgina. Nei það var nú ekki svo gott, þar var nú beinlínis hæðst að mér og fór ég þaðan með óbragð í munni. Ég spurðist m.a fyrir um það af hverju ég gæti ekki fengið keypta eign eins og þessir áhugasömu fjárfestar sem voru að kaupa heilu eignakippurnar af íbúðalánasjóði, þá fékk ég þau svör að þeim væri ekki heimilt að gefa eignir ríkisins. En það var engin að biðja um það, ég var einfaldlega að biðja um vilyrði fyrir að fá íbúð keypta og ég ætlaði mér að sjálfsögðu að borga af henni, ég var ekki að biðja um neina gjöf hérna!

Fjármálafyrirtækin vilja ekki lána fólki eins og mér sem er „bara með eina innkomu“. Það er ekki nokkur lifandi leið að komast í gegnum greiðslumat ef þú ert einstaklingur sem átt ekki maka og hvað þá ef þú átt barn eða börn sem þú ert með á framfæri, gleymdu þessu! En hvað er þá til ráða? Ég hef fengið hugmyndir hjá fólki í kringum mig eins og til dæmis að ná mér í fyrirvinnu, segja mig á bæjinn, reyna að gerast öryrki og komast þá í íbúð frá öryrkjabandalaginu og margar fleir ágætar hugmyndir. Hvað ef mig langar ekki til neins af þessu, hvað ef mig langar að standa í lappirnar sjálf og sjá fyrir mér og syni mínum, er það bara bannað í þessu samfélagi?? Ég stóð í þeirri meiningu að menntun væri máttur og ég sá í hyllingum að þegar öllu því erfiði yrði lokið þá fengi ég vel launað starf og gæti séð fyrir mér og syni mínum. Sonur minn spurði mig í einni prófa törninni „mamma hvenær ætlaru að klára og hætta í Háskólanum“ Ég man þegar ég sat hálf stjörf við tölvuna og sagði við son minn, ég er að gera þetta fyrir okkur, svo að við getum vonandi eignast heimili bráðum og betra líf. Núna þremur Háskólagráðum síðar sit ég í sömu helvítis súpunni, við eigum hvergi heima bráðum, ég er enn að vinna láglauna starf (af því að ég er kona) en það eina sem breyttist er að núna er ég með námslánin á bakinu í þokkabót.

Menntun er engin fokkings máttur hér á Íslandi, menntun er bara skuldasúpa út lífið á Íslandi. Ég er algjör baráttukona og það hefur ekki verið til í minni orðabók að gefast upp, frá því ég var barn hef ég barist fyrir mínu, en núna finn ég að ég get ekki meir…ég get þetta ekki lengur, Ísland er að drepa mig!!! Ísland er að murka úr mér lífið hægt og rólega!!! Ég hef hingað til stolt geta sagt að ég hef aldrei orðið gjaldþrota, ég fékk engar afskriftir og niðurfellingar lána eða frystingar lána, ég hef aldrei verið á svörtum listum lánastofnanna og alltaf staðið við mitt, ég er með allt mitt á þurru hjá Credit Info…með mína EINU innkomu hef ég afrekað það í gegnum heilt bankahrun og fjármála hörmungar. Ég hef borgað skatta og skyldur og haft virkilega mikið fyrir því að halda öllum boltum á lofti.

En mér er ekki treystandi til að borga af húsnæðislánum, Af hverju ekki??? Sjálfstæði eru mannréttindi, mér þykir stórkostlega vegið að mínu sjálfstæði þegar mér er ekki gert kleyft að eiga heimili. Það er eitthvað mikið að í samfélagi sem gerir ekki annað en að reyna að knésetja fólkið sem þar býr. Ég sló inn upplýsingar í reiknimaskínu Velferðarráðuneytisins og miðað við okkur tvö í heimili þá er neysluviðmið um 280.000 á mánuði fyrir utan húsnæðiskostnað. Segjum að ég fengi leigt á 250.000 á mánuði eins og leiguverð er í dag. Þá þarf ég að vera með útborguð laun upp á 530.000, það er amk 200.000 meira en ég er í raun með í útborguð laun. Hvernig á þetta að vera hægt? Ég er í 100% vaktavinnu og get ekki bætt á mig vinnu, hvað er þá til ráða? Mennta sig meira? Nei það skilar engu…

Ég spyr mig oft ætli þetta sé að hluta til ástæðan fyrir blómstrandi glæpastarfssemi hér á landi, svört starfssemi meðfram örorku og atvinnuleysisbótum. Fólk lærir jú að redda sér. Er þetta það sem við ætlum að stefna á sem samfélag, að fólk hætti að mennta sig og hætti að vinna arðbæra vinnu og snúi sér að glæpastarfssemi í staðinn. Það virðist nú vera orðin þjóðar íþrótt að svíkja undan skatti og eða vera í skattaskjóli. Við þurfum svo sem ekki að vera hissa á því að allt frá hruni hefur ekkert verið gert, þá meina ég EKKERT í málefnum leigjenda á Íslandi, þegar við sjáum hvernig vinnubrögð viðgangast þarna á Alþingi og á Klausturbar. Í mínum huga er stóri skandallinn sá hvernig ríkið hefur verið algerlega sofandi á verðinum í húsnæðismálum í bráðum 11 ár. Að eiga heimili eru nú samt alger grunn mannréttindi. Hvernig haldiði að börn, ungmenni og fólk almennt komi undan þessu, að vera á harki í 11 ár og eiga hvergi almennilega heima? Í meira en áratug gott fólk….

Gleðileg jól og deilið að vild

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“